19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (2100)

22. mál, Jöfnunarsjóður

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Það kom engum á óvart, þó að hv. flm. væri ekki ánægður með afgreiðslu n. á þessu máli. Það kom hér fram, að þetta frv. jafnaðarmanna er herbragð til þess að hinda fé ríkissjóðs til ákveðinna verka og draga það undan yfirráðum þingsins. Það má kannske segja, að brtt. n. sé nýtt frv., en þó er nokkuð sameiginlegt. Annars er það ekkert einsdæmi, að frv. sé gerbreytt. Fyrir því nær það ekki nokkurri átt, sem hv. þm. Seyðf. vildi halda fram, að brtt. n. kæmu ekki inn á sama svið og upprunalega frv. Einn tilgangur þess eftir brtt. n. yrði sá, að jafna atvinnuna, með því að halda uppi jöfnum framkvæmdum hins opinbera. Það er kannske eðlilegt, að hv. þm. skilji ekki þetta, en hann getur ekki kennt n. um skilningsleysi sitt. Þessi gremja hv. þm. gegn till. n. er af því, að hann finnur, að gagvart þeim stendur frv. jafnaðarmanna höllum fæti. Honum er illa við það verkefni sjóðsins að jafna tekjuhalla. Þetta kemur ekki á óvart þeim, sem þekkja kæruleysi jafnaðarmanna um afkomu ríkissjóðs. Þeir gera jafnt till. til útgjalda, hvort sem nokkrar tekjuvonir eru til að mæta þeim eða ekki. Hv. þm. sagði, að þingið væri að hábinda sjálft sig með því að ráðstafa þessu þannig. Það væri réttmætt að snúa þessu upp á frv. Með frv. hefði þingið afsalað sér umráðnum þess fjár, sem í sjóðinn rennur, í annara hendur og þar með hábundið sjálft sig. Eins og menn munu skilja, er með till. n. gert ráð fyrir að draga út af reikningum ríkissjóðs þær tekjur, sem verða framyfir lögbundin og óhjákvæmileg útgjöld, og leggja þær í sérstakan sjóð, er hafi það þrennskonar verkefni, sem ég hefi getið um áður. Sjóðurinn á að haldast undir yfirráðum ríkisvaldsins. — Eftir frv. er verkefnið aðeins eitt, og ríkisvaldið á að afsala sér umráðunum að mestu leyti í hendur verkalýðsfélaganna. Því er gremja hv. þm., að ekki er bitið á krókinn.

Ég hefi enga löngun til þess að halda uppi illdeilum um till. n. Hefi ég aldrei búizt við öðru en að jafnaðarmenn tækju þeim illa.