19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2105)

22. mál, Jöfnunarsjóður

Ólafur Thors:

Hv. þm. Seyðf. hefir í síðustu ræðu sinni gert alveg nýja grein fyrir þeirri hugmynd, sem hefði legið til grundvallar hjá jafnaðarmönnum með frv. eins og það kom fram. En það er enginn vafi, að jafnaðarmenn ætluðust upphaflega til þess, að jöfnunarsjóður ríkisins fengi tekjur sínar á þann hátt, að til hans félli nokkur hluti af tekjum ríkissjóðs, þegar tekjur fara fram úr áætlun, þegar greidd hefðu verið meðaltalsútgjöld ríkisins. En nú er hv. þm. farinn að skýra frv. svo, að þegar tekjur ríkissjóðs eru komnar upp í 75% af því, sem ríkissjóður þarf til venjulegra og eðlilegra útgjalda, þá falli verulegur hluti, 15% og upp í 35%, í þennan jöfnunarsjóð. Það er fullvíst, að þetta er alls ekki upprunalegur tilgangur hv. jafnaðarmanna.

Út frá þessu ímyndaða sambandi sjálfstæðismanna og framsóknarmanna tók hv. þm. Seyðf. upp gamla og mislukkaða fyndni eftir hv. 3. þm. Reykv. Ég get með miklu meiri rétti sagt: Mig undrar, hvers vegna jafnaðarmenn eru að berjast fyrir að fjölga sínum þingmönnum, úr því að það er ekki til annars en fjölga þeim mönnum, sem látast vera á móti ríkisstj., en í hjarta sínu eru alltaf með henni þegar liggur á, og hafa verið, frá því að framsóknarstj. tók við völdum.

En út af því, sem þm. sagði um það, að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn væru einhuga við öll mál hér á þingi, skal ég ekki segja annað en það, að þegar ég lít á dagskrána fyrir þennan dag hér í hv. d., þá eru þar a. m. k. tvö mál, sem enginn vafi er á, að eru liðir í þeim skrifuðu samningum, sem jafnaðarmenn hafa gert við framsóknarmenn. Það er nefnilega afgreiðsla frv. um verkamannabústaði og afgr. frv. um einkasölu ríkisins á tóbaki. Enda hygg ég, að hv. 3. þm. Reykv. sé búinn að gera mjög ýtarlega samninga við fyrrv. dómsmrh. Þeir hafa líka sífellt verið á einmælum hálft þingið, ýmist í deildinni eða í herhergjum utan við d. Enda er svo komið, að þessi hv. þm., sem þó er ekki talinn hafa mjög sterka blygðunartilfinningu, finnur til þess, að þessi hegðun sé ekki vel viðfelldin eða samrýmanleg við þær ræður, sem hann heldur hér í hv. d. um samninga við Framsókn. Að svo sé, má sjá á því, að hann hefir tekið upp þann hátt, að láta birta í Alþýðublaðinu, að það sé ég, sem alltaf sé á einmæli við fyrrv. dóms.mrh., enda þótt það hafi aldrei komið fyrir. Er þetta gert til að leiða athygli frá launmálum hans við Jónas Jónsson, og líka í því skyni að lítilsvirða mig.