23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (2146)

43. mál, tekju- og eignarskattur til atvinnubóta

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Í grg. þessa frv er lögð sérstök áherzla á það, hversu bágt ástand sé nú ríkjandi hjá atvinnuvegum vorum, og segir þar m. a.: „Hin almenna viðskipta- og fjárhagskreppa, sem nú gengur yfir í öllum löndum, hefir komið niður á atvinnuvegum vorum og þjóðframkvæmdum og kippt mjög úr eðlilegum framkvæmdum. Húsasmiði er nú stórum minni en á undanförnum árum, vegagerðir sömuleiðis. Fiskafli hefir að vísu verið mikill að vöxum, en sala fiskjarins treg, það sem af er árinu. Loks eru mjög slæmar horfur um afkomu síldarútgerðar, enda útgerðin stórum minni en undanfarið, þar sem síldarbræðslustöðvarnar í landinu starfa sumar lítið og sumar alls ekki. Auk þess þrengja erlendir keppinautar um veiðina kosti íslenzkrar útgerðar meira og meira með hverju ári sem líður“.

Seinna í grg. er svo komið fram með ráðið til að vinna bug ú kreppunni, og það er að stofna varasjóð atvinnuveganna, með því að leggja á atv.fyrirtækin skatt, sem miðaður er við ágóða, sem þau kunna að hafa haft á árinu 1930, þegar nú er orðið vitanlegt, að heildin af þessum atvinnufyrirtækjum er þegar búin að tapa þeim ágóða, sem um gat verið að ræða, og raunar miklu meiru. Það er ákaflega undarleg hugsanavilla, sem kemur fram hjá hv. flm. í þessari mótsögn á milli forsendanna og þeirra ályktana, sem af þeim eru dregnar. Ég get ekki stillt mig um að segja, að mér finnst það kaldhæðni örlaganna, að einn höfuðstuðningsmaður hæstv. stj., fyrrv. aðalritstjóri Framsóknarflokksins, hann skuli hefja sinn gang með því að flytja frv., sem hann telur sjálfur — eins og hann tók til orða — til þess að bjarga miklum meiri hl. þjóðarinnar frá hor, frv., sem fer fram á að aflað sé ríkissjóði til handa nýrra tekna, sem nema árlega að hans áætlun 360 þús. króna. Þetta er kaldhæðni örlaganna, segi ég, vegna þess að þessi hv., flm. hefir gerzt forsvarsmaður fyrir alla fjárbruðlun fyrrv. stj. Eins og honum er kunnugt um, þá hafa ríkistekjurnar árin 1928. 1929 og 1930 hækkað frá áætlun fjárveitingavaldsins í landinu, sem var 33 millj., upp í um 47–48 millj. Og á sama tíma hefir ríkisstj. aukið þær skuldir, sem ríkissjóður sjálfur á að standa straum af, um 12 millj. Alls hefir stj. haft á milli handa umfram það, sem ætlað var til eyðslu á útjaldaliðum fjárl. í þessi 3 ár, 27 millj. króna. Alls hefir eyðslan numið á þessum árum 60 millj. króna. Og nú kemur sjálfur höfuðmálsvari þeirrar stjórnar, sem hefir þannig haldið á ríkisfé, og ber fram frv. um að íþyngja þeim atvinnurekstri landsmanna, sem hann sjálfur í grg. talar um, að sé í voða — íþyngja honum um 360 þús. kr. útgjöld á ári, sem hann játar, að sé neyðarúrræði, en telur hinsvegar nauðsynlegt til þess að bjarga hvorki meira né minna en meiri hl. þjóðarinnar úr voða.

Hefir þessi hv. flm. gert sér grein fyrir því, að ef ríkisstj. á þessum 3 árum hefði eitt 1/10 hluta minna en hún hefir eytt, þá hefði hún getað safnað ríkissjóði til handa það miklum sjóði, að 6% vextir af þeirri fúlgu — ekki 8–9%, eins og við borgum af erlendum lánum okkar — hefðu numið árlega 360 þús. kr., eins og hann ætlast til að taka af landsmönnum með þessu frv.

Hefir hann gert sér grein fyrir því, að ef hæstv. ríkisstj. hefði eytt 3 aurum minna af hverjum 5 krónum, sem hún hefir eytt, þá hefði hún getað átt í sjóði 360 þús. kr., sem hefðu þá nægt til að inna af hendi hagsbætur þær, sem þessi hv. flm. í einfeldni sinni telur, að bjarga muni þjóðinni úr voða.

Ég veit, að ekkert af þessu hefir hv. flm. eða samflm. hans athugað. Ég veit, að þetta frv. ber eingöngu að skoða sem iðrun syndarans, játningu óhófsmannsins um það, að illa sé komið fjárhag ríkissjóðs, viðurkenningu þess, að hann vilji nú reyna að safna í kornhlöður, úr því að vanrækt var að gera það á góðu árunum. En það er ekki viturlega gert, að láta góðu árin líða hjá í eyðslu og athugaleysi, og bera svo í því öngþveiti og undanhaldi að þurfa að grípa til þess, sem hv. flm. sjálfur telur neyðarúrræði, að íþyngja þeim atvinnurekstri, sem hann telur í voða.

Ég mun fyrir mitt leyti greiða atkv. móti þessu frv. sem alveg gagnslausu til að bæta úr því ástandi, sem er í atvinnulífi manna. Ég greiði atkv. á móti því í fyrsta lagi af því, að ekkert hefir komið fram um það, að ríkissjóður geti ekki á þessu ári haft nægilegar tekjur til þess að halda uppi venjulegum og eðlilegum atvinnurekstri í landinu. Ég get upplýst það, sem hæstv. fjmrh. hefði átt að upplýsa við l. umr. fjárl., að ríkistekjur hofa á fyrri hluta ársins í ár numið nokkurnveginn alveg því sama Og í fyrra, og voru tekjur þá að ég hygg hámarkstekjur, sem nokkurn tíma hafa verið ríkissjóði til handa hér á landi. Það mun ennfremur hafa verið athugað, hvert útlit er fyrir tekjur ríkissjóði til handa af tekjuskatti í ár. Eftir þeim fregnum, sem ég hefi heyrt, eru horfur á, að hann verði nokkurnveginn sá sami og seinasta ár. En Rvík hefir verið aðalgjaldstofninn að því er tekjuskatt snertir.

Það eru því líkur til þess, að tekjur ríkisins í ár verði það miklar, að ef stj. vill leggja niður þann vana að eyða ríkisfé í óhófi, þá séu fyrir hendi möguleikar án nýrra skattálagna til að inna af hendi venjulegar verklegar framkvæmdir í landinu. Ég segi þess vegna: Ég er á móti þessu frv. Fyrst af því, að það er ekki upplýst, að það þurfi að afla ríkissjóði nýrra tekna, til þess að hægt sé að inna af hendi ekki eingöngu venjulegar verklegar framkvæmdir, heldur í jafnríkulegum mæli eins og á undanförnum árum.

Ég er á móti frv. í öðru lagi af því, að ég álít, að sú leið, sem farin er þar til skattauka, sé óheppileg, alveg eins og hv. flm. sjálfur játar í grg.

Loks er ég á móti þessu frv. af því, að ég fyrir mitt leyti — ég tala ekki fyrir hönd míns flokks — er alls ekki ráðinn í því, hvort ég vil samþykkja nokkurn tekjuauka til handa núv. stj. og þingmeirihluta. Það fer að sjálfsögðu nokkuð eftir því í mínum huga, hvernig stjórnarflokkurinn tekur í það mál, sem nú var barizt um við kosningarnar, hið alkunna mannréttindamál, kosningarréttinn í þessu landi.

Að lokum vil ég benda á það, að hv. flm. þessa frv. verða að gera sér ljóst, að bágar horfur ríkissjóðs — ég játa, að horfurnar eru bágar fram undan — eru það fyrst og fremst af því, að budda skattborgaranna er tóm. Menn mega ekki halda, að það sé allsherjar þjóðráð til að bæta úr vandræðaástandi að leggja á nýja og nýja skatta. En fyrst og fremst eiga stuðningsmenn hæstv. stj. að kenna henni að fara betur með ríkisfé en nú hefir verið gert.