20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (2073)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Jón Baldvinsson:

Þessar brtt., sem hér liggja fyrir, eru svipaðs eðlis og þær á dögunum. Sumar þeirra eru sem sé aðeins til þess að flækja frv. meira, og það er sýnilegt, að ef þær verða samþ., þá gengur málið ekki fram á þessu þingi.

Það er rétt, að hv. 1. þm. Reykv. dró fram ýmsa liði, sem væru til hagsmuna fyrir Skildinganes eða íbúana þar, ef sameiningin yrði við Rvík. Hitt er annað mál, að landeigendur telja það meiri hagsmuni fyrir sig að vera þarna og sækja atvinnu í Rvík, en búa svo þar, sem þeir eru ekki háðir neinu skipulagi. En það má öllum vera ljóst, að það líða ekki mörg ár þangað til þetta verður samþ., þó að það verði ekki nú. En með hverju árinu, sem líður, verður það dýrara fyrir Rvík að koma á góðu skipulagi á Skildinganesi hvað snertir gatnagerð og margt annað, og það er víst, að skattflóttamennirnir fara ekki þangað eftir sameininguna eins og þeir gera nú, og þó hv. 1. þm. Reykv. segi, að það sé nægilegt pláss annarsstaðar, þá flytja þeir ekki þaðan „villurnar“, sem nú standa þar. Rvík hefir hagnað af sameiningunni og íbúarnir í Skildinganesi, aðrir en landeigendurnir.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að málið væri illa undirbúið. En það er ekki rétt, því þetta hefir verið samningamál milli bæjarstj. Rvíkur og Seltjarnarneshrepps, þó að þá hafi verið talað um stærra svæði. Ég held, að það sitji ekki á hv. l. þm. Reykv., sem hefir verið í bæjarstj. sum árin og nú frá því 1930, og því getað haft þar áhrif eins og hver annar, að segja, að þetta mál sé ekki undirbúið frá hennar hendi. Það er spánnýtt, að hv. þm. heldur því fram, að hann viti ekki, hver er vilji bæjarstj. í þessu máli. Það er víst, að bæjarstj. getur a. m. k. ekki andmælt þessu frv., ef hún á að halda fast við þær samþykktir, sem þar hafa verið gerðar. Það getur vel verið, að Rvík verði að borga fjárfúlgu fyrir þetta, eins og hún var látin gera hér um árið, þegar jarðir úr Mosfellssveit og Seltjarnarneshreppi voru lagðar undir hana. En það getur varla orðið hærra en það, sem Rvík varð að borga fyrir þessar jarðir. En hv. þm. veit, að ekki mun verða fallizt á, að Rvík fái þetta án endurgjalds. (JakM: Það er ekki gert ráð fyrir því). Það mun vera rétt, að það er ekki sagt með berum orðum. En það má þó skiljast á þá leið.