08.08.1931
Efri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (2023)

9. mál, brúargerðir

Páll Hermannsson:

Ég hafði svipaða skoðun á þessu máli og fram kom hjá þeim hv. þm., er síðast talaði. Ég hafði búizt við því, eftir því sem d. tók í þetta mál á síðasta þingi, að frv. mundi ganga fram nú í svipuðu formi og það var flutt í af stj., en við 2. umr. virtist mér verða hér vart nokkuð ólíkrar stefnu, því að þá virtust flestir dm. sammála um það, að réttast væri að bæta sem flestum brúm inn í frv., sem fyrirsjáanlegt væri, að þyrfti að byggja. Með hliðsjón af þeirri skoðun d. á málinu hefi ég leyft mér að flytja brtt. við frv., þar sem ég fer fram á; að tekin verði upp í frv. nokkur óbrúuð vatnsföll í mínu kjördæmi. Get ég jafnframt lýst yfir því, að þessi upptalning er ekki tæmandi, og að enn eru ekki fáar ár óbrúaðar á þessum slóðum, þó að ég hafi hinsvegar ekki ráðizt í að gera till. um, að fleiri yrðu teknar upp brúarlögin að þessu sinni.

Þessar brtt. mínar eru prentaðar á þskj. 108. Eru þær mjög einfaldar, svo að ég þarf ekki mörg orð um þær að hafa. Þær 5 brýr, sem taldar eru upp undir fyrra lið till., eru allar á þjóðveginum, sem liggur úr Fljótsdalshéraði norður um. Vopnafjörð og norður í Þingeyjarsýslu. Geri ég ekki ráð fyrir, að þær muni kosta mikið fé, því að hér er ekki um stórbrýr að ræða, heldur eru þetta allt fremur litlar brýr, og ein þeirra er a. m. k. smábrú, eins og kallað er. 3 þessar brýr eru í Skeggjastaðahreppi í Norður-Múlasýslu, og þar sem nú ber senn að því, að þjóðveginum á þessum stað verði hrundið áfram með meiri krafti en verið hefir, þó að áheyrn þingsins fyrir því máli hafi reyndar ekki fengizt enn, en þessar brýr koma hinsvegar allar til með að vera á þessum vegi, getur enginn vafi á því leikið, að það kemur í hlut ríkisins að byggja þessar brýr fyrr eða seinna, eins og aðrar brýr á þjóðvegum. Sú eina brú, sem getur undir síðara tölulið till. minnar, er hinsvegar ekki á þjóðvegi, heldur á sýsluvegi. Þar er um að ræða Jökulsá á Dal hjá Hjarðarhaga, en sú á er ein af stórvötnum landsins og mjög ill yfirferðar. Rennur hún eftir endilöngum Jökuldal, og þó að tvær brýr séu nú þegar á ánni, hrekkur það ekki nærri til, því að vegalengdin á milli þessara brúa er um 60–70 km. Gerir og vegamálastjóri ráð fyrir því, að þarna muni koma brú áður en á löngu líður, þó að hann hinsvegar hafi ekki séð sér fært að gera till. um, að brúin yrði tekin upp í brúarlögin að þessu sinni. Svo er ráð fyrir gert, að þessi brú verði 22 m. á lengd og muni kosta um 25 þús. kr. Brúarstæði er þarna ágætt, því að áin fellur víðast í þröngum gljúfrum, enda er hún ófær meiri hl. ársins að kalla má, því að ferja tollir ekki á ánni og hún má heita óreið með öllu. Ég vænti því þess, að hv. d. sjái sér fært að samþ. þessar till. mínar, engu síður en þær aðrar till., sem hér liggja fyrir, og sé ekki ástæða til að fara um þetta fleiri orðum að svo stöddu.