19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (2102)

22. mál, Jöfnunarsjóður

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég skal vera stuttorður, en verð þó að víkja nokkrum orðum að hv. þm. G.-K. auk hv. frsm.

Hv. þm. kvað svo að orði, að það, sem vekti fyrir sér með því að flytja þessa brtt., væri að koma í veg fyrir, að fjárveitingavaldið væri tekið úr höndum Alþingis. Ég verð að bera brigður á, að hv. þm. meini þetta. Því að hann hlýtur að sjá það, að sú stjórn, sem fer með völdin á hverjum tíma, getur jafnt þótt brtt. verði samþ. ráðstafað fénu, ef hún hefir á bak við sig í þinginu nægilega öruggan flokk til þess síðan að leggja samþykki sitt á landsreikninginn. Ég hygg það sé líka mála sannast, að það sé annað, sem veldur þessu góða samkomulagi í fjhn. um afgreiðslu þessa máls. Ég hygg, að það sé einn liður í samningunum, sem gerðir hafa verið milli Framsóknarflokksins og Íhaldsflokksins um það yfirleitt, að ekki skuli ná framgangi nein sú lagasetning, sem gæti orðið almenningi til hagsbóta, en gengi að einhverju leyti út yfir skattgreiðendur, sem þó að sjálfsögðu eiga mest fram að leggja til framkvæmda í landinu, og þá mest, þegar erfiðast er í ári. Þetta er samskonar samkomulag og um verðtollinn. Þetta er samskonar samkomulag og yfirleitt er með þessum flokkum. Mér er ekki kunnugt, að n. hafi klofnað í einu einasta máli. Ágreiningur varð aðeins um tóbakseinkasöluna hér í hv. d., og kannske helzt til málamynda. Hv. þm. hlýtur að sjá, að ákvæði brtt. binda stj. í engu frekar en nú er með lögum og stjórnarskrá.

Hv. þm. vildi telja, að frv. eins og við lögðum það fram hefði verið alveg afleitt, og gæti jafnvel valdið lögbrotum. Tók hann það til dæmis, að ef tekjur á næsta ári yrðu 15 millj., þá ætti að leggja í sjóðinn á aðra millj., jafnvel þó að það yrði tekjuhalli. Og hv. þm. spurði með miklum spekingssvip: Hvaðan ætti að taka þessa rösku milljón? — Því er ekki erfitt að svara. Ef tekjur á næsta ári verða 15 millj., þá hefir ríkisstj. fengið samkv. fjárlagafrv. hvorkj meira né minna en 3,2 millj. umfram tekjur, sem áætlaðar eru í fjárl. Því að öll gjöld, ekki einungis rekstrargjöld, heldur öll, sem felast á sjóðreikningum á fjárlfrv., nema nú 11,8 millj. króna. Af þessum 3,2 millj. kr. ætti að leggja samkv. frv. á 12. hundrað þús. kr. í jöfnunarsjóð. Að þetta sé fjarstæða, hygg ég enginn geti fallizt á með hv. þm. G.-K., og tæplega hann sjálfur, ef hann athugar málið.

Hvernig hefir tekjuhalli myndazt á síðastl. ári? Fyrir það, að ríkisstj. hefir tekið bessaleyfi — sem við hv. þm. G.-K. höfum vítt hana fyrir — til að verja fé í heimildarleysi. En einmitt með því að hinda hluta af umframtekjunum með lögum samkv. frv. jafnaðarmanna er stj. skylt að bjarga þessu fé. Hingað til hafa stjórnir hugsað meira um það að greiða hin lögboðnu gjöld upp áður en tekið væri til við ólögboðnar greiðslur. Og ég hygg, að sama mundi verða upp á teningnum á næstu árum hjá hverri stjórn sem fer með völdin.

Ég skal ekki deila við hv. þm. G.-K., hver átti hugmyndina; læt mér það í léttu rúmi liggja. Annars minnist ég ekki, að Jón Sigurðsson þáv. 2. þm. Skagf. hafi komið með þessa hugmynd, en sé svo, þá er þeim mun verr gert af hv. þm. G.-K. að níðast á hugmynd flokksbróður síns.

Ég skal benda hv. þm. G.-K., og þá um leið frsm., á eitt atriði í þessum tillögum þeirra, sem er svo gersamlega vanhugsað, að það er tæplega berandi undir atkvæði. Í 3. brtt., væntanl. 3. gr. frv., er tekið svo til orða, að þá má undir vissum kringumstæðum í fjárlögum ákveða að greiða úr jöfnunarsjóði það, er á vantar. Þetta er alveg nýtt fyrirbrigði, að setja inn í sérstök lög ákvæði um það, að undir vissum kringumstæðum megi taka í fjárlög vissar greiðslur. (Rödd af þingbekkjum: Hér er um að ræða að taka úr sjálfstæðum og sérstökum sjóði). Nei, hér er um að ræða útgjöld á fjárlögum, verklegar framkvæmdir á fjárlögum. (Rödd af þingbekkjum: En peningarnir eru úr sjóðnum). Þetta kann að vera rétt hjá hv. þm. En þetta er ákaflega torskilið. Er helzt að sjá á greininni, að til þess sé ætlazt, að verklegar framkvæmdir, sem teknar eru í fjárlög, séu heimilaðar með þessu ákvæði.

Hv. frsm. tók svo til orða, að ef frv. jafnaðarmanna yrði samþ., þá hefði þingið afsalað sér fjárveitingavaldinu að nokkru leyti, þar sem sett eru ákvæði, hvernig fénu skuli varið. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. Hér er um það sama að ræða og um jarðræktarlögin, en eftir þeim eru veittar mörg hundruð þús. kr. árlega — að ég ætla 600 þús. kr. — til jarðræktarframkvæmda, án þess að tekið sé fram í lögunum, til hvaða verka sérstaklega sé veitt. Hér er heldur á engan hátt gengið á rétt þingsins til að ráðstafa fénu, þótt frv. okkar sé samþ.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð að þessu sinni, en mun greiða atkv. gegn þessum brtt. öllum.