19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í C-deild Alþingistíðinda. (2103)

22. mál, Jöfnunarsjóður

Ólafur Thors:

Hv. þm. Seyðf. sagði, að brtt. fjhn. væru fyrir það einskis verðar, að þótt þær yrðu samþ., þá gæti ríkisstj. alveg ráðstafað fénu að vild sinni eftir sem áður. Ég játa, að ríkisstj. getur gert þetta með því að brjóta lögin. En ef stj. vill brjóta lögin, þá getur hún alveg jafnt farið illa með fjármuni ríkissjóðs, þótt frv. jafnaðarmanna í þessu efni næði lögfestu. Það er yfirleitt ekki gaman að eiga við það, ef maður þarf að gera fyrir því, að ríkisstj. virði alltaf að vettugi þau lög, sem Alþingi setur.

Ég sé ekki ástæðu til að svara þeim ummælum hv. þm., að hér sé um að ræða þrjá liði í samkomulagi milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Þetta eru nú ekki frumleg vísindi hjá honum, því að hv. 3. þm. Reykv. kom og hvíslaði þessu að honum, enda er hugur þess hv. þm. svo að segja naglfastur í þessari firru.

Hv. þm. Seyðf. vildi véfengja, að nokkuð væri athugavert við frv. eins og það liggur fyrir hvað snertir tekjuöflun sjóðnum til handa, þegar ríkisbúskapurinn er rekinn með tekjuhalla. Fjárl., eins og þau komu frá hv. Ed., eru komin upp undir l2 millj. og fara sjálfsagt yfir. Ef ríkissjóður hefir 12 millj. króna tekjur, þá mundi þessum sjóði ætlað að fá þar af á 6. hundrað þús. kr. M. ö. o., þegar ríkisbúskapurinn er rekinn þannig, að alveg standast á tekjur og gjöld, mundi vegna fyrirmæla um sjóðinn verða 600 þús. kr. tekjuhalli, ef sjóðurinn ætt að fá sitt.

Hv. þm. talaði mikið um þá hugmynd, sem honum fannst hjákátleg mjög, að mæla svo fyrir, að það mætti með fjárlögum verja fé úr sjóðnum. En ég held það hafi runnið upp ljós fyrir hv. þm., meðan hann var að tala, svo að hann hvarf frá sinni hugsanavillu. Það er auðvitað ekki hægt með fjárl. að ákveða að taka fé úr vissum sjóðum til verklegra framkvæmda, ef l. þess sjóðs mæla fyrir um annan tilgang sjóðsins og heimila ekki slíka notkun. Þess vegna er þetta ákvæði tekið upp.

Að öðru leyti lét hv. þm. Seyðf. því höfuðatriði málsins ómótmælt, að afleiðingin af 4. gr. þessa frv. er sú, að ríkissjóður hefir alltaf miklu betri aðstöðu til að taka að sér verklegar framkvæmdir í hallæri til atvinnubóta. Þetta er aðalatriði málsins, við hliðina á hinu, sem hann heldur ekki mótmælti, að með þessum hætti er ríkisstj. gert miklu örðugra en nú að eyða hverjum eyri, sem inn kemur.