19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (2098)

22. mál, Jöfnunarsjóður

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Þetta er eitt af þeim málum, sem tekin voru úr höndum fjhn. án þess að henni gæfist tími til þess að afgreiða það til fulls. Þegar málið var tekið úr höndum n., hafði hún nærri lokið afgreiðslu þess og ber nú fram tillögur sínar um afgreiðslu málsins á þskj. 344.

Eins og menn munu sjá, vill n. breyta frv. allmikið, bæði að efni til og formi. Þó er ýmislegt sameiginlegt með brtt. n. og frv. Það, sem á milli ber, er aðallega það, að í frv. er gert ráð fyrir, að ákveðinn hluti af tekjum ríkissjóðs, þegar þær eru yfir visst mark, sé lagður til hliðar, en n. leggur til, að það skuli allt lagt í sjóð, er afgangs er af tekjum ríkissjóðs, þegar greidd hafa verið lögbundin og óhjákvæmileg gjöld. N. gat ekki fallizt á að ákveða framlagið í sjóðinn eins og gert er í frv., því engin vissa er fyrir því, að lágmarkstekjur þær, sem þar eru tilteknar, hrökkvi fyrir raunverulegum, óhjákvæmilegum gjöldum.

Þá ber á milli um tilgang jöfnunarsjóðsins. Eftir frv. er tilgangur sjóðsins aðallega sá, að stuðla að atvinnubótum, og séu þær framkvæmdar eftir ráðstöfunum Alþýðusambands Íslands og stjórnar Búnaðarfélags Íslands. Umráð sjóðsins eru þannig algerlega tekin úr höndum Alþingis. N. vill, að sjóðurinn sé að öllu leyti háður ákvörðun Alþingis og ríkisstjórnar, og verkefni hans sé ákveðið nokkru viðtækar en í frv. En þótt jöfnunarsjóði verði ekki varið eingöngu og beint til atvinnubóta, verður honum vitanlega varið til hagsbóta fyrir þjóðina, þar sem aðalverkefni hans er að jafna fjárframlög til ólögbundinna framkvæmda frá ári til árs, og þá meðal annars og einkum til verklegra framkvæmda, svo að atvinnan í landinu raskist sem minnst vegna misjafnra framkvæmda ríkissjóðsins. Að þessu leyti má segja, að tilgangur sjóðsins sé sá hinn sami samkv. frv. og till. n.

Samkv. II–IV. brtt. n. er ætlazt til þess, að verkefni jöfnunarsjóðsins séu þrjú:

Fyrsta verkefnið er að greiða tekjuhalla, sem orðið hefir á rekstri ríkissjóðsins. Annað verkefnið er að jafna ólögbundnar framkvæmdir ríkisins, ef tekjur þess hrökkva ekki til að halda uppi verklegum framkvæmdum, sem nema meðaltali síðustu 5 ára. Í þriðja lagi er verkefni sjóðsins það, ef svo ríflega safnast fé í hann, að ætla má, að þess þurfi ekki alls til þeirra verkefna, sem áður er getið, að afborga af skuldum ríkisins eftir því, sem ráðh. metur fært. Það, sem fyrir n. vakti með þessu síðastnefnda ákvæði, var það, að það yrði til þess að auka lánstraust ríkisins, ef það drægi inn skuldabréf sín fram yfir áskilda samninga. Ég vona, að menn skilji af því, sem hér er sagt, að hugsun sú, er fyrir n. vakir, er lík því, sem var í upphafi óskrifuð lög viðlagasjóðsins gamla. Hann var tryggingar- og varasjóður til framkvæmdar þeirra verkefna, sem næst lágu ríkissjóði. Hér er gerð tilraun til þess að binda með lögum samskonar sjóð. Þó slær n. varnagla við því að lána fé sjóðsins eins og á síðari árum var orðin venja um fé viðlagasjóðs. Það gekk að síðustu svo langt úr hófi, að það voru veittar lánsheimildir úr viðlagasjóði, þó að ekkert handbært fé væri í honum.

Það er vafamál, hvort þetta frv. nær fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi tímans vegna. En n. vildi setja fram þá hugsun, sem fyrir henni vakti, svo þinginu gæfist kostur á að sjá till. hennar, og ef það næði ekki afgreiðslu á þessu þingi, að það væri þá betur undirbúið til næsta þings.