10.08.1931
Efri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

1. mál, fjárlög 1932

Jakob Möller:

Ég ætla að minnast á nokkur atriði, sem að vísu koma ekki þessu máli við, en dregizt hafa inn í umr. Ég skal að vísu játa, að ég hefi ekki lesið þessar skýrslur til fulls, en mér er kunnugt um, að það, sem þar er sagt um starf niðurjöfnunarnefndar, er í alla staði rangt. Það, sem hv. 5. landsk. sagði um það mál, var allt í lausu lofti og eintóm vitleysa, enda hafði hann enga aðstöðu til að þekkja þetta, fyrr en hann gat látið hinn nýja skattstjóra lepja allt í sig, síðan hann komst í stjórn. Annars get ég upplýst það, að það var kært yfir skattsvikum fyrir dómsmrh. Jónasi Jónssyni, rétt eftir að hann var kominn í valdasessinn, en hann hylmaði yfir með þeim seku og stakk kærunni undir stól. (JónasJ: Þetta er ósatt). Þetta er satt, enda er það vitað, að stj. var þannig, að hún ofsótti pólitíska andstæðinga á allan hátt, en hlífði hinum, sem henni voru skyldir í skoðunum. Þetta er alkunnugt, enda þýðingarlaust að reyna að bera á móti slíku.

Hv. þm. sagði, að Helgi Briem hefði fyrstur tekið að grennslast eftir því, hvernig skuldum væri varið, en þetta er ósatt, því að fyrrv. skattstjóri hafði þegar hafizt handa um það, og því starfi hélt Helgi Briem áfram. Í þessu sambandi get ég einnig minnt á það, að Helgi Briem gaf þá yfirlýsingu, rétt eftir að hann varð skattstjóri, að fyrirrennari sinn hefði leyst starf sitt prýðilega af hendi, og ég verð að segja, að ég met ummæli þess manns meira en ummæli hv. 5. landsk.

Eins og ég gat um í byrjun, hefi ég ekki kynnt mér þetta rit vel, en þó svo, að ég hefi rekizt þar á ýms svívirðileg ummæli, eins og t. d. það, að allir hafi reynt að svíkja áður en Helgi Briem varð skattstjóri. Ég verð nú að segja, að ég get ekki álitið þetta viðunandi orðalag í opinberri skýrslu, sem send er til landsmanna til að sýna framfarir og þróun síðustu ára.

Svo er farið að telja upp nokkra menn, og þ. á m. mig, til að sýna svikin, sem í frammi höfðu verið höfð. Nú er það svo með mig, að ég hefi föst laun, sem breytast ekkert frá ári til árs, og ég má ekki hafa aðra atvinnu. Þetta ár, sem Helgi Briem varð skattstjóri, taldi ég ekki fram, og má því vera, að þessi ummæli hafi verið meint til mín. En nú er það kunnugt, að skattstjóra er rétt og skylt að leggja á þá, sem ekki telja fram, eins háan skatt og honum þóknast, til þess að tryggja, að þeir sleppi ekki of vægt frá þessu. Það er því augljóst, að ég mun ekki hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram í þeim tilgangi að „svíkja“, því að það var með öllu óhugsandi, að ég með því móti slyppi betur frá skattinum. Í skýrslunni er líka talinn sá áætlaði skattur, sem skattstj. gerði mér að greiða. en ekki sú upphæð, sem ég greiddi endanlega, svo að ef þetta er ekki hrein fölsun, þá veit ég ekki, hvað fölsun er.

Hitt hefði verið eðlilegt, að tilgreina þann skatt, sem ég greiddi, og draga frá refsiskattinn. til að fá réttan samanburð við fyrra ár. Það er ekki gert, heldur er aðeins gefið í skyn, að ég hafi svikið svona undan, og skattstjórinn sýnt dugnað sinn við að hafa upp á svikunum. Annars hafði ég hugsað mer að bera hér fram fyrirspurn um það, hver ætti að bera ábyrgð á þessu riti, því að mér finnst ekki ólíklegt, að ýmsir þurfi að ná sér niðri á þeim, sem staðið hafa fyrir þessum óhróðri, í það minnsta hefi ég fullan hug á því. Það stendur að vísu utan á ritinu, að atvmrn. hafi gefið það út, og eftir því ætti Sigurður Kristinsson að standa fyrir svörum, en hann er gamall kunningi minn, og mér er kunnugt um það, að hann má í engu vamm sitt vita, og trúi ég því illa, að hann eigi nokkra sök á þessu, en auðvitað verður ríkissjóður að gjalda þessarar glópsku.

Ég vil nota tækifærið til að taka undir það með hv. 1. landsk., að sú bráðabirgðastj., sem nú situr, hefir engan rétt til þess að skipa þann sess, og að ef það er rétt, sem hv. 5. landsk. sagði, að hv. 1. landsk. væri ekki þm. þjóðarinnar, heldur aðeins lítils hluta hennar, þá má með sama rétti, eða raunar öllu frekar, segja, að Framsóknarfl. hafi ekki leyfi til að mynda neina stj. sökum þess, að sú stj. getur aldrei orðið stj. þjóðarinnar, þar sem meiri hl. kjósenda er henni andvígur.