19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (2099)

22. mál, Jöfnunarsjóður

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Mér finnst þetta nokkuð einkennileg afgreiðsla á máli. Ég þekki eiginlega enga hliðstæða afgreiðslu. Hér er flutt brtt. við frv., sem er hvorki meira né minna en nýtt og alóskylt frv. Efni okkar frv. var það, að þegar tekjur ríkissjóðs færu fram úr meðaltekjum, þá skyldi viss hundraðshluti ganga í jöfnunarsjóð til þess að jafna atvinnuna í landinu. Því ríkissjóður er nú orðinn langstærsti atvinnurekandinn í landinu, svo það kemur æðihart niður, ef hann bregzt.

Frá þessu hverfur n. algerlega, og er þó ekki hægt að fá gleggri sönnun fyrir nauðsyn þessara laga en fjárlögin, sem nú er verið að afgreiða frá þinginu. En það hefir ekki verið mikill ágreiningur milli Íhaldsins og Framsóknarinnar um þetta mál. Um brtt. við 1. gr. er það að segja, að hún er bara „snakk“. Það er verið að tala um „nauðsynleg og óhjákvæmileg útgjöld“. En hvaða eyðsla sem er verður það, þegar búið er að fá samþykki þingmeirihlutans fyrir henni. Með þessu væri girt fyrir það, að nokkur eyrir kæmi nokkru sinni í þennan sjóð. Og ef svo slysalega tækist til, þá á ekki að verja honum til að jafna atvinnuna, heldur borga rekstrarhalla. Og ef þá yrði eitthvað eftir, þá á að borga skuldir. Eins og það þurfi að setja heimild um þetta. Þetta er í annað skipti, sem þessi flokkur fer fram á það, að þingið hábindi sjálft sig. Þarf nokkra heimild til þess að borga ósamningsbundna skuld? Ég vil vona, að þessi till. verði ekki samþ. En ég vildi vona, að frv. yrði afgr. eitthvað svipað því, sem við lögðum það fram. Ég veit ekki nema þetta sé herbragð hjá n., af því að hún veit, að frv. er vinsælt. Hún getur þá afsakað sig með því, að það hafi ekki verið drepið. En ef n. ætlar sér það, þá má minna hana á játningu hv. frsm. n., að þetta sé nýtt frv.