17.08.1931
Efri deild: 31. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Jón Baldvinsson:

Það steðjar nú allskonar ólán að þessu frv. Hv. frsm. n. og annar hv. nefndarmanna einnig eru veikir, og sá 3. er ekki hér viðstaddur. Hér hefir verið borinn fram sandur af brtt., aðallega frá hv. 1. þm. Reykv., og þó sumar þeirra séu ef til vill æskilegar, þá má telja víst, að verði þær allar samþykktar, nái frv. ekki samþ. hv. Nd. Aftur á móti getur þessi eina till., sem hv. n. bar fram, aðeins skoðazt sem leiðrétting; hún er bara þess efnis, að breyta „kauptúni“ í „þorp“ á einum stað. Ég held, að þetta mundi engum misskilningi valda, en er ef til vill réttara að taka tillit til þessarar brtt. Þá ætla ég að benda hv. 1. þm. Reykv. á það, að 1. brtt. hans á þskj. 314 er alveg gersamlega óþörf. Ég sé ekki, að hún yrði til annars en að gera skyldu Reykjavíkurbæjar um þurfalingaframfærslu í þessum hreppi ennþá víðtækari en frv. fer fram á.

Hinar till., um að fella niður skaðabótagreiðslu til Seltjarnarneshrepps og Kjósarsýslu, gætu komið til mála, en hv. þm. veit það, að reglan hefir verið sú um slíka sameiningu og hér er átt við, þegar jarðir eða stærri landsvæði eru lögð undir kaupstaðina, að einhverjar skaðabætur hafa verið greiddar. Þetta hefir verið ákveðið í lögum og þannig skapazt fordæmi, sem erfitt er að ganga framhjá. Svo var það t. d. þegar jarðirnar Ártún, Árbær, Breiðholt og mestur hluti Elliðavatnsengja var lagt undir Rvík, þá voru ákveðnar allháar skaðabætur til handa viðkomandi aðiljum. Ég tel ennfremur, að hv. Nd. muni ekki fallast á slíkabreyt., og gæti það því orðið frv. til tjóns, ef hún væri sett inn hér. Hv. 1. landsk. gerir það auðvitað upp við sjálfan sig, hvort hann fylgir þessu frv., ef brtt. hans verða felldar. Hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. landsk. hafa lýst yfir því, að þeir muni flytja margar brtt. við 3. umr. Það sýnist nú svo, ef hv. 1. landsk. hefði viljað hraða þessu máli, að hann hefði getað borið fram varatill., sem oft er gert, ef menn vilja hraða málum. Hv. 1. landsk. sagðist vera hlutlaus í þessu máli. Slíka yfirlýsingu ber ekki að rengja. En aths. hans við þetta frv. eru á þá leið, að helzt lítur út fyrir, að hann sé ekki hlutlaus í þessu máli.

Ástæður hans finnst mér lítilsvirði, og fremur til þess að hafa eitthvað að athuga við frv. en af góðvilja til framgangs þess. Hann talaði um ónógan undirbúning, en ég get ekki samþ. það. Þetta mál hefir legið fyrir hv. Alþ. í mörg ár, það hefir verið rætt rækilega af báðum aðiljum, og áskorun hefir komið frá íbúum Skildinganeskauptúns, þess efnis, að þeir óski, að sameining fari fram. Hv. 1. landsk. hélt því fram, að frv. væri allmjög ábótavant. Hann vildi láta bæta inn í það t. d. víðtækari ákvæðum viðvíkjandi Vatnsveitufélaginu og viðhaldi vega. Ég tel víst, að þegar sameining hefir farið fram, geri Reykjavík sitt eigið plan um vegakerfi, og eins þykir mér ólíklegt, að þá verði haldið við öllum stigum og götum, sem lagðar hafa verið heim að húsum einstakra manna.

Hv. þm. hélt því fram, að Vatnsveitufélagið mundi ekki geta innheimt vatnsskatt fyrst um sinn, ef þetta mál nái fram að ganga. Þetta held ég að sé ekki rétt. Ég tel alveg sjálfsagt, að Vatnsveitufél. innheimti hann þar til afhending er að fullu um garð gengin. Yrði ágreiningur út af þessu, ætti hann að fara í gerð samkv. frv., og vænti ég, að þar fengist viðunandi úrlausn.

Ég fer nú að efast um einlægni hv. 1. þm. Reykv. Hann gerir það, sem hann getur, frv. til tafar og ámætis, bæði í brtt. og ræðum. Þér þykir þetta undarlegt; eftir þeim áhuga, sem kjósendur hér í bæ hafa fyrir þessu máli, finnst mér það sízt sitja á honum að bregða fyrir það fæti. En þetta er ekki aðeins hagsmunamál fyrir Reykjavíkurbæ, heldur er þessi sameining einnig nauðsynleg fyrir öryggi íbúanna þarna suður frá. Upp á síðkastið hafa orðið tveir stórhrunar þarna suður frá, og er það m. a. því að kenna, að kauptúnið er þess ekki umkomið að hafa fullkomið slökkvilið. Úr þessu væri bætt með sameiningunni, því að þá heyrði þetta undir slökkvilið Reykjavíkur. Auk þess má benda á, að þarna er byggt algerlega skipulagslaust, getur svo að segja hver sem er sett þarna hús á laggirnar, hvar sem honum sjálfum þóknast. Lítið eftirlit mun einnig haft með gerð þessara húsa. Það er því mikil hætta á því, að þarna komi upp mikið af lélegum húsum, og öll hætta er á, að síðar verði þessur íbúðir notaðar handa fátæku fólki, og gætu þær þá orðið til þess, að bygging nauðsynlegra verkamannabústaða yrði dregin þar úr hófi fram.

Það eru að öllu samanlögðu svo margar stoðir, sem renna undir þetta frv., að það er ekki forsvaranlegt að tefja það að óþörfu. Enda hygg ég, að aðalmótstaðan í þessu máli stafi frá nokkrum húseigendum í kringum Eggert Claessen þarna suður frá. Ég held, að það sé ráð að samþykkja frv. óbreytt, til þess að koma því frá.

Það var rétt hjá hv. 1. landsk., að þegar gerðardómur er skipaður eins og gert er ráð fyrir í frv., þá verði tveir dómendurnir málaflutningsmenn hvor fyrir sinn aðilja. En mér finnst engin skylda knýja oddamann dómsins til þess að fallast á skoðun annarshvors málsaðiljans. Hann getur sem bezt haft alveg sjálfstæða skoðun á málinu, og neytt annanhvorn hinna meðdómendanna til þess að fylgja sinni skoðun. En mér líkar ekki sú tilhögun, sem stungið er upp á í till. hv. 1. landsk.; ég held, að ef hæstiréttur ætti að skipa 3 af 5 gerðardómsmönnum, gætu þeir ráðið öllu og þyrftu ekki að neinu leyti að taka kröfur viðkomandi málsaðilja til greina, hvað réttmætar sem þær kynnu að vera og þó að þær væru á fyllstu sanngirni byggðar.