23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (2186)

51. mál, rekstrarlán fyrir samvinnufélög sjómanna og bátaútvegsmanna

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Það má líta á þetta frv. hér sem einn þátt í þeirri viðleitni að létta fiskimönnum á smábátum kreppuna. Þetta mál er hv. þdm. kunnugt, með því að á síðasta þingi var það flutt nokkurnveginn í þeirri mynd, sem það er nú, sem brtt. minni hl. sjútvn. við frv. hv. þm. Vestm. og fleiri um rekstrarlánafélög fyrir bátaútveg og smáiðju.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. gangi í ábyrgð fyrir 3 millj. króna láni fyrir Fiskveiðasjóð Íslands, er hann síðan veiti sem rekstrarlán til samvinnufélaga sjómanna og smábátaútvegsmanna, með sömu kjörum og hann fær lánið, að viðbættri lítilli framfærslu, þann hátt er hægt að losa þessa menn við skatt til milliliða í fiskverzluninni og tryggja þeim, að þeir njóti söluverðs aflans fullverkaðs. Í sameiningu eiga þeir að verka fiskinn og selja hann og ná þannig betra verði.

Hver og einn af þessum mönnum á þess lítinn kost að afla sér húsa og landsvæðis, þar sem þeir geti verkað sinn afla, en með samvinnufélögum mætti þeim að vera þetta vel kleift.

Ég legg til, að þetta mál fari til þeirrar sömu n. og frv. um rekstrarlánafélög fyrir bátaútveg og smáiðju, því að þetta mál er svo skylt því. Hæstv. forseti getur víst upplýst, til hvaða n. það fór. (Forseti: Til sjútvn.). Þá legg ég til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til sjútvn.