17.08.1931
Efri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Jón Þorláksson:

Mér þykir nú ekki beint skemmtilegt að þurfa að tala fyrir svo fáskipaðri þingdeild.

Ég vil fyrst taka það fram, út af því, sem talað var um stuðningsmenn og andstæðinga þessa máls, að ég fyrir mitt leyti er alveg hlutlaus í þessu máli. Ég er í Rvík og greiði hér alla mína skatta og skyldur, en hefi hinsvegar hafzt við nokkurn hluta ársins suður í þessu umþráttaða plássi. Persónulega hagsmuni tel ég mig hafa á hvorugan veginn, hvort sem þessi sameining á sér stað eða ekki. Og afstaða mín til málsins fer því eingöngu eftir því, hvort ég álít, að þinginu takist að gera löggjöfina forsvaranlega úr garði. Mér finnst málið ekki nærri eins undibúið og það þarf að vera, og frv. bera þess mikil merki. Ég minntist á það við 1. umr., að það stendur dálítið sérstaklega á þarna. Það er verzlunarstaður, sem orðinn er með fjölmennustu verzlunarstöðum landsins, sem annarsvegar er gert ráð fyrir að leggja undir Rvík. Nú hefir þarna í fjölmenninu vaxið upp ýmislegt, sem tilheyrir annars sveitarfélagi. Spurningin er, hvernig fer um það við þessa sameiningu. Það hefir við meðferð málsins í Nd. verið tekið upp ákvæði um vatnsveitu þá, sem Vatnsveitufélag Skildinganeskauptúns hefir gert þarna, að Reykjavíkurbær kaupi hana; og sýnist það ekki nema sjálfsagt. En þó hefi ég orðið var við, að orðalag á þessu frv. þyki orka ákafleg, mikið tvímælis þessu viðvíkjandi. Fyrir 2–3 árum, þegar farið var að leggja vegi um þetta þorp, voru lagðar vatnsæðar í vegina, þó að ekkert samband væri komið við vatnsveituna. Það stóð þá í málaferlum milli Vatnsveitufélagsins og Reykjavíkur um það, hvort og hvernig Vatnsveitufélagið mætti nota þennan rétt, sem íbúar Seltjarnarneshrepps hafa til að fá vatn úr vatnsveitu Reykjavíkur. Þessi málaferli stóðu í tvö ár, og þess vegna varð það ekki fyrr en á yfirstandandi ári, sem vatnsveita var lögð til Skildinganeskauptúns úr vatnsveitu Reykjavíkur.

Nú orðar frv. þetta þannig, að Reykjavík skuli rétt og skylt að kaupa vatnsveitu þá, sem Vatnsveitufélag Skildinganesþorps hefir lagt úr vatnsveitu Reykjavíkur. Ég hefi orðið var við þann skilning, að hér sé aðeins um að ræða æðina, sem Vatnsveitufélagið lagði úr vatnsveitu Reykjavíkur og yfir í það æðakerfi, sem fyrir var í vegunum um þorpið. En mér finnst ekki ná neinni átt að skipa þessu máli með lögum þannig, að Reykjavík sé ekki skyld til að kaupa annað en samtengingaræðina. Ég veit þá ekki, hvernig ætti að fara með vatnsveituna að öðru leyti.

Þá vil ég nokkuð athuga þau tímatakmörk, sem frv. setur. Það stendur í frv., að sameining skuli fara fram 1. janúar 1932, en endanlegum fjárskiptum þarf ekki að vera lokið fyrr en ári síðar. Nú hefir þessi vatnsveita sennilega kostað um 40–50 þús. kr., og eflaust er langmest af því í skuld. Nú er spurning, hvernig á að fara með þetta fyrirtæki á þeim tíma, sem líður frá því að sameiningin átti sér stað og þangað til fjárskiptin eru komin í kring. Ég held, að Vatnsveitufélag Skildinganess geti ekki innheimt vatnsskatt í kauptúninu eftir sameininguna. Mér skilst því, að það geti lent í einhverri óreiðu um þessi lán þetta ár, sem þarna ber á milli. Ég geri ráð fyrir, að ef 1. ákveða að fjárskiptum skuli lokið í árslok 1932, þá kunni yfirmatsgerð að dragast fram á árið 1933. Ég sé ekki ástæðu fyrir því að draga þetta til ársloka 1932. Því ekki að gera þetta fyrir árslok 1931, þ. e. a. s. ganga að því þegar lögin koma í gildi og játa fjárskiptum vera lokið um leið og sameining fer fram? Það hlýtur að verða ákaflega leiðinlegt millibilsástand þetta ár — og sjálfsagt verður það lengri tími —, sem líður milli sameiningarinnar og fjárskiptanna.

Þá vil ég sérstaklega gagnvart Vatnsveitufélaginu taka það fram, að hugmyndin er náttúrlega sú, að þessi stofnun líði undir lok, þegar vatnsveitan er komin inn í vatnsveitu Reykjavíkur. En þá sýnist líka nauðsynlegt að ákveða, að Reykjavíkurbær greiði kostnað við þær matsgerðir og aðrar athafnir, sem þurfa að fara fram vegna fjárskiptingar, því að Vatnsveitufélagið á engar eignir aðrar en Vatnsveituna, og ég sé ekki, hvernig hægt er að ná matskostnaði eða málfærslukostnaði, frá Vatnsveitufélaginu, eftir að það er liðið undir lok. Það er dálítið óvenjulegt ákvæði, þegar um mat er að ræða, að skylda annan aðila að greiða matskostnað, en mér finnst svo verði að vera í þessu tilfelli.

Þá er næst, að ýmislegt hefir verið gert þarna annað en vatnsveitan, sem í kaupstöðum og kauptúnum heyrir til sveitarframkvæmda. Það er nú fyrir sig, að þar hafa verið lagðir vegnir, eins og gerist í kauptúnum, og byggðin er svo fram með þessum vegum. Hvernig á að fara með þá við sameininguna? Á Reykjavík ekki að hafa neinar skyldur til að taka að sér þessa vegi til viðhalds a. m. k., hvað sem líður spurningunni um það að borga hreppsbúum fyrir vegina, sem þeir hafa gert. Mér finnst mjög illa farið, ef þetta svæði er innlimað án þess að bænum sé gert að skyldu að halda vegunum við a. m. k. Ég tel raunar líklegt, að Reykjavík muni að sjálfsögðu hafa viðhaldsskyldu gagnvart hreppsvegunum þarna. En svo eru vegir lagðir fyrir fé einstakra manna, án þess að neitt hafi verið ákveðið, að þeir skyldu verða hreppsvegir. Þó hefir hreppurinn lagt eitthvað til viðhalds þeirra nú síðustu árin, að ég held, en ekki þori ég að fullyrða um það. Meðfram þessum vegum stendur mesta byggðin, og mér finnst þurfa í þessari löggjöf að skylda Reykjavík til að sjá um viðhald þeirra.

Þá er enn, að í ýmsum af þessum vegum eru lögð holræsi, og hreppurinn hefir ekki lagt neitt til þeirra, svo að þau eru ekki talin með hreppsins eignum. Nú er það svo í Reykjavík, að bærinn leggur holræsi í götur, en fær þó nokkurt framlag til holræsanna frá lóðaeigendum. Mér finnst öll sanngirni mæla með því, að Reykjavíkurbær borgi þeim, sem hafa lagt þessi holræsi, að frádregnu því framlagi, sem lóðaeigendur hafa átt að leggja til. En um þetta stendur ekkert í frv.

Það ákvæði, að aðilar verði að hlíta úrskurði gerðardóms, tel ég varhugavert. Það er dálítið óvenjuleg hugsun, að svipta menn með lögum rétti til að leita úrskurðar dómstóls. Gerðardómsleiðin er yfirleitt helzt valin, þegar um það verður samkomulag beggja aðilja. Eftir slíku samkomulagi hefir alls ekki verið leitað hér. En þó að það þyki viðunandi að ákveða þetta með þvingunarráðstöfun, þá sýnist mér enn vera ákaflega lítil trygging fyrir báða málsaðila og fyrir réttargæzlu í þessu yfirleitt, hvernig gerðardómurinn er skipaður.

Það mun oftast reynast svo, að þegar tveir aðilar eiga að leggja til hvor sinn mann í gerðardóm, og hæstiréttur bara einn, að þeir tveir fyrrnefndu líta á sig sem málaflutningsmenn fyrir þá aðila, sem skipa þá, og það verður 3. maðurinn, sá sem hæstiréttur skipar, sem afgerir málið. Og hann hefir þá ekki annan kost en að fallast á till. annarshvors aðilans. Annars fæst enginn meiri hluti til þess að fella úrskurðinn. Ég verð að segja, að þetta er mjög veikur gerðardómur. Ég get ekki heldur fallizt á uppástungu hv. 1. þm. Reykv. eins og hún kemur fram í brtt. hans á þskj. 314. Samkv. l. hefir bæjarstjórn Reykjavíkur ekki heimild til þess að lögkveðja menn í gerðardóm, sem eiga heima utan lögsagnarumdæmisins; líklegast yrðu því allir gerðardómsmennirnir Reykvíkingar. Réttast væri að láta hæstarétt útnefna alla mennina, eða a. m. k. 3 af 5. Það væri sá eini gerðardómur, sem gæti dæmt óhlutdrægt í þessu máli. Þá fyrst væri hægt að fá dóm án þess að þeir, sem dæma, þyrftu að binda sig við það að fylgja kröfu annars málsaðilans, en það verður að vera, ef frv. gengur óbreytt fram. Ég hefi fyrir skömmu setið í gerðardómi, sem var eins skipaður og frv. gerir ráð fyrir að verði í þessu máli, nema hvað dómendur voru 5, og 3 þeirra skipaðir af hæstarétti. Þar fór svo, að þeir 3 komu sér saman um dóm, sem fór meðalveg, en samt kom vandkvæði við þessháttar skipaðan gerðardóm þegar í ljós. Ég hafði ætlað mér að bera fram brtt. við 3. umr. þessa frv., en sé mér það ekki fært fyrr en útkljáð er um brtt. hv. 1. þm. Reykv., því að órétt er að gera brtt. við frv., sem maður hefir enga hugmynd um, hvernig verði orðað. Mér þykir leiðinlegt, að enginn hv. nm. skuli vera viðstaddur; annars hefði ég farið nánar út í ýms atriði þessa máls.