11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

1. mál, fjárlög 1932

Halldór Steinsson:

Það var aðallega síðasti ræðumaður, sem gaf mér tilefni til að standa upp, því að hv. 1. landsk. er dauður og getur ekki svarað fyrir sig. Deilt var hér um 2 atriði í „Verkin tala“, vegina og berklavarnakostnaðinn. Hefir verið sýnt fram á það, að stj. hefir farið rangt með frásagnir um bæði þessi atriði. Ennfremur hefir verið sýnt fram á það, að áætlanir, sem gerðar hafa verið um vegalagningar af hv. 1. landsk. o. fl., hafa ekki verið framkvæmdar. Er ekki rétt hjá hv. 2. þm. Eyf. að segja, að áætlanir þessar séu rangar, þó að stj. hafi ekki getað framkvæmt þær. Ef hún hefði ekki varið fénu til annars, hefði vel mátt framkvæma það, sem áætlað var.

Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að hér hefði verið háður skrípaleikur í gær og í dag. Get ég ekki fallizt á, að það beri að kalla skrípaleik, þótt fundið sé að afglöpum stj., en annað hefir ekki verið gert. Stj. gaf út í heimildarleysi hlutdrægt flokksrit, eins og sýnt hefir verið fram á með rökum, þó að stj. kalli það óhlutdrægar skýrslur.

Þó að berklavarnakostnaður væri hærri árið 1927 en fyrr og síðar, þá hefir glögglega verið sýnt fram á það, að það stafar eingöngu af breyttri lagasetningu. Það munar e. t. v. örfáum þús., sem sparazt hefir við það, að stj. beitti gerræði við lækna og sjúkrahús, t. d. með því að taka af sjúkrahúsum styrk til ljóslækninga. Er sízt ástæða til að hrósa sér af þessu, því að þetta kemur auðvitað fyrst og fremst niður á fátækum sjúklingum, og er því kostnaður fyrir þjóðina í heild sá sami.

Hv. 2. þm. Eyf. hafði það eftir hv. 1. landsk., að hér væri engin þingræðisstjórn. Ég stóð upp af því, að hv. l. landsk. getur ekki svarað fyrir sig, þar sem hann er dauður. Hann sagði ekki, að hér væri ekki þingræðisstjórn, heldur hitt, að hér væri engin lýðræðisstjórn, og er ekki hægt að hrekja það, þar sem stj. er mynduð af fulltrúum 32% af landsmönnum.