23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (2151)

43. mál, tekju- og eignarskattur til atvinnubóta

Magnús Jónsson:

Í sambandi við þetta frv., sem fer fram á nýjan tekjuskatt til atvinnubóta, sem nemur 360 þús. kr., skal ég geta þess, að síðan hafa komið fram till. fjvn., þar sem lagt er til, að teknar verði upp verklegar framkvæmdir fyrir upphæð, sem nemur 200 þús. kr. meira en hér er farið fram á að afla. Ef hv. flm. hafa búizt við því, að fjárlögin yrðu svo steingeld, að ekkert fé yrði veitt til verklegra framkvæmda, þá ættu þeir nú í raun og veru að geta tekið frv. aftur. Það væri heppilegast fyrir þá sjálfa, að þessi lítið hugsaða smíð þeirra færi ekki lengra. Hv. fyrri flm. (JónasÞ) sýndi skilning sinn á málinu með því að tala um, að umr. um fjáreyðslu stj. væru óþarfar. Það hefði verið betra fyrir hann að standa upp og segja, að hann hefði ekkert vit á málinu. Það er vitanlegt, að sú kreppa, sem nú stendur yfir, stafar að mestu leyti að fjármálastjórn undanfarandi ára. Þótt ekki hefðu setið neitt vitrari menn í stjórn en þeir, sem verið hafa, en aðeins menn, sem ekki fóru út fyrir lög Alþingis, þá væru nú digrir fjársjóðir, sem hægt væri að nota til verklegra framkvæmda. Já, þá væri meira að segja atvinna landsins í blóma mitt á kreppuárunum. Það er því sannarlega ekki ástæðulaust að tala um fjárstjórn undanfarandi ára. Hv. þm. sagði, að það hefði ekki verið kvartað yfir framkvæmdunum á meðan þær stóðu yfir. Veit þá ekki hv. þm., að aðfinningar stjórnarandstæðinga hafa bókstaflega snúizt um eyðslu stj.? Meira að segja töldu þeir sjálfsagt, að kosningarnar snerust beinlínis um þessar framkvæmdir stj. En stj. þóknaðist að láta þær snúast um annað, sennilega af því að fjáreyðslan var lítt verjandi. En mótstaðan hefir nú farið vaxandi, alveg eins og fjáreyðslan hefir farið vaxandi. Hv. þm. nefndi fjármálastjórn undanfarinna ára hið mikla átak til viðreisnar atvinnuvegunum. Hv. þm. G.-K. sýndi fram á, að mikið af fénu fór til annars. Og nú er svo ástatt, að landbúnaðurinn, sem styðja átti, stendur eftir lamaður. Nei, ég held, að hv. flm. geri flokki sínum og stjórn engan greiða með því að segja, að hún hafi lyft atvinnuvegunum upp á við og gert þá sterka, þegar þeir verða að játa um leið í grg. frv., að atvinnuvegirnir séu gersamlega lamaðir. Sannleikurinn um hæstv. stj. er sá, að hún er eins og hinir „nýríku“, sem er svo prýðilega lýst í „Tímanum“. Hún hefir aflað fjárins líkt og kjötkássubarón, varið því eins og kjötkássu-barón, og stendur svo eftir eins og allslaus kjötkássu-barón. Og síðan kemur ávöxturinn af þessu háttalagi: Hið vanhugsaða frv. hv. flm. Og loks segir hv. 1. flm. eftir alt saman, að allt tal um fjármálastjórn undanfarinna ára komi þessu máli ekkert við.

Mér kemur það undarlega fyrir sjónir, að hæstv. atvmrh. skuli alls ekki sýna sig hér í hv. d., þegar þetta mál er til umr. Og hæstv. fjmrh., sem ætti að vera málið skyldast, hefir rétt rekið hér inn nefið við og við, en ekki sagt eitt einasta orð. Það væri þó sjálfsagðast og eðlilegast, að hæstv. stj. hefði forgöngu við þessa umr. málsins. Hljóta þessar umr. því að verða marklausar að nokkru leyti, því ekki mætti minna ver. en að hæstv. stj. skýrði frá því, hvort hún vilji nokkuð framkvæma í þessa átt eða óski yfirleitt eftir svona löggjöf.

Ég ætla þá að víkja nokkrum orðum að frv. sjálfu og sýna fram á, hve hörmulega lítið hv. flm. vita um það, sem þeir eru að fara með.

Þetta mál er ekkert óþekkt fyrirbrigði í heiminum; síður en svo. Í mörg undanfarin ár hefir atvinnuleysið verið sá höfuðóvinur í flestum löndum, sem valdið hefir mönnum mestum erfiðleikum og áhyggjum. Stjórnmálaflokkarnir hafa gert allt til þess að reyna að kveða þennan óvætt niður. Fjöldi nefnda hefir komið saman víðsvegar, aragrúi bóka og blaðagreina skrifaður um þetta af hinum færustu og lærðustu mönnum o. s. frv. Allt hefir verið gert til þess að reyna að komast út úr ógöngunum. Í fyrstu héldu menn, að það væri auðvelt mál. Ef t. d. 1000 menn gengju atvinnulausir, þá þyrfti ekki annað en að leggja á skatta og veita þessum mönnum svo atvinnu á kostnað hins opinbera. En svo þegar það var gert, þá stóðu oftast 2000 atvinnulausir eftir, og þannig hélt atvinnuleysið áfram að aukast. Það var eins og óvættirnir gömlu, sem getið er um í fornum sögum. Væri eitt höfuð sniðið af þeim, þá voru samstundis komin tvö eða þrjú í staðinn.

Við síðustu kosningar í Englandi sigraði verkamannaflokkurinn, af því að menn héldu, að hann myndi geta bætt úr atvinnuleysinu. Flokkurinn myndaði stj. og valdi í hana mestu dugnaðarvíkinga, sem ekkert spöruðu til þess að berjast gegn atvinnuleysinu. En þrátt fyrir allar aðgerðir þeirra óx atvinnuleysið hröðum skrefum.

Nú er atvinnuleysið að hefjast hér hjá okkur. Og hvað er gert? Við ætlum að byrja á því stigi, sem aðrar þjóðir eru búnar að prófa margsinnis og jafnan hefir verið gagnslaust. Það er skottulækning, eins og hv. 1. þm. Rang orðaði það heppilega, að ætla sér að leysa málið með því að leggja nýja skatta á þrautpínda atvinnuvegi landsmanna. Því hvað veldur atvinnuleysinu? Ekkert annað en það, að atvinnuvegirnir eru af ýmsum ástæðum orðnir svo lamaðir, að þeir geta ekki gefið öllum landsins börnum atvinnu. En hvaða vit er þá í því að leggja nýja skatta á atvinnuvegina til þess að bæta úr atvinnuleysinu? Það myndi aðeins leiða til þess, að tvö eða þrjú höfuð yxu fram á ófreskjunni í stað þess, sem sniðið var af. Ég furða mig á því, að hv. flm. skyldu ekki vakna af fávizkusvefni sínum, er þeir voru að skrifa grg. fyrir þessu frv. Þar er ástandið útmálað á hinn ömurlegasta hátt, og samt er lagt til, að lagðir séu á nýir skattar til þess að bæta úr neyðinni!

Hv. 1. flm. sagði í ræðu sinni, að eignir landsmanna næmu tugum milljóna, svo að ekki munaði neitt um það, þó að 360 þúsund kr. væru teknar í ríkissjóð með skottum. Þetta er hinn mesti misskilningur. Þrátt fyrir þessar eignir verða atvinnuvegirnir að starfa með millj. af útlendu fé. Það er sama, hvað hv. þm. nefnir háar upphæðir. Reynslan sýnir áþreifanlega, að atvinnuvegirnir geta samt ekki veitt öllum landsmönnum atvinnu.

Hinar smærri villur í frv. hverfa allar í skuggann af þessari reginfirru um skattálagninguna. Ég ætla því lítið að minnast á þær. Svo er t. d. um varasjóði þá, sem hv. flm. tala um. Þeir eiga að taka tekjur sínar í góðærum, en samt ætla hv. flm. að byrja að safna í þá í miðri kreppunni og harðærinu. Hv. flm. segja í grg., að hvert fyrirtæki eigi að kappkosta að eignast varasjóð til þess að mæta áföllum á krepputímum. Þetta segja hv. flm. til þess að reyna að telja mönnum trú um, að það sé einhver speki, sem þeir eru að fara með. Auðvitað er hverju fyrirtæki gott og nauðsynlegt að eignast varasjóð. En líkingin, sem hv. flm. draga af þessu, er alröng og þessu alveg óviðkomandi. Fyrst og fremst safna öll fyrirtæki í góðærunum, en þeir vilja byrja að safna í varasjóði á þeim tímum, sem ætti að taka úr þeim. Hvert heilbrigt fyrirtæki leggur sjálft í sinn varasjóð, en hér er ekki um neitt slíkt að ræða, heldur um almennan tekjuskatt á landsmenn. Þá verð ég að segja það, að mér þykir jöfnunarsjóðshugmyndin miklu betri, því hún felur þó í sér varasjóðshugmynd, enda þó ég geti ekki fylgt því frv., þar sem ég þekki aðra aðferð, sem ég tel miklu betri í alla staði, en hún er sú, sem hv. 3. þm. Reykv. benti á áðan í ræðu sinni: Það verður að binda hendur ríkisstj. Það er ráðið. — Ég og hv. þm. Borgf. munum leggja prófstein á hv. þm. í þessum efnum, og sá prófsteinn er brtt., sem við, sem erum minni hl. fjvn., berum fram við fjárlögin: Að taka stórfé frá á góðu árunum og leggja það til hliðar og geyma til hörðu áranna. — Þetta álítum við, að eigi að gera. Þetta ráð hefði dugað ágætlega á undanförnum árum. Það dugði ágætlega meðan íhaldsstj. sat að völdum. Þá var hægt að lækka skattana og auka framkvæmdirnar á vondu árunum, enda þótt lítilsháttar tekjuhalli yrði á fjárl. Hið sama hefði mátt gera nú, hefði ekki setið að völdum stj., sem hagaði sér eins og kjötkássubarón.

Ég ætla ekki að fjölyrða um málið að sinni. Ég hefi það fyrir reglu að hleypa frv. til n. og 2. umr., er þau koma fram í fyrsta sinn. en ef slíkt frv. sem þetta kæmi fram þing eftir þing, þá myndi ég ekki kynoka mér við að leggja til, að það væri fellt frá 2. umr.