20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Jón Þorláksson:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 353, sem fela í sér umbætur á annmörkum þeim, sem ég taldi á frv. við 2. umr. og ég þá gerði grein fyrir. Till. hefi ég reynt að orða þannig, að þær reki sig ekki á brtt. hv. l. þm. Reykv., og vænti ég þess, að hæstv. forseti geti borið till. upp í réttri röð eins og þær koma við frv., þannig að ekkert ósamræmi verði í því. Brtt. við 2. gr. fjallar um vegi, vatnsveitu og holræsi á því svæði, sem á að innlima. Ég vil fara fram á það við hæstv. forseta, að hann beri þessar málsgr. upp hverja fyrir sig, svo að vilji hv. þdm. komi skýrt í ljós, ef þeir skyldu vilja samþ. einhverja, en ekki allar. Þá er það brtt. við 3. gr., um að fjárskipti fari fram fyrir árslok 1931, í stað þess, að í frv. stendur „fyrir árslok 1932“. Þessi brtt. felur í sér það sama og brtt. III. 1. á þskj. 340. En þar við bæti ég því sem sérstakri brtt., að það eigi að fara fram fyrir sama tíma ákvörðun á kaupverði fyrir mannvirki þau, sem Reykjavík tekur við. Ég hefi stungið upp á því, að einn gerðardómur fjalli um allar fjárgreiðslur og önnur ágreiningsmál, og held ég, að það sé miklu heppilegra en að þeir séu tveir eins og gert er ráð fyrir í frv., og loks hefi ég stungið upp á því, að Rvík greiði kostnaðinn við gerðardóminn eftir ákvörðun gerðardómsins.

Ég þykist ekki þurfa að gera nánari grein fyrir brtt. Ég tel þær að öllu leyti óvilhallar og aðeins til þess að kveða skýrt á um það, sem ég býst við, að öllum þyki eðlilegast að verði.