23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (2189)

52. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Þetta frv. var flutt á síðasta þingi í sömu mynd og það er nú. Það var rætt í þrjá daga hér í þessari hv. deild og svo að lokum fellt frá 2. umr. Síðan hafa borizt til Alþingis áskoranir frá fiskimönnum og bátaútvegsmönnum víða um land að lengja þann tíma, sem dragnótaveiðar eru leyfðar. Áður hefir einnig verið lagt fram í þessari hv. deild frv. um breyt. á sömu lögum, sem gekk í svipaða átt, en náði ekki fram að ganga. Ég vil láta mér nægja að vísa til þeirrar grg., sem fylgdi frv. á síðasta þingi, og skýrslu frá fiskifræðingnum Árna Friðrikssyni, sem nú fylgir frv.

Ég vil beina því til hv. sjútvn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, að veita því skjóta afgreiðslu, vegna þess að það hlýtur að vera í nánu sambandi við annað frv., sem hér er einnig á ferð, um útflutning á nýjum fiski. Verði það að lögum, tel ég sjálfsagt að veita þessu frv. einnig afgreiðslu, svo að kolaveiðar verði leyfðar meira en verið hefir.