10.08.1931
Efri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Þorláksson:

Af því að stj. sú, sem situr við völd, er bráðabirgðastjórn, þá hefi ég ætlað að leiða hjá mér að fara út í almennar umr. að því er stjórnina snertir við þetta tækifæri. Ég miða nú ekki svo mjög við það, að enn er ekki komin ný stj., svo menn viti, því ég lít svo á, að Framsókn geti ekki myndað aðra stj. en bráðabirgðastjórn, þar sem hún hefir ekki nema minni hl. kjósenda. Hún hefir því ekki rétt til þess að mynda fullgilda pólitíska stjórn. Þó gæti farið svo, að stjórnarmyndun tækist þannig til, að ástæða væri til að minnast á eitthvað úr stjórnarsögu undanfarandi ára, þegar stjórnarskipunin er komin fram.

Hér hefir verið gert að umtalsefni rit það sem atvmrn. hefir gefið út, og ég vil ekki láta umr. líða svo hjá, að ég taki ekki þátt í þeim hvað þetta rit snertir. Þetta rit er alveg einstakt í sinni röð, ef það á að skoðast sem stjórnarskýrsla, og þá fyrst og fremst vegna þess, hvað það er óvenjulega mikið rangt í því, svo að það er engu líkara en að það sé samsafn af blaðagreinum úr óvandaðasta blaði landsins, en ekki skýrsla stj. Ég veit, að ég verð að finna orðum mínum stað og ætla því að nefna einstök dæmi. Ég sting þá niður á 1. bls., því hana las ég fyrst. Þar er vitnað í það, að ég hafi á landsmálafundi á Sveinsstöðum árið 1926 gert ráð fyrir, að árið 1940 myndi verða bílfært úr Borgarnesi norður til Húsavíkur. Síðan er frá því sagt, að vegakerfi landsins hafi aukizt með meiri hraða en nokkru sinni áður og miklu hraðar en ég þarna hafi áætlað. Nú er strax undarlegt að vitna í fundarræðu úti á landi, þegar til eru skjalleg gögn í höndum stj. En um þessa fyrirætlun stj. eru til skjalleg gögn í aths. við fjárlagafrv. fyrir 1926, og sé sú áætlun borin saman við það, sem búið er að leggja, þá sést, að það er langt á eftir áætlun. Ég hefi því miður ekki áætlunina fyrir framan mig. Þar var gert ráð fyrir, að á næsta ári (1932) yrði vegurinn yfir Holtavörðuheiði og alla leið að Vatnsskarði fullgerður, en hann er ófullgerður enn. Og það er allt annað mál, þó bilstjórar brjótist yfir hann að sumarlagi. Það er fölsun, að bera rudda sumarvegi saman við áætlun þáv. stj. um fullgerða akvegi. Það er alveg óheyrilegt, að í stjórnarskýrslu sé farið svona óráðvandlega með heimildir.

Ég ætla að nefna annað dæmi, sem er líka tekið af handahófi. Á bls. 225 er kostnaður við berklavarnir talinn árin 1927–30. Þar er prýðilega dregið línurit, sem sýnir, að 1927 hafi kostnaður við berklavarnir hækkað úr 580 þús. kr. upp í 1 millj. Árið 1928 hafi hann verið fyrir neðan 1 millj., en fallið svo um eitthvað 300 þús. kr., eða um ca. 30 %. Þar segir ennfremur: „Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja frá hagstofunni, hefir dýrtíðin minnkað um 3% frá 1927–1930. Af þessum 300 þús. kr., sem sparazt hafa á ári tvö síðustu árin, ættu þá 9000 kr. að hafa sparazt vegna minnkandi dýrtíðar. Hinar 291 þús. kr. hafa því sparazt fyrir bætta löggjöf og með bættum stjórnarframkvæmdum“. Ég þykist vita, að hv. þm. muni vera svo minnisgóðir, að þeir muni, að á þingi 1927 var lögleidd breyt. á berklavarnalögunum, þar á meðal um tilhögun á greiðslu sýslusjóðanna gagnvart ríkissjóði. Ég var fjmrh. þá og skýrði þá þegar frá því, að árið 1927 kæmi til gjalda úr ríkissjóði miklu meira en eins árs berklakostnaður vegna þessarar breytingar. Áður endurgreiddi ríkið sýslufélögunum 2/5 kostnaðar eftir á, en nú greiðir ríkið allan kostnaðinn beint til spítalanna. Meðan breytingin var að komast á, hlaut berklakostnaður eins árs að hækka um 2/5 eða meira. Þetta er orsökin til hækkunarinnar 1927, því að það ár kemur meira en eins árs kostnaður til útgjalda. Svo er verið að flagga með því, að árlegur kostnaður hafi síðan lækkað um 300 þús. kr. eða meira, fyrir bætta löggjöf og bættar stjórnarframkvæmdir. Þetta er fölsun. Ég hefi ekki rannsakað það, hvort hærri kostnaður 1928 getur líka átt rót sína að rekja til þessarar breyttu löggjafar. En samt verður núv. forsrh. að svara til þess, ef berklakostnaður 1928 hefir farið úr hófi fram. En þessi fölsun er send landsmönnum sem opinberar skýrslur, þar sem sagt er, að berklavarnakostnaður 1927 hafi verið 400 þús. kr. hærri en 1926, án þess að geta þess, að þetta stafar að mestu af tilfærslu á reikningum. Læt ég svo nægja það, sem ég hefi þegar sagt, til þess að sýna fram á óheilindin í þessari rökfærslu. Veit ég ekki, hvort hæstv. stj. telur sér þessa skýrslu samboðna. Hitt veit ég, að hingað til hefir engin stj. setið hér að völdum, sem slíkt hefði mátt segja um, og vona ég, að það verði aldrei hér eftir. Þetta rit, sem í heild sinni hefir á sér svip óvandaðs kosningarits, flokksrits, sem samboðið er óvandaðri flokksstjórn, er sent út um landið rétt fyrir kosningar til atkvæðasmölunar. Allir vita, að það var klókindabragð að senda ritið út rétt fyrir kosningar, til þess að ekkert væri hægt að leiðrétta, enda munu þeir menn, sem það geta, hafa annað þarfara að gera en að eltast við slíkt.

Við stjórnarskiptin, sem urðu að nokkru leyti í apríl síðastl., var ákveðið að fresta útsendingu ritsins, og fólst í því loforð um það, að stj. skyldi koma fram sem hlutlaus bráðabirgðastjórn, þangað til eftir kosningarnar. Í þessu fólst jafnframt viðurkenning um það, að skýrslan væri ósæmileg, því að auðvitað væri ekkert því til fyrirstöðu að bráðabirgðastj. sendi út sanna skýrslu um verklegar framkvæmdir.

Forsrh. skýrði frá því, að komið hefði til mála að láta Framsóknarfl. kosta útgáfu ritsins. Hefði það verið sýnu sæmilegra en að láta ríkissjóð greiða kostnaðinn, þó að ég vilji ekki halda því fram, að Framsóknarfl. öllum sé bókin samboðin, a. m. k. að því er til kjósenda hans kemur. Forsrh. var þá á því, að ef ritið væri ekki svo úr garði gert, að stj. teldi það sæmilegt til útsendingar eins og stæði, þá væri heldur ekki sæmilegt að láta ríkið kosta það. En samt var skýrslan birt og send út um allt land, svo að segja eftir heimilaskrá, og eytt í það tugum þúsunda dagana fyrir kosningarnar, en ekki var hirt um að senda hana til þeirra manna, sem lögum samkv. eiga að fá opinberar skýrslur. Líklega hefir verið horfið frá því fyrir kostnaðarsakir, að Framsókn gæfi ritið út.

Þarna er verið að gylla fjárhagsafkomu ríkisprentsmiðjunnar. Það er reyndar ekki nema eðlilegt, að afkoman sé sæmileg, þegar ríkið borgar henni stórfé fyrir að vinna verk, sem aldrei skyldi hafa verið unnið. Fer ég svo ekki fleiri orðum um skýrsluna, þó að margir kaflar séu þar með öllu ósæmilegir. Bókin er í heild sinni landinu til minnkunar, og ætti slíkri stj., sem gefur út annað eins á ríkiskostnað, að finnast hún gera lítið úr sér. Verð ég að beina því til hæstv. forsrh., að ég tel það óráðvendni í meðferð á ríkisfé að takast slíkt á hendur á þessum erfiðu tímum, þegar varla er hægt að greiða starfsmönnum ríkisins sæmileg sultarlaun. Hefir verið farið þeim orðum um þetta hér á þingi, að það væri þjófnaður. Á lagamáli er það að vísu ekki þjófnaður, en ég fyrir mitt leyti geri ekki mikinn mun á því og þeim verknaði.