23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (2149)

43. mál, tekju- og eignarskattur til atvinnubóta

Jón Ólafsson:

Þó að ég hafi hlustað á framsöguræðu hv. flm. og hans rök fyrir þessu máli, þá hefi ég ekki getað komizt að neinni heildarniðurstöðu í málinu, svo að honum sé það ljóst, hvað hann er að fara með. Með þessu frv. virðist eiga að draga úr höndum sveitar- og bæjarfélaga þá ábyrgð, sem þau hafa haft um það, að halda sínum íbúum við lýði, þegar eitthvað kreppir að. Ég er hræddur um, að þegar menn eru komnir inn á þá braut, að ríkissjóður er farinn að skattleggja í þessu augnamiði, þá muni bæjar- og sveitarfélög hlífast við að skipta sér af þessum málum. Þegar hv. flm. talaði um skráning atvinnulausra manna 1930 sem rök, þegar ekki fékkst maður til að vinna nauðsynleg verk, þá sýnir það aðeins, að í skjóli opinberra ráðstafana hlífa menn sér við að vinna þessi og þessi verk, og svo í vetur réðust hópar manna að bæjarstj. og kröfðust vinnu fyrir sig og aðra. Það þekktist, að nokkrir af þeim mannskap voru komnir utan af landi, menn, sem höfðu eytt sínu kaupi, en heimtuðu svo vinnu og létu skrásetja sig. Hér á landi þykir það ekki neitt undur, þó að nokkrir séu atvinnulausir á þeim tíma, sem ekki er hægt að láta vinna nærri öll verk. En þetta hefir vanið fólk á að hugsa dálítið um hinn dauða tíma, og hugsa fyrir því, hvað við tæki. En það má búast við því, að menn fari að hætta að hugsa um slíkt, þegar verið er með þetta brölt hér og víðar og hróp um, að ríkið eigi að sjá fyrir mönnum, strax og þeir verða atvinnulausir. Þá er svo komið, að sá slær, sem hlífa ætti í þessu. Þetta er einn vandræðahugsunarhátturinn, að láta hið opinbera ala önn fyrir sér. En það er við því að búast, að þeir menn, sem hafa verið á jötunni, séu því fylgjandi. En það væri slæmt, ef slíkur hugsunargangur kæmist inn á hvert heimili á landinu.

Það er margt í ræðu hv. frsm., sem þyrfti að svara. Það vantar ekki á slíkum vandræðatímum, að skottulæknar og hómópatar komi með allskonar ráð, þegar búið er að koma einum atvinnuveginum í rústir, nefnil. síldarútveginum. Þá grípa menn til allskonar ráða, en það hjálpar ekki, þegar atvinnuvegirnir eru komnir í rústir. Þegar þessir menn eru búnir að eyðileggja síldarútveginn, þá koma þeir og hrópa á atvinnubætur. Og það er ekki nóg, að svona sé komið síldarútveginum, heldur eru einnig aðrar greinar atvinnuveganna á sömu braut, sökum óforsjálni þeirra manna, sem um það hafa átt að fjalla síðastl. ár. Þar sem hv. frsm. talaði um eignir, þá ætti hann að athuga, að þetta eru óarðberandi eignir, og þrátt fyrir það þó nafnverð þeirra sé margfaldað með 2. Það eru æðimargir, sem hafa ekki getað staðið straum af þessum óarðberandi eignum og hafa því orðið að láta þær af hendi. Ég er því hræddur um, að þetta fari dálítið utan hjá markinu. En hitt gæti vel komið til mála, að ríkisstj. hjálpaði sveitar- og bæjarfélögum til þess að komast út úr þeim kröggum, sem þau væru í, í það og það skiptið.

Ég legg til, að málinu verði vísað til fjhn., því að ég álít, að vel megi athuga þetta mál og gera sér grein fyrir því, hvernig á að ráða fram úr vandræðum þeim, sem kunna að verða næsta vetur. En ég álít hinsvegar, að ekki sé útlit fyrir neyð í Reykjavík og nágrenni hennar næsta vetur og því sé engin þörf á miklu fjasi í þessu máli.