07.08.1931
Neðri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Einar Arnórsson:

Hv. þm. Mýr. sagði síðast í ræðu sinni, að Reykjavík horfði aðgerðarlaus á það, þó Skildinganes brynni upp. En þetta er grálega mælt og ósatt. Þegar eldur kom þar upp um daginn, þá fór slökkvilið Reykjavíkur þegar á vettvang, og þó því tækist ekki að bjarga timburhjalli þar frá því að brenna upp, þá tókst því þó að verja nærliggjandi hús. En það var ekki svo vel um búið hjá forráðamönnum þar, að vatni yrði náð úr vatnsveitu þeirra. Þeir hafa ekki haft hugsun á því, að nauðsynlegt væri að ná í vatn utanhúss til að nota við eldsvoða. (MJ: Það er miðað við þeirra slökkvilið). Já, ef miðað væri við þeirra slökkvilið, sem er = 0, þá þyrfti náttúrlega ekkert vatn.

Það var sniðug röksemd hjá hv. þm. Mýr., að af því að Reykjavík væri umlukt af Kjósarsýslu, þá ætti hún að innlimast í sýsluna. Ég væri þakklátur hv. þm. Mýr., ef hann vildi innlima Reykjavík í Kjósarsýslu, því að það yrði bæði Rvík og Kjósarsýslu til mikils hagræðis. Ég er algerlega með honum í því að koma svo ágætu hagsmunamáli fram, og skal með ánægju ganga inn á, að frv. verði orðað svo, að Kjósarsýsla innlimi Rvík. Bæjarstjórn Rvíkur verður þá auðvitað lögð niður, en sett í staðinn sameiginleg stjórn fyrir þessa landshluta.