23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2148)

43. mál, tekju- og eignarskattur til atvinnubóta

Flm. (Jónas Þorbergsson):

Það hefði nú ekki komið neinum flm. á óvart, þótt þetta frv. mætti nokkrum andmælum frá hálfu hv. þm. G.-K og hótfyndni frá hálfu hv. jafnaðarmanna. Mér virtist hv. þm. G.-K. ræða mál þetta nokkuð út frá annari hlið en við ætlumst til, flutningsmennirnir. Mér virðist hann setja það í samband við ráðstafanir ríkisstj. og stjórnarfarið á undanförnum árum. Það er, eins og allir sjá, alveg ófrjótt í sjálfu sér að vera að ræða um það í sambandi við þessar ráðstafanir, sem hér er gert ráð fyrir, hvernig fé hefir verið ráðstafað á undanförnum árum; því að það fé, sem búið er að ráðstafa, verður ekki notað til að greiða úr þeim vandræðum, sem nú eru.

Viðvíkjandi rökunum fyrir því, að hér sé verið á ósanngjarnan hátt að ganga á hlut atvinnufyrirtækja í landinu, vil ég taka það fram, að þetta frv. er borið fram í því trausti á þegnskap Íslendinga, að þegar neyðin klappar á dyr hjá verulegum hluta þjóðarinnar, þeim, sem sízt hefir aðstöðu til að mæta áföllum, þá telji þeir menn sér skylt að hjálpa, sem eiga miklar eignir og geta nokkuð af mörkum látið. Hér er ekki verið að ráðast á einstaka atvinnuvegi, eins og mér skildist vaka fyrir hv. þm. G.-K. Hann talaði með viðkvæmni, eins og öllu væri stefnt á Kveldúlfsfélagið. En því fer fjarri. Ákvæði þessa frv. eiga að ná til allra, sem eitthvað geta af mörkum látið, innan þeirra takmarka, sem sett eru í frv. sjálfu, hvort sem þeir eru atvinnurekendur eða ekki.

Ég veit ekki til þess, að það hafi komið fram umkvörtun af hálfu jafnaðarmanna undanfarin ár yfir því, að vinna væri of mikil í landinu. Þeir vissu frá ári til árs, hve miklu var varið til verklegra framkvæmda. Þeir vissu, að talsverðu af því fé, sem góðærið lagði í hendur stj., var varið til þess stærsta átaks, sem gert hefir verið til viðreisnar landbúnaði og atvinnuvegum landsins yfirleitt. En þeir gerðu engar umkvartanir. Það er nú fyrst eftir á, sem þessir hv. fulltrúar beggja flokkanna gerast svo vitrir. Þeir sögðu það ekki fyrr en heimskreppan kom, að nauðsynlegt hefði verið að fara varlega í framkvæmdir, sem þegar voru um garð gengnar. Þessi eftir-á-vizka þeirra hv. þm. er ekki alveg ný í veraldarsögunni og ekki heldur sérlega markverð.

Þá skal ég víkja að því atriði í ræðu hv. þm. G.-K., að hann kvaðst ekki mundi fylgja neinu frv. um tekjuauka fyrir ríkissjóð. (ÓTh: Ég sagðist vera óráðinn í því). Virtist hann setja þetta mál í samband við annað mál því harla óskylt — kjördæmaskipunarmálið. Ég veit ekki, hvort margir eru færir um að fylgja hv. þm. G.-K. í þeim hugsanaferli. Ég get það ekki. Ég get ekki sett þetta stóra mál, sem þarf að leysa nú þegar, í samband við eitthvert stærsta ágreiningsmálið, sem verður ekki leyst nema á nokkrum árum.

Þó að hv. 3. þm. Reykv. þættist þess albúinn að taka í hönd okkar í þessu máli, þá talaði hann með hæfilegri lítilsvirðingu um þetta spor, sem við vildum stíga í þessa átt. Vildi hann, að við stigjum það eitthvað öðruvísi, t. d. á þá leið, sem gert muni ráð fyrir í frv. um jöfnunarsjóð ríkisins, sem jafnaðarmenn kvað ætla að bera fram. En afsakanlegt mun það talið, að við höfum ekki sniðið okkar ákvæði eftir ákvæðum frv., sem enn er óframkomið, jafnvel hversu gott, sem það kann að reynast. En þótt hugmyndin um slíkan sjóð sé góð, þá finnst mér hugmyndin um jöfnunarsjóð ríkisins ekki leysa málið til fulls. Því að þó að varasjóður sé bak við ríkissjóð, þá er það ekki nema að hálfu leyti varasjóður bak við atvinnuvegi landsins. Og þegar kreppa er, þarf að líta til beggja handa, forðast að ganga of nærri atvinnuvegunum, en sjá þó lífi þjóðarinnar farborða á skynsamlegan hátt.

Hv. 3. þm. Reykv. vildi ekki fela ríkisstj. málið og vantreysti henni á allan hátt til að framkvæma það réttilega. En ég get ekki skilið, hvernig hv. þm. ætlast til, að ríkisstj. afsali sér íhlutunarrétti um þetta mál. Við getum ekki farið að skipa stj. að leggja braut á þessum stað og byggja brú á hinum staðnum. En auðvitað mun stj. láta framkvæma verkin í samráði við sína verkfræðinga, eins og vegamálastjóra, vitamálastjóra, landssímastjóra o. s. frv. Hinsvegar er alveg rétt, að stj. ráðfæri sig við aðilja, sem vísir eru til að gefa henni holl og heil ráð um það, hverjir þurfi sérstaklega að njóta þessara atvinnubóta.