20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í C-deild Alþingistíðinda. (2117)

23. mál, fasteignaskattur

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Um þetta frv. er það að segja, að það hefir fengið svipaða afgreiðslu á síðasta þingi og hitt, sem ég skýrði frá næst á undan (frv. um tekjuskatt og eignarskattl. Þótt frv. þetta sé gamalkunnugt, vil ég samt skýra það með nokkrum orðum, sökum þess að nú eiga ýmsir nýir menn sæti hér í þessari hv. d.

Eins og kunnugt er, hefir verðhækkun lands verið mjög mikil síðustu 20–24 árin, og ber margt til þess. Sumpart hefir gildi peninganna minnkað og sumpart hafa svo miklar opinberar framkvæmdir verið gerðar, bæði í sveitum og kaupstöðum, svo sem vegir, götur, hafnir o. fl. o. fl., að lóðir og jarðir hafa hækkað stórkostlega í verði vegna þessara framkvæmda og fólksfjölgunarinnar. Það liggur því í augum uppi, að hið opinbera hefir beinan rétt til þess að taka mikinn hlut þessarar miklu hækkunar. Hér er gert ráð fyrir, að fasteignir séu flokkaðar í fjóra flokka til skatts. Í lægsta landflokki séu jarðir, engjar, ræktunarland, beitiland o. þ. h. Þar er fólksfjölgunin minnst og þar er minnst verðhækkun komin fram fyrir opinberar framkvæmdir. Þar er gert ráð fyrir 0,5% skatti. Hinsvegar er í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem byggð er nokkuð mikil og lóðir hafa stigið af þeim sökum, gert ráð fyrir1% skatti í ríkissjóð af þeim lóðum, sem notaðar eru undir byggingar. Þar, sem svo stendur á, að gróðavænlegt er að kaupa byggingarlóðir til þess að geta selt með hagnaði síðar, er gert ráð fyrir 1,5%. Þessi skattur mundi verka á tvennan hátt, afla ríkissjóði nokkurra tekna og halda niðri verði á fasteignum. En lágt verð á fasteignum er tvímælalaust bezti stuðningur atvinnuveganna. Hinsvegar er gert ráð fyrir, að fasteignaskattur á húsum verði ekki nema 2,5%. Ennfremur er lagt til í frv., að sveitar- og bæjarstjórnum sé heimilt að hækka skattinn til sinna þarfa um allt að 100%, enda falli niður fasteignagjöld þau, sem greidd hafa verið í sveitar- eða bæjarsjóð. En nú er fasteignagjald í sveitum og kaupstöðum ákaflega mismunandi um land allt. Fasteignagjald í sveitum mun yfirleitt vera, auk fasteignaskatts í ríkissjóð, sem er 1,5% af húsum og 3‰ af landi, þar sem sýsluvegasjóðsgjald er lögtekið, 6‰ jafnt af jörðum og húsum. Þar er því jarðaskatturinn upp í 9‰ og húsaskattur 7,5‰. Jarðaskatturinn í sveitum er í mínu frv. 1,6%, þ. e. a. s. hækkaður úr 0,9‰. Aftur á móti af húsum í sveitum, þar sem sýsluvegasjóðsgjald er nú tekið, lækkar hann úr 7,5‰ og niður í 5 ‰, eða um 331/3%.

Líti maður á Reykjavík, þá er húsaskattur í bæjarsjóð 8‰, og samanlagður húsaskattur í bæjarsjóð og ríkissjóð 9,5‰. Samkvæmt mínu frv. yrði húsaskatturinn 5‰, til ríkis og bæjar, og auk þess 3‰ hreinsunargjald, eða 8‰ samanlagt. Lækkun frá 9,5‰ niður í 8‰ er rösk 16% lækkun. Hinsvegar tvöfaldast skatturinn af byggingarleiðum og þrefaldast af óbyggðum lóðum, sem von er um verðhækkun á. Ennfremur er það nýmæli í frv., að fasteignir sveitar- og bæjarsjóða eru undanþegnar fasteignaskatti til ríkissjóðs og umbætur síðustu 10 ára eru ekki skattskyldar. Verkamannabústaðir og byggingar, sem eru opinber eign, eru skattfrjálsar samkv. frv. Að lokum, að eigendur fasteigna greiði jafnan skattinn, nema aðeins þegar leiga er undir 4%, þá greiði leigjendur.

Um fjárhagshliðina er það að segja, að ætla má, að ef fasteignamat verður líkt og áætlað er í grg., verði skatttekjur ríkissjóðs 600 þús. kr. umfram það, sem nú er, og tekjuauki sveita og bæja 800–900 þús. kr. á ári.