10.08.1931
Efri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég býst við, að það verði frekar skoðað sem spaugsyrði en afbrýðissemi, sem hv. 2. landsk. var að segja um það, hverjir myndu verða í stjórninni. Því verður ekki neitað, að aðstaðan er nú önnur en þegar stjórn var mynduð síðast. Ég geri ekki ráð fyrir, að það þurfi nú að tala við hv. 2. landsk. um stjórnarmyndun, sem óneitanlega var gert þá. Þá fékk hann að ráða fyrstur manna um það, hverjir yrðu í stjórn, en ég geri ráð fyrir, að hann fái nú að vita það um líkt leyti og aðrir.

Á titilblaði bókarinnar, sem hv. þm. nefndi, stendur, hver hafi. gefið bókina út. Ef hv. 2. landsk. vill fá að vita nákvæmlega, hvað það hefir kostað að gefa bókina út, þá mun hann geta fengið að vita það í stjórnarráðinu. Ég hefi ekki tölurnar nú við hendina, en mun geta náð í þær seinna. Um myndirnar er það að segja, að þær voru búnar til fyrir bókina, en hv. þm., sem er gamall prentari, ætti að vita, hvaða reglur gilda um slíkar myndir. Það er algengt, að einn lánar þær öðrum. Og ef blað það, sem hv. þm. er mest riðinn við, óskar að fá þær að láni, þá býst ég við, að það mundi verða veitt greiðlega.