24.08.1931
Neðri deild: 40. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

64. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Hv. þm. V.-Húnv. var móðgaður af því, að framsókn hefir nú nýlega gert samning við jafnaðarmenn, þar sem því er lofað, að þetta mál skuli ná fram að ganga á þessu þingi. Leyfi ég mér að bera þá spurningu upp fyrir hæstv. forsrh., hvort ég fer hér með rangt mál.

Ég veit, að hv. þm. V.-Húnv. hefir ekki gert neinn samning um þetta og mun ekki greiða atkv. öðruvísi en hann hefir gert, en hitt verður hv. þm. að skilja, að þetta mál nær fram að ganga á þessu þingi, þótt þeir, sem hingað til hafa verið á móti því, ljái því ekki fylgi sitt. Það eina, sem hægt var að gera, var að tefja tímann, svo málið yrði ekki útrætt. Hafði ég því hugsað mér að flytja langa ræðu um þetta mál í dag. En þar sem ég hefi heyrt, að hæstv. forsrh. hafi lofað því, að þingi skyldi ekki verða slitið fyrr en þetta mál væri afgr., vil ég nú ekki, við eina umr. þessa máls, fara að tína upp öll rök, sem ég annars gæti fært fram mínu máli til stuðnings.

Ég hafði hugsað mér að flytja hér langa ræðu og segja þar frá gangi málsins bæði á þessu þingi og öðrum. Ég ætlaði að rekja sögu Íslands allt frá því á 9. öld, að Ísland var numið, eða jafnvel sögu Noregs frá aldaöðli, ef mér hefði unnizt tími til þess. Þá ætlaði ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp ýmsa kafla úr Heimskringlu og Íslendingasögunum, því alstaðar er þar talað um baráttu lítilmagnans gegn ofureflinu.

En þar sem ég vinn það eitt með langri ræðu að baka ríkissjóði kostnað, legg ég ekkert ofurkapp á þetta mál, en beygi mig fyrir staðreyndum.

Hv. þm. V.-Húnv. sagði, að ég hefði verið sáttasemjari milli Framsóknarflokksins og jafnaðarmanna í þessu máli og tekizt prýðilega. Ég hefi ekki verið þar að verki, en hitt er annað mál, að einhverjir þm. hafa verið þar að verki og tekizt prýðilega, eins og hv. þm. sagði. Því betra samkomulag en nú er mun ekki lengi hafa verið milli þessara fornu samherja og endaði með því, að formaður flokksins seldi sig, og var það eitt með öðru í kaupverðinu, að þetta mál skyldi ná fram að ganga á þessu þingi.