18.08.1931
Neðri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (2167)

43. mál, tekju- og eignarskattur til atvinnubóta

Jón Ólafsson:

Ég ætla að taka það fram strax, að ég er ekki á móti þessu máli vegna þess kostnaðar, sem það hefir í för með sér, né hvernig sá kostnaður kemur fram á þeim, sem féð eiga að leggja til. Það er sjálf hugsunin, sem í frv. felst, sem ég get ekki fallizt á og það er fyrir mér aðalatriðið. Það hefir verið svo löngum í okkar þjóðfélagi, að við höfum lifað ýmsar sveiflur, sem hafa gefið okkur tilefni til þess að fara út í ýmislegt, sem við hefðum aldrei byrjað á, ef við hefðum haft nægilega skýrt yfirlit yfir atburðina sem heild. Þegar vandræði dynja yfir, ríður allt á því, að þeir, sem fara með stjórnartauma þjóðarinnur á þeim tíma, láti ekki óþarfa tilfinninganæmleik ráða athöfnum sínum, heldur kalda og rólega skynsemi. Ef tilfinningarnar ráða, eru menn ofsalega bjartsýynir í góðærum, og eyða þá í botnlausri vitleysu, en linna ekki látum að barma sér, undir eins og bólar á einhverjum erfiðleikum. Ég þekki marga menn, sem fara að æðrast löngu áður en komið er í óefni, og eru því manna vísastir til þess að gera skyssur og skaða. Það er svo hvar sem er, að það, sem ekki er gert af þrótti og að yfirlögðu ráði, fer alltaf meira eða minna í handaskolum. — Það, sem einkennir stjórnmálalíf okkar nú, er þetta sjúka lýðdekur hjá öllum stjórnmálaflokkum landsins. Allt snýst um þetta kapphlaup um atkvæðasálir Íslands. Oft hefir kveðið rammt að þessu, en þó ofbauð mér það alveg við útvarpsumr., sem voru hér á dögunum. Þá kappbuðu þeir hæstv. forsrh. og hv. þm. Seyðf. svo ákaft í atkvæðasálir, að ekki mátti á milli sjá, hvor betur hefði. Ég er samt á því, að þarna hafi hæstv. forsrh. orðið hæstbjóðandi í þeim fögru orðatiltækjum, sem venjulegast er að veiða kjósendur með, en vandi er að segja, hvor reynist slyngari, þegar til framkvæmdanna kemur. Þetta lýðdekur er orðið svo algengt og hættulegt, að varla er hægt að stiga nokkurt spor frjálst, því að menn og flokkar eru rígbundnir af loforðum, sem keypt hefir verið kjósendahylli fyrir, en ekki er nokkur leið að uppfylla. —Til eru margir menn hér á landi, sem nota sér illt árferði til þess að mála fjandann á vegginn og reyna að berja það inn í almenning, að einhver voði sé á ferðum. Þetta er gert til þess að þeir sömu geti komið fram ýmsum áformum sínum. Þeir þurfa að fá lýðinn til þess að trúa á sig sem foringja, til þess að geta komið í framkvæmd ýmsum pólitískum asnastrikum, þó að þá vitanlega vanti alla þekkingu á þjóðmálum og fjárhag ríkisins. Hér hefir tæplega nokkurt frv. komið fram í sumar án þess að einhver hv. þm. hafi notað tækifærið til þess að barma sér, tala um voðann framundan, að fólkið hefði ekkert að éta o. s. frv. Ýmsir hafa orðið til þess að trúa þessu, án þess að gera sér sjálfir grein fyrir ástandinu eins og það er í raun og veru. En ég get þá frætt hv. þdm. um það, að sumarið í sumar er mesta góðærissumar, sem yfir Reykjavík hefir komið lengi. Ég efast um, að nokkurt sumar síðan 1920 hafi verið eins hagstætt í atvinnulegu tilliti eins og einmitt sumarið í sumar. Það væri þá helzt sumarið 1924. Líka má benda á það, að aldrei hefir verið ódýrara að lifa hér en nú, þegar öll vara hríðfellur í verði. Svo má og benda á það, að væru slík vandræði á ferðinni og alltaf er verið að tala um, þá væri þetta frv. hégómi einn. En eins og ég hefi tekið fram, eru þessi vandræði aðeins ímynduð. Þessi kvein minna mig á sjóhrædda menn, sem fara að stynja og andvarpa löngu áður en óveðrið skellur á. — Ég ætla að taka það fram aftur, að þetta ár er með beztu atvinnuárum, sem við höfum átt við að búa um margra ára skeið. Það leiðir af sjálfu sér, þegar maður athugar þá staðreynd, að nú er kominn mjög miklu meiri fiskur á land en nokkru sinni áður, og mestallt sumarið hefir verið bezta tíð og þurrkar, svo þessi landburður hefir orðið enn notadrýgri en oft undanfarin ár. Ennfremur má minna á það, að hér hafa verið greidd vinnulaun í sumar, sem eru 16% hærri en sumrin að undanförnu, og helmingi hærri fjárhæð í heild en við höfum átt að venjast, — allt vegna hins mikla afla og hinnar hagstæðu tíðar.

Þó að hv. þm. Dal. segði, að þessi skattur kæmi mjög lítið niður á atvinnurekendum, þá er orsökin sú, að þeir hafa nú orðið hvorki eignir né tekjur til þess að greiða skatt af. En þetta eigna- og tekjuleysi er aftur afleiðing af of háum sköttum og allt of háum vinnulaunum. En þeir, sem fá þessi háu laun, eru að mestu leyti undanþegnir sköttum. Eftir eru þá aðeins starfsmenn ríkisins og annara stofnana, og þar mun ekki vera feitan gölt að flá.

Það mun vera rétt með farið, að aldrei hefir eins margt fólk farið úr Reykjavík upp í sveit til heyskapar eins og í sumar. Það er alltaf sagt, að sveitirnar hafi lítið að bjóða, en þessi fólksstraumur sýnir, að þeir, sem standa fyrir atvinnurekstri þar, neyðast til þess að taka rándýrt verkafólk, sem þeir auðvitað stórtapa á. Þótt það sé vís dauði atvinnuvegunum, verða þeir að taka fólk. Á þessa hlið þjóðlífsins er ekki lítið, og yfirleitt heyrist aldrei á það minnzt að gera neinar ráðstafanir til að hjálpa atvinnurekendum, enda þótt ekki sé annað sýnna en enginn atvinnurekandi verði uppistandandi innan skamms. Þeir þm., sem mest hafa galað um atvinnuleysið, hafa verið að minnast á smölun á atvinnuleysingjum, sem hér fór fram í byrjun þessa mánaðar. Árangurinn varð sá, að fram komu um 100 menn, sem litla atvinnu höfðu haft í 40–50 daga, og þeir munu ekki furða sig á þeirri tölu, sem þekkja, hvaða fólk er hingað komið í skjóli loforða og fagurgala forsprakkanna. Þetta var nú árangurinn af smöluninni, og hann sýndi, að hér eru nú færri menn atvinnulausir en nokkru sinni undanfarið, enda er það í samræmi við það, sem ég sýndi fram á áðan, að þetta sumar er eitthvert hið bezta atvinnusumar, sem yfir okkur hefir komið. Skráningin sýnir það, að ástandið er engan veginn ægilegt og að engin þörf er á að vera að vola löngu fyrir tímann. Og þegar þess er gætt, að því verkafólki, er atvinnu hefir haft í sumar — og það hafa langflestir haft, sem hafa viljað vinna — stendur til boða í haust að kaupa kjöt bænda og fisk útgerðarmanna fyrir sáralitið verð, ef það hefir aðeins sýnt nokkra viðleitni til að spara, þá verður volið enn ástæðulausara. En það er að vísu kunnugra en frá þurfi að segja, að fátt er meira eitur í beinum þeirra, sem eru á sálnaveiðum eftir þessu fólki, en hin gamla og góða kenning um sparnað og fyrirhyggju. Þvert á móti er fólki prédikað að varpa öllum sínum áhyggjum upp á hið opinbera.

Í því frv., er hér liggur fyrir, er gengið inn á mjög hála braut að því er snertir ríki og bæi. Ég get sagt það fyrir mitt leyti, að ef ríkið á að lúra á 1/3 af þessu væntanlega vandræðafé, þá mun ég ekki verða léttur á að láta tvo þriðju hlutana. Ég geri ráð fyrir, að til verði fólk, sem fæst til þess að sækja sinn skerf af þeim þriðjungi, sem klipinn er undan nöglum reykvískra skattborgara og geymdur er uppi í stjórnarráði, og þyki jafnvel „sport“ að leita til svo hárra staða. Hitt er annað mál, hvort bæjar- og sveitarfélög verða jafnginkeypt fyrir því að leggja fram 2/3 á móti þessum vel fengna ríkisþriðjungi.