24.08.1931
Neðri deild: 40. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Einar Arnórsson:

Ég get tekið undir það með hv. þm. G.-K., að skipun gerðardómsins er mun betri nú heldur en hún var, þegar frv. fór frá þessari hv. deild.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um skaðabótakröfur, vildi ég gera nokkrar aths.

Það er gert ráð fyrir því í frv., að nokkrar bætur þurfi að greiða til Seltjarnarneshrepps, og ef til vill til Kjósarsýslu. Gerðardómurinn metur bæturnar, ákveður, hvað skuli bæta og hve miklu skuli bæta. Úrskurði gerðardóms er báðum aðiljum skylt að hlíta. — Það stendur skýrum stöfum í frv., að Reykjavíkurbæ sé skylt að kaupa vatnsveitu Skildinganeskauptúns. Hinsvegar er ekkert tekið fram um greiðslu fyrir hana, og því alls ekki ákveðið, að hún skuli keypt fyrir kostnaðarverð, enda gæti það verið ósanngjarnt. Hitt er annað mál, að ef verk þetta hefir verið skynsamlega unnið, þá er mjög sennilegt, að það verði metið nálægt kostnaðarverði að frádreginni hæfilegri rýrnun.

Hvað hreppsvegunum viðvíkur, þá er það vitanlegt, að sú skylda kemur á herðar Rvíkurbæjar að hafa allar „kommúnalar“ framkvæmdir kauptúnsins á hendi. Leiðir af því, að bærinn tekur að sér viðvald og umbætur hreppsveganna eftir sömu reglum og gilda um þau efni annarsstaðar í bænum. Um aðra vegi þorpsins skal ég ekkert fullyrða, en um þá mun fara eftir því, hvort bæjarstj. telur þá hentuga eða ekki.

Svipað er um holræsin að segja. Í frv. er hvorki getið um vegi né holræsi, en sé hér um bætur að ræða, þá heyrir það undir ákvæði 3. gr. frv.

Yfirleitt get ég ekki fallizt á, að verið sé að gefa nokkrar skipanir eða loforð um bætur eða bótagreiðslu fram yfir það, sem ákveðið er í frv. sjálfu. Ég geri ráð fyrir, að skipun gerðardómsins sé nægileg trygging fyrir því, að réttlætis og hófs verði gætt í þessu efni.