20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (2044)

22. mál, Jöfnunarsjóður

Magnús Jónsson:

Ég býst við, að flestir geti fallizt á þá hugmynd, sem á bak við þetta frv. liggur. Í henni felst almennur sannleikur, sem jafnt á við ríkisbú og önnur fyrirtæki: að nota tekjur góðæranna til að fleyta sér yfir erfiðari árin. Þessi hugmynd liggur til grundvallar fyrir frv., og hún er fyllilega réttmæt. Og það er heldur ekki nema eðlilegt,að þessi hugsun taki á sig ákveðna mynd í frv.formi eftir reynslu undanfarinna ára. Hún sýnir, eins og hv. flm. benti á, að síðustu þrjú árin hafa umframtekjur numið næstum 15 millj. og að nú er enginn eyrir eftir til að mæta kreppunni. En sú reynsla færir ekki rök fyrir því, að þetta frv. sé óhjákvæmilegt. Hún sýnir, að undanfarin ár hefir ekki verið hirt um að safna í kornhlöður. Hún sýnir, að fjárveitingavald Alþingis hefir verið virt að vettugi. Til þess að koma í veg fyrir, að slíkt fyrirhyggjuleysi og gerræði endurtaki sig, þarf Alþingi ekki endilega að samþykkja þetta frv. Nei. til þess þarf það ekki annað en að segja skýrt og skorinort, að það vilji sjálft ráða yfir ríkissjóðnum, en ekki láta stj. haldast uppi að taka sér þetta vald í hendur.

Allir vita, að ríkissjóður er nú tæmdur að fé. Þetta hefir þó ekki orðið sökum neinna óvæntra atvika, til dæmis vegna þess að lögboðin gjöld hafi orðið hærri en búizt var við. Þetta stafar beinlínis af því, að vilji Alþingis hefir verið virtur að vettugi. Framkvæmdavaldið hefir veitt margfalt meira fé til ýmsra hluta en Alþingi ætlaðist til, og auk þess ráðstafað fé á allt annan hátt en gert hefir verið ráð fyrir í fjárlögum. En sérstaklega liggur þó fjársóunin í umframveitingunum.

Þótt ég og efalaust flestir hv. þdm. muni geta fallizt á hugsun þá, sem liggur á bak við frv., sé ég þó ekki ástæðu til að fylgja því. Mér finnst liggja miklu nær fyrir Alþingi að finna ráð til að binda framkvæmdarvaldið fastar við ákvæði fjárl., úr því að reynslan hefir sýnt, að þörf er á því. Þetta mætti gera með einföldum ákvæðum í fjárl. sjálfum. Þyrfti ekki annað en að taka það fram, að allir þeir gjaldaliðir, sem ekki eru áætlunarupphæðir, væru hámarksupphæð. Með því móti safnaðist ósjálfrátt í jöfnunarsjóð, og jafnvel meira en frv. gerir ráð fyrir.

Mér finnst jafnvel, að frv. gefi stj. dálítið undir fótinn um eyðslu umframtekna. Samkv. því á að greiða 1/3 mest af mestu umframtekjum. En auðvitað ætti að binda alla upphæðina. Stj. á ekki að hafa neitt fjárveitingarvald. Ef miklar tekjur safnast eitt ár, eiga þær allar að vera til ráðstöfunar á næsta Alþingi. Þá ætti ekki að vera hætta á, að ríkissjóðurinn yrði þurrausinn í góðærum, enda væri ríkissjóðurinn vel stæður nú, ef Alþingi hefði fengið að ráða.

Það mun rétt vera, að tekjur fyrra helmings þessa árs séu jafnháar og fyrra helming ársins í fyrra, eða um 4 millj. kr. Einn stærsti tekjustofninn, tekjuskatturinn, er ekki farinn að innheimtast ennþá, en útlit er fyrir, að hann verði ekki verulega lægri en í fyrra.

Það, sem maður veit um tekjur þessa árs, er það, að allt útlit er fyrir, að þær verði mjög sæmilegar, og því verður að gera ráðstafanir til þess, að ekki fari eins og undanfarin ár. Það, sem okkur hv. flm. greinir á um, er, hvaða leið skuli farin. Þeir vilja leggja féð í varasjóð, en ég vil, að Alþingi haldi fast í það vald, sem því hefir verið veitt, og sem það hefir sýnt, að það kann að fara með, þótt samþykktir þess hafi ekki nægt eyðslutilhneigingum framsóknarstjórnarinnar.