23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (2152)

43. mál, tekju- og eignarskattur til atvinnubóta

Steingrímur Steinþórsson:

Þrír þm. úr Sjálfstæðisflokknum hafa nú talað í þessu máli, en allir á ólíkan hátt. Einn þeirra, hv. 1. þm. Rang., hefir talað um málið með rökum og skilningi að mestu leyti, og væri mér ánægja að ræða við hann um málið. Hinir tveir, hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. G.-K., hafa rætt um það með fullkomnu skilningsleysi á öllum sviðum.

Ég skal fyrst snúa mér að því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði í sinni löngu ræðu. Allur fyrri hluti hennar, um fjármálastjórn undanfarinna ára, var nákvæmlega það sama og ég heyrði alla frambjóðendur og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins halda á þeim fundum, sem ég var á fyrir kosningarnar í sumar. Var því ekki að undra, þótt ræða þessi rynni liðugt upp úr hv. þm. Um fjármálin er alls ekki tími né tækifæri til þess að tala nú, en það mun verða gert síðar. En ég skal aðeins benda hv. þm. á það, að þjóðin hefir sjálf gefið svar í þessum efnum. Þrátt fyrir allt umtal stjórnarandstæðinga um fjármálaóstjórn undanfarandi ára óx Framsóknarflokknum mikið fylgi úti um landið í síðustu kosningum. Þjóðin skildi það fullvel, að það er fyrst á seinasta kjörtímabili að fjármagninu hefir verið beint út til allra avinnuvega landsins, en ekki svo að segja einskorðað við einstaka atvinnuvegi, eins og áður var. Annars verða síðar ástæður til þess að ræða um þessi mál.

Síðari hluti ræðu hv. 4. þm. Reykv. var að mestu leyti ýmsar bollaleggingar um ástandið úti í heimi. Ég verð að segja það, að ég varð hissa á mótsögnunum hjá hv. þm., svo átakanlega stönguðust fyrri og síðari hlutinn í ræðu hans. Í öðru orðinu talar hann um heimskreppuna, sem teygi arma sína um heim allan, og einnig til okkar hér á Íslandi, og í hinu orðinu segir hann, að atvinnulíf landsins myndi nú standa í blóma, ef ekki hefði verið ill fjármálastjórn á undanförnum árum. Hvernig getur verið blómlegt atvinnulíf, þegar kreppa er, og hvernig getur hæstv. ríkisstj. átt sök á heimskreppunni? Þetta er svo mikil meinloka, að mig furðar á því, að hv. þm. skuli láta slíkt frá sér fara. Þá segir þessi hv. þm., að atvinnuleysið sé hinn hættulegasti óvættur í öllum löndum, en þó heldur hann því fram, að atvinnuleysið hér sé illri fjármálastj. að kenna. Þessar rökvillur hv. þm. eru svo stórar og augljósar, að ég er viss um, að hvert fermingarbarn norður í Skagafirði hefði komið auga á þær.

Ég skal þá víkja örfáum orðum að ræðu hv. 1. þm. Rang. Hann talaði aftur á móti af nokkrum skilningi um málið, og er ég honum að sumu leyti sammála. Hv. þm. fann það að frv., að engin heildarhugsun væri í því. Áleit hann, að bæjarfélögin ættu að geta séð fyrir sínum verkamönnum án aðstoðar ríkisins. En reynslan hefir sýnt úti um allan heim, að ríkisvaldið hefir orðið að koma til skjalanna í þessum efnum. Bæjarfélögunum hefir orðið ofraun að leysa þessi mál nema með aðstoð ríkisins, og svo mun verða hér hjá okkur eins og annarstaðar.

Hv. 1. þm. Rang. sagðist ekkert setja út á það, þó að þetta frv. kæmi fram. Sýnir hann með því, að hann skilur nauðsyn þess að gera nú sérstakar ráðstafanir til þess að afstýra hættunni. Við flm. þessa frv. erum fúsir til þess að ganga inn á brtt. við frv. til samkomulags. T. d. gætum við gengið inn á það, sem hv. þm. G.K. sagði, að hækka eignarskattinn, en lækka tekjuskattinn að sama skapi.

Ég er sammála hv. 1. þm. Rang. um það, að allar atvinnubætur séu tvíeggjað vopn, því að þær geta oft á tíðum orðið til þess að draga úr ábyrgðartilfinningu þeirra, sem í hættu eru staddir fyrir atvinnuleysi, svo að þeir verði síður vakandi um að fá sér vinnu og bjargast af án aðstoðar ríkisvaldsins. Og það er ekki ljúft fyrir mig eða aðra fulltrúa sveitanna að bera fram slíkt frv., meðan bændurnir verða að reka búskap sinn með tapi frá ári til árs. En ég vonast til þess, að þeir lifi af kreppuna án þess að ríkisvaldið þurfi að hlaupa undir bagga með þeim. En það verður örðugra fyrir fólkið við sjávarsíðuna að komast af í kreppunni, og verður því að stemma á að ósi og gera þegar ráðstafanir til þess að fleyta því yfir verstu örðugleikana. Og ég sé engin önnur ráð heppilegri en þau, að þeir, sem mestar eignir eiga og hæstar tekjur hafa í þjóðfélaginu, leggi fram fé til þess, sem gera þarf. Það eru stóreignir hér í einstakra manna höndum, og þá fyrst og fremst í Reykjavík. Auðurinn hefir smátt og smátt dregizt í einstakra, fárra manna hendur, og þeir geta vel lagt fram fé til þessara hluta, ef þeir vilja. Hitt er ekki nema eðlilegt, að fulltrúar þess flokks, sem berst fyrir hagsmunum þessara manna, sem bezta hafa aðstöðuna í þjóðfélaginu, séu á móti þeim ráðstöfunum, sem hér er farið fram á, að verði gerðar.

Hv. 4. þm. Reykv. fannst það einkennilegt, að við skyldum vilja byrja að safna í varasjóð í harðærinu. Þetta er einn misskilningurinn enn hjá hv. þm. Við flm. tölum alls ekki um að safna í varasjóð nú, heldur teljum við þvert á móti nauðsynlegt að gera nú þegar sérstakar ráðstafanir til þess að bæta úr því mikla atvinnuleysi, sem blasir við framundan.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að frv. þetta væri kák eitt og einskis virði, og að jafnaðarmenn myndu leggja fram frv. til þess að bæta úr neyðinni, sem gengi miklu lengra. Þetta sýnir glöggt, að Framsóknarflokkurinn er milliflokkur í þjóðfélaginu, sem hvorki gengur of langt til vinstri, í áttina til jafnaðarmanna, né í áttina til íhaldsmannanna, sem hugsa aðeins um það að skara eld að köku þeirra manna, sem bezta aðstöðuna hafa í þjóðfélaginu. Þetta kom greinilega í ljós hjá hv. þm. G.-K. Hann taldi frv. þetta svo lítilfjörlegt, að hann yrði móti því, að það fengi að ganga til n. Ég verð að segja það, að mér þykir það óviðeigandi, að þessi hv. þm., sem er einn af stærstu atvinnurekendum landsins, skuli ekki hafa meiri ábyrðartilfinningu en svo, að hann setur sig á móti því, að það sé athugað, hvaða ráð eigi að hafa til þess að bæta úr neyðinni, þegar ástandið er jafnhörmulegt og hv. 4. þm. Reykv. lýsti því í sinni ræðu. En þetta frv. er borið fram í því trausti, að það séu ekki allir hér í hv. d., sem hugsa eins og þessi hv. þm.

Við flm. erum fúsir til þess að leita samvinnu við báða andstöðuflokkana til þess að finna aðrar heppilegri leiðir en þá, sem bent er á í þessu frv. og stefna að sama marki.