20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (2120)

24. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Þetta frv. er eitt af þeim skattafrv., sem lágu fyrir síðasta Alþ., en ekki varð afgr. vegna þingrofsins. Ég hygg það ekki ofmælt, að skattamálin veki nú um þessar mundir meiri áhuga meðal almennings en dæmi eru til, enda er það eðlilegt sökum þessa vandræðatíma.

Eftir því sem fram kom á síðasta þingi, var fullkomið samkomulag milli Framsóknar og Íhalds um skattamálin. Fjmrh. bar fram frv. meiri hl. skattamálanefndar, þeirra hv. 1. þm. N-M. og hv. 2. þm. Skagf., og nefndin, sem um það fjallaði, féllst á það. Það frv. er ekki komið fram ennþá, en ég sé, að hæstv. fjmrh. hefir lagt fram frv í Ed. um framlengingu á verðtollinum og tekið þann tekjuauka upp í fjárhagsáætlunina, svo að vænta má, að það frv. nái fram að ganga.

Þrátt fyrir þetta þykir mér rétt að leggja fram frv. þetta og rekja efni þess fyrir hv. d. í aðaldráttunum, þótt ýmsir hv. dm. muni kunnugir því. Meginefni frv. gengur út á að lækka og fella niður skattinn á lágtekjumönnum, en hækka hann aftur á móti á hátekjumönnum. Ef frv. þetta nær fram að ganga, reiknast okkur flm. svo til, að um 9000 lágtekjumenn verði leystir undan skattskyldu, en hinsvegar gerum við ráð fyrir, að skatturinn af hátekjum, og þó einkum stóreignum, hækki svo, að tekjur ríkisins af skattinum í heild sinni hækki um 70–75%.

Þær aðrar breyt., sem frv. þetta hefir í för með sér, eru: að skattstiginn verður hinn sami, hvort sem um félög eða einstaklinga er að ræða. Þó er sú undantekning gerð um samvinnufélög, að þau skulu ekki greiðu skatt af tillagi til varasjóða sinna. Þá er aldur barna hækkaður úr 14 til 16 ára aldurs, sem draga má frá fyrir, af því að það mun ekkj vera hægt að ætlast til, að börn innan þess aldurs geti séð fyrir sér sjálf, heldur verði foreldrarnir að ala önn fyrir þeim til þess tíma. Ennfremur fer frv. fram á það, að heimilt sé bæjar- og sveitarstjórnum, meðan Alþingi hefir ekki sett lög um almannatryggingar eða á annan hátt rétt að verulegum mun af héruðunum kostnaði þeim, sem af fátækraframfærslu leiðir, að hækka tekjuskattinn um allt að 50% í umdæmum sínum, og skal þessi viðbótarskattur renna í bæjar- að sveitarsjóð.

Eins og mönnum er kunnugt, eru sveitarþyngsli víða allmikil, og er þetta ákvæði því sett til að gera sveitar- og bæjarstjórnum auðveldara að rísa undir þeim útgjöldum, sem leiðir af fátækraframfærslunni. Niðurstaðan af þessu frv. myndi verða sú, að tekjuskattsgjaldendum myndi fækka um 36%, en skattupphæðin hækka um 70–75%, því að eignarskatturinn myndi tvöfaldast.

Samkvæmt skýrslum tveggja síðustu ára hafa skattskyldar eignir og tekjur framteljenda farið stórum vaxandi, þannig að gera má ráð fyrir, að tekjuaukinn muni nema liðlega einni millj. kr., og fari ekki niður úr því, þótt reiknað sé með löku meðalári, og væri þá hægt að lækka hina gegndarlausu nauðsynjavörutolla um þá upphæð.

Ef sveitarfélögin notuðu þá heimild, sem ég drap á áðan, mætti áætla tekjur þeirra um land allt samkv. henni 1100–1150 þús. kr. á ári, og væri þá hægt að lækka útsvörin um þá upphæð, að öðru óbreyttu.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta, en get gert það að till. minni, að frv. gangi til fjhn. og 2. umr.