20.07.1931
Neðri deild: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2124)

29. mál, opinber vinna

Hannes Jónsson [óyfirl]:

Ég vil aðeins benda á, að ákvæði frv. eru svo víðtæk, að þau ná út yfir meiri hluta allrar vorvinnu bænda í sveitum, þar sem mikið af henni er styrkt af opinberu fé. Ef bændur t. d. taka verkafólk til þess að vinna að jarðabótum eða öðrum framkvæmdum, sem ríkið styrkir, þá eiga ákvæði þessa frv. einnig að ná til þess. Ég vil vekja eftirtekt á því, að hér er með þessu frv. verið að ná til starfsmanna í sveitum, en jafnaðarmenn hafa haldið því fram, að þeir ætluðu sér ekki að gera neinar þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í kaupstöðum landsins, svo að þær næðu til verkafólks í sveitum. Og ef á að fara að ganga inn á skyldur á þessu sviði, hver er þá ástæðan til þess, að ekki er gengið inn á hið sama á öðrum sviðum vinnunnar, t. d. með slátt? Hvers vegna er undið að þessari starfsemi, ef ekki á að láta hana ná yfir alla verkafólksstarfsemi í sveitum? Ég vil leyfa mér að spyrja hv. flm., hvort þeir ætlist ekki til, að þetta nái líka til sláttar og annarar heyvinnu. (HG: Er hún styrkt af ríkissjóði?). Nei, að vísu ekki. Styrkur sá, sem veittur er úr ríkissjóði, er veittur af brýnni nauðsyn, til þess að koma ræktunarmálum sveitanna í betra horf, en ef þetta gildir sama og kauphækkun, þá finnst mér það vera svipað og taka með annari hendinni það, sem gefið var með hinni, og það því frekar, sem þessi ákvæði eiga að færast yfir á aðra vinnu í sveitum.