23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (2155)

43. mál, tekju- og eignarskattur til atvinnubóta

Haraldur Guðmundsson:

Mig furðar mjög á því, hve hæstv. stj. virðist hafa lítinn áhuga á þessu máli, að hæstv. forsrh., sem á að taka við þessum heimildarlögum, skuli ekki láta neitt til sín heyra. Mér væri þó forvitni á að vita, hvort ríkisstj. ætlar að nota þessa heimild, ef frv. verður samþ. (MJ: Þetta er bráðabirgðastjórn). Það væri alveg gagnslaust að vera að samþ. þetta frv., ef svo færi, að hæstv. stj. vildi svo ekki nota þá heimild, sem hér er farið fram á í þessu frv. Mér fyndist því viðeigandi, að hæstv. fjmrh. segði til um, hvort heimildarinnar verður neytt ef hún verður gefin. Annars verð ég að segja það fyrst um þetta frv., að nafnið á því er næsta einkennilegt. Það er fullkomið öfugmæli að tala þar um atvinnubætur. Það hittist nú svo á, að frv. kemur fram einmitt daginn eftir, að útbýtt hefir verið hér brtt. við fjárlagafrv. frá fjvn. þessarar hv. d., tillögum, sem sýna, að stj. og flokkur hennar ætlar að knýja fram atvinnuspjöll, en ekki atvinnubætur. Og um þetta virðast bæði sveita- og kaupstaðaíhaldið alveg sammála.

Eftir till. hv. fjvn. á að verja til verklegra framkvæmda á næsta ári um millj. kr. Og í þessu frv. er gert ráð fyrir, að varið verði til atvinnubóta því fé, sem inn kemur samkv. því, sem gert er ráð fyrir, að verði 360 þús. krónur, eða alls til verkl. framkvæmda og atvinnubóta um 850 þús. kr. Svo leyfa hv. flm. sér að kalla þetta atvinnubætur. Þegar við tölum um atvinnubætur, sem svo eru kallaðar, þá verðum við að líta á það, hversu mikilli vinnu ríkisstj. hefir haldið uppi á undanförnum árum; atvinnubætur eru það, ef atvinnan er aukin, atvinnuspjöll, ef hún er minnkuð. Eftir að hafa flett upp í hinni skrautlegu og dýru bók, sem nefnd hefir verið „Verkin tala“ og sem hér liggur fyrir framan mig, þá er það fljótséð, að hér er síður en svo um atvinnubætur að „tala“. Þar segir svo: Árið 1930 var varið til vegalagning. 2 millj. 125 þúsund krónum, ennfremur til símalagninga 900 þús. krónum, og loks til vitabygginga 182 þús. krónum. Loks ennfremur til bryggjugerða og þess háttar 88 þús. króna. Samtals verður þetta þá til nýbygginga 3 millj. og 300 þús. krónur, og er þá ótalið allt hið mikla fé, sem varið hefir verið til skólabygginga og ýmsra annara opinberra bygginga, bæði í Reykjavík og víðsvegar úti um allt land. Það má því telja fullvíst, að það, sem lagt hefir verið fram til verklegra framkvæmda á árinu 1930, hafi ekki verið undir 4½–5 millj. króna. Árið 1930 var gott atvinnuár, svo hér var ekki um neinar atvinnubætur að ræða. En það er allt útlit fyrir, að árið 1932, eins og árið 1931, verði mjög rýrt í tilliti til atvinnu manna. Og það er viðurkennt, að það þurfi að bæta úr ástandinu. Og hvernig á svo að bæta úr þessu? Í stað 4½–5 millj., sem notaðar voru til verklegra framkvæmda á síðastl. ári, á nú samkv. fjárlagafrv. og þessu frv. að verja 860 þús. kr. í sama skyni. Og þetta kalla svo hv. flm. atvinnubætur. Ég er alveg undrandi yfir, að flokkur hæst . stj. skuli leyfa sér að beru fram slíkt frv. sem þetta, og kalla það svo atvinnubætur. Að lækka fjárveitingar til opinberrar vinnu um fast að 4/5 hlutum heitir á þeirra máli atvinnubætur. (Forsrh.: Við höfum alltaf verið skammaðir fyrir að hafa unnið of mikið). Ætlar þá hæstv. ráðh. að draga úr vinnunni nú, til að bæta úr atvinnuleysinu? Það er auðvitað betra en ekkert að fá þessar 360 þús. til framkvæmdar opinberri vinnu. En að kalla það atvinnubætur, miðað við þær framkvæmdir, sem ríkisstj. hefir haft með höndum undanfarin ár, það nær vitanlega ekki nokkurri minnstu átt. Þvert á móti. Ríkisstj. er sá atvinnurekandinn, sem mest eykur á kreppuna, sá atvinnurekandinn, sem mest dregur saman seglin, mest eykur á vandræðin og atvinnuleysið, ef fjárl. verða samþ. eins og frv. er nú. Ég þekki engan annan atvinnurekanda, sem hefir dregið svo saman atvinnurekstur sinn, án þess að gjaldþrot hafi neytt hann til þess, að hann hafi sagt upp 4/5 hlutum þeirra manna, er hjá honum hafa unnið. En eftir því, sem fyrir liggur, má ætla, að hæstv. ríkisstj. segi nú upp 4/5 hlutum af sínum verkamönnum. Og svo leyfir hún sér að kalla það atvinnubætur.

Hæstv. stj. mun hafa lýst því yfir, að tekjur ríkissjóðs hafi orðið nær því hinar sömu og árið 1930 fyrstu 5 mán. þessa árs. Eins og hv. 3. þm. Reykv. gerði, óska og að fá nánari skýrslu um þetta frá hæstv. fjmrh. Og ég óska að fá sérstaklega upplýst, hversu mikið ríkið átti í sjóði við síðustu áramót. Eftir þá lýsing, sem hv. l. flm. þessa frv. gaf hér áðan á því ástandi, sem sennilega yrði hér í haust, er það furðulegt, að hann skuli kinnroðalaust geta borið fram frv. um að bæta úr því ástandi með — segi og skrifa — 360 þús. krónum. — Hann hlýtur þó sjálfur að sjá og viðurkenna, en slíkt er sem dropi í hafið.

Til viðbótar þeim upplýsingum, sem ég bað um áðan, vil ég biðja hæstv. fjmrh. að gefa mér upplýsingar um, hvað ríkið átti í sjóði 1. jan. þ. á. og hvað mikið það átti í sjóði 1. júní síðastl. Það er í raun og veru ómögulegt að tala í alvöru um fjármál og skattamál, þegar ekki er hægt að fá að vita, hvernig hagur ríkissjóðs er. Ég vildi gjarnan fá að vita, hvort bráðabirgðayfirlitið, sem hæstv. þáv. fjmrh. gaf í vetur, hefir reynzt rétt. Ef trúa má því, sem skrifað stendur í „Verkin tala“, þá hefir á vegamálunum einum saman skakkað 600 þús. krónum, sem sá liður er talinn hærri í þeirri ágætu bók en í bráðabirgðayfirlitinu. Og það kann að vera, að það séu einhverjar fleiri álíka smávægilegar skekkjur í því.

Ég vil svo biðja hæstv. fjmrh. að gefa mér hinar umbeðnu upplýsingar áður fjárl. koma til afgreiðslu.

Hv. 1. flm. gat þess, að fullt útlit væri fyrir, að meiri hluti þjóðarinnar yrði að búa við neyð næsta vetur, ef eigi yrðu gerðar sérstakar ráðstafanir. Og úrræðin, sem þessi hv. þm. kemur með til að forða fólki frá þessari neyð, eru — 360 þús. kr. til atvinnubóta um leið og verklegar framkvæmdir ríkisins eru skornar niður að fjórum fimmtu hlutum. Þetta er alveg furðulegt fyrirbrigði. Ég veit ekki, hvað veldur því, að hv. þm. gengur svona skammt, úr því að honum er svo ljóst ástandið sem hann segir. Sennilega er það af því, að hann telur, að ekki sé hægt að fá meira fé. Hann gat þess í ræðu sinni, að á krepputímum yrði að nota getu hinna efnaðri borgara til að hjálpa hinum, sem ættu í vök að verjast. En samkv. frv. er þó ekki gengið nær getu hinna efnaðri borgara á þessum krepputímum en svo, að maður, sem hefir 20–28 þús. kr. árstekjur, á að greiða af þeim til atvinnubóta 400 kr. í eitt skipti fyrir öll. Meira telja sjálfsagt hv. flm., að sé ómögulegt að láta mann með þessum tekjum blæða í þessu skyni, jafnvel þótt neyðin standi við þröskuldinn hjá meiri hluta þjóðarinnar, samkv. þeirra eigin orðum. Það þarf talsverð brjóstheilindi til að bera slíkt kinnroðalaust fram.

Hv. flm. sagði, að gjaldgetan væri ekki mikil. Það er ekki rétt. Skattskyldar eignir hér í Rvík eru nærfellt 60 millj. kr. En í því sambandi skiptir það og miklu máli. hve lengi þessi fjárstofn hefir verið að myndast og hve kostnaðarsamt hefir verið að afla hans. Nú er það staðfest af opinberum skýrslum, að skattskyldar eignir hér í Rvík hafa aukizt frá 1926 úr 37 millj. upp í 59 millj., eða m. ö. o. um 22 millj., séu framtalsskýrslur réttar. Þessar eignir hafa auðvitað einkum myndazt þar, sem féð var fyrir áður, og bendir það til þess, að eignir manna hafa gefið góðan og fljóttekinn arð á undanförnum árum, svo að eftir því að dæma virðist ekki gengið mjög nærri mönnum, þótt af þeim, sem hafa 28 þús. í árstekjur, séu teknar 400 kr. í eitt skipti fyrir öll. A. m. k. væri hægt að búast við róttækari till. af þeim, sem þykjast sjá, hve alvarlegt ástand er framundan.

Vitanlega þarf margvíslegar ráðstafanir til þess að gera 80–90% af þjóðinni auðveldara að þola afleiðingar kreppunnar. Fyrst og fremst þarf að sjá um, að sem fæstir svokallaðir sjálfstæðir smáatvinnurekendur flosni upp vegna hennar. Að því getur stjórn og þing stuðlað með breyttri löggjöf, enda liggja nú fyrir þinginu frv. um það efni. En þrátt fyrir það hlýtur mikill hluti verkalýðsins að vera á flæðiskeri staddur. Honum verður að hjálpa með því að drýgja kaupgetu hans og stuðla að því að draga úr dýrtíðinni, í hvaða mynd sem hún birtist. En það úrræði, þótt framkvæmt yrði, kemur þeim þó ekki að haldi, sem enga peninga og enga kaupgetu hafa. Þeim verður að hjálpa með atvinnu eða atvinnuleysisstyrkjum. Ræði ríkið og héraðssjóðir verða að veita þessa hjálp, og ríkið verður að hjálpa þeim héraðssjóðum, sem ekki geta staðið straum af atvinnubótunum sjálfir, með lánum eða ábyrgð. Fari svo, að atvinnubótavinna borgi sig ekki fullkomlega, verður ríkissjóður að borga mismuninn. Og auk alls þessa verður ríkissjóður að halda uppi meiri vinnu en undanfarin ár. Annað væri hrein og bein atvinnuspjöll.

Hin hlið málsins er sú, hvernig mæta eigi þeim skuldbindingum, sem af þessu leiðir. Hv. l. flm. þessa frv. er sjálfur í fjvn. og veit, hversu örlát stj. og fjvn. eru á fé í þessu skyni. Frv. hans til að bæta út ástandinu er því næstum því grátskoplegt, þótt tilgangurinn sé án efa góður. Ég vona, að viljinn sé eins góður og grg. frv. bendir til, en ekki jafnlítilfjörlegur og frv. sjálft bendir til.