11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

1. mál, fjárlög 1932

Jónas Jónsson:

Ég vil minnast lítilsháttar á ræðu hv. 1. þm. Reykv. í gær. Tal hans barst að breyt. þeirri, sem varð eftir stjórnarskiptin 1927 á innheimtu opinberra gjalda í Rvík. Hann hældi mjög ástandinu meðan Einar Arnórsson var skattstj. Ég hefi áður minnzt á, hvernig þessum manni hefir yfirsézt þrátt fyrir hæfileika sína. Hafði hann þá aðferð, í samráði við niðurjöfnunarnefnd, að draga margfalt meira frá fyrir börnum stórríkra manna en fátæklinga. Hv. 1. þm. Reykv. reyndi að mótmæla þessu, en hann getur það ekki. Hann getur ekki heldur mótmælt því, að í tíð vinar hans og flokksbróður tókst aldrei að fá sundurliðaðar eignir og tekjur í framlagðri skýrslu niðurjöfnunarnefndar. Einn lögfróður maður sneri sér til mín um að reyna að koma fram þál. þessu til leiðréttingar. Ég reyndi það, og var þál. samþ., en kom aldrei til framkvæmda, af því Íhaldið vildi með hjálp Einars skattstjóra halda leyndum sönnum rökum um það, hver væru efni og tekjur eignamanna.

Eftir að Íhaldið veltist úr völdum, varð gagnger bylting í þessum efnum, þannig að réttlæti var sett í stað ranglætis. Breyttist þá svo, að landið fékk miklu meiri tekjur en áður af eignum og tekjum hér í bænum. En það verð ég að segja hinum fyrrv. skattstj. til hróss, að hann sagði af sér undireins eftir stjórnarskiptin 1927. af því að hann fann, að hann átti að fara. Nú geta menn séð á skýrslunni í hinu ágæta riti, sem atvmrh. hefir gefið út, ef þeir bera saman niðurstöðurnar, að þessi vanræksla Einars Arnórssonar þýddi miklu meira en þær fáu þús., sem kostað hefir að gefa út þessa bók. Breytingin þýddi hundruð þúsunda í auknum tekjum fyrir landið. Þegar farið var að nota annað fyrirkomulag, komu fram stórkostlegar eignir, sem aldrei höfðu verið taldar fram áður. Og það er vonzka í blóði þeirra, sem að ranglætinu stóðu, út af því að þetta skuli vera skjalfest, að það skuli vera komið á fínan pappír í bók, sem verður til í mörg ár á hverju heimili á landinu. Þeir eru fullir gremju út af því, að þjóðinni skuli vera sýnt fram á, hvað það þýddi fyrir réttlætið í landinu, að Íhaldið tapaði 1927. Það er því alveg tilgangslaust fyrir hv. 1. þm. Reykv. að koma hér fram með langar ræður; verkin tala mjög greinilega í þessu efni, þótt bókin heiti það ekki. Það er orðið brennt inn í menn, hvílíkt ranglæti gagnsýrði Íhaldsstj. og hennar fylgismenn, og kom gleggst fram í mismuninum, sem gerður var á hinum svonefndu „heldri manna“ börnum og börnum fátæklinganna, þegar Einar dró frá fyrir ómögum. Það er prófsteinninn á þetta kerfi og lýsir því e. t. v. betur en nokkuð annað. En það, að Helgi Briem hafi einhverntíma farið lofsamlegum orðum um fyrrv. skattstj., má vel vera. Það er hægt að hæla honum fyrir gáfur og vissa tegund af þekkingu, og jafnvel eitthvað fleira, en gaman hefði ég af að sjá Helga Briem þakka honum fyrir ágæta frammistöðu sem skattstj. og að hann hafi þar notað sína hæfileika vel.

Það er ekki ósennilegt, þótt hv. þm. Hafnf., sem er nú læknir sjálfur, sé ákaflega óánægður með, að það skuli vera skjalfest, hvað þýtt hefir að hafa gott eftirlit með læknum þeim, sem frekast höfðu stungið fingrunum í ríkissjóðinn. Hann vill halda því fram, að þetta sé engin skýring á sparnaði þeim, sem orðið hefir. Hann vill e. t. v. einnig halda því fram, að læknarnir fái eins mikið og áður. Það er auðvitað gott og blessað fyrir þá, en úr ríkissjóði hafa þeir ekki fengið það, og á því hefir sparazt um 300 þús. hr. síðan í tíð íhaldsstj. Við skulum athuga það, að hér er verið að rífast um það bæði í gær og í dag, hvort stj. sem var hafi haft rétt til þess að láta prenta skýrslu um framkvæmdir ríkisins, en vitanlega hefði engum þeirra, sem nú deila harðast á fyrir þessa eyðslu, dottið í hug að finna að því, þótt haldið hefði verið áfram að láta það vera 1 millj. í stað 700 þús., sem fóru í þetta meira og minna misheppnaða starf við berklavarnirnar; þrátt fyrir ljósin, sjúkrahúsin og alla þessa góðu menn, sem að því störfuðu, hélt sjúkdómurinn áfram að breiðast út. Þessir góðu menn hefðu ekki áfellzt stj. fyrir það, þótt þessum pening- um hefði verið kastað úr ríkissjóði, en þegar örlitlu broti af því, sem sparað hefir verið, er varið til þess að gera almenningi kunnugt, hvaða breyt. er á orðin, þá risa þeir upp á afturfæturna. Hvers vegna má ekki segja þetta? Það er af því, að sú hlið lífsbókarinnar, sem að Íhaldinu snýr, er svo ljót. Þeir skammast sín fyrir það og eru gramir yfir því, að aðrir skyldu gera þetta betur en þeir, og sérstaklega eru þeir sárir yfir því að hafa tapað svo áþreifanlega. Þessi fariseatár eru í rauninni af því, að það, sent hv. þm. Hafnf. sagði, er ekki satt. Þessir peningar eru beinlínis sparaðir, vegna þess að fólkið gerir alls ekki fyrir sína eigin peninga það, sem hægt er að gera fyrir peninga ríkissjóðs. Margir þeirra dánumanna, sem leita til hv. þm. Hafnf. og annara, mundu ekki gera það, ef þeir þyrftu sjálfir að greiða fyrir sig.

Ofstækið, sem gagnsýrði ræðu hv. þm. Hafnf., kom bezt í ljós, þegar hann leyfði sér að fara niðrandi orðum um hæfileika Guðmundar Björnsonar landlæknis. Ég býst varla við, að hann hafi haldið því fram í alvöru, að sá landlæknir, sem nú er farinn að heilsu eftir langt starf, hafi, meðan hann var í fullu fjöri, eins og hann var fram að nýári í vetur, gefið vísvitandi falskar skýrslur fyrir stj., fyrir mig. Ég ætla nú að þakka fyrir heiðurinn mér til handa, þegar ég á að hafa óskað eftir fölskum skýrslum, en ég vil sérstaklega vita ósæmilegan óhróður, sem með þessu er borinn á G. Björnson, og mótmæli því harðlega, að hann hafi gefið nokkra falska skýrslu. Skýrsla hans var byggð á hans eigin athugunum á ljóslækningum í Englandi, og ég vil sérstaklega taka það fram um þennan mann, sem um eitt skeið var þm. og átti sæti í þessari hv. d. og var meira að segja forseti hennar, að hann var þá viðurkenndur að vera einhver gáfaðasti og tilþrifamesti maðurinn í þinginu, og það mun síðar þykja undarlegt, að hv. þm. Hafnf., sem sannarlega er ekki álitinn neinn vitsmunamaður, skuli leyfa sér að fara svívirðilegum orðum um G. Björnson landlækni. Hv. þm. Hafnf., þessi litli lærdóms- og hæfileikamaður, þetta afstyrmi, gat vart hegnt sér betur en með því að fara að bera sig saman við einn af gáfuðustu og merkilegustu mönnum læknastéttarinnar á þessum mannsaldri. Annars þarf ekki að svara á sama hátt fyrir G. Björnson og þessi vesæli hv. þm. Hafnf. talaði til hans. Ég býst ekki við, að þegar G. Björnson varð þm., hafi hann sett sínum keppinaut sama skilyrði og hv. þm. Hafnf. gerði, af því að hann treysti sér ekki að koma nema á einn fund. Og það var auðvitað alveg rétt af hv. þm. að setja þetta skilyrði, því að hann hafði ekki efni í meira og varla í þá einu ræðu, sem hann bauðst til að halda. Í þessu lýsti sér sjálfsþekking hjá hv. þm. sem er gagnstæð þekkingu hans á hæfileikum G. Björnsonar landlæknis.

Þá minntist hv. þm. á það, að hann og einhver annar læknir hefðu unnið stórsigur á mér með meiðyrðamáli. Mér þykir vænt um að fá tækifæri til þess að tala um meiðyrðamál, því að það er eins og Íhaldið átti sig ekki á því, að þá sókn, sem hv. þm. og aðrir viðvaningar hafa í þessum efnum, nota menn, sem eru að læra byrjunaratriði pólitískrar framkomu. Hv. þm. getur leitað að því út um lönd, hvort stjórnmálamenn þar eru að liggja í meiðyrðamálum við andstæðinga sína, og hann mun fljótlega sjá, að slíkt þekkist ekki. Viðvaningarnir vinna sína sigra þannig, en æfðir stjórnmálamenn vinna þá á annan hátt. Það verður aldrei of oft minnt á það dæmi, þegar hæstv. forsrh., sem þá var ritstj. Tímans, gagnrýndi tvo þm. Íhaldsflokksins, sem gerzt höfðu einskonar spákaupmenn í síld fyrir kjósendur sína. Ritstj. Tímans, sem þá var, fordæmdi þá, og allur almenningur í landinu fordæmdi þá. Þessir menn, Magnús Pétursson og Þórarinn á Hjaltabakka, fóru svo í meiðyrðamál við ritstj. Tímans og fengu ummæli hans dæmd dauð og ómerk. Magnús Pétursson er mjög vel gáfaður maður, og að því leyti afarólíkur hv. þm. Hafnf., þótt hann sé í sömu stétt og hann, og hann var búinn að vera lengi héraðslæknir í Strandasýslu. Hann hafði margt, sem þurfti til þess að halda almenningsálitinu sér í vil, en hvernig fer svo? Maðurinn, sem hafði tapað meiðyrðamálinu út af síldarbraski Magnúsar, býður sig fram í þessari sýslu, þar sem hann hafði aldrei komið áður og engin bein viðskipti haft við þm. kjördæmisins nema það að fordæma þetta athæfi hans. og ritstj. sigraði, af því að almannadómurinn vissi, að hann hafði sagt satt, almenningur vissi, að dómurinn var einskis virði. Það er á þennan hátt, sem við framsóknarmenn vinnum okkar sigra. Það, að treysta á úrelta meiðyrðalöggjöf, er að grafa sína eigin gröf.

Ég get sagt hv. þm. annað dæmi út af deilunum við hans eigin stétt, læknana. Stéttarbræður hans og hann sjálfur lögðu mikla áherzlu á það að eyðileggja einn af beztu mönnum stéttarinnar, Sigvalda Kaldalóns, fyrir það, að hann gerðist læknir í Grindavík. Þeir beittu öllum þeim ódrengskaparbrögðum, sem þeir kunnu og hægt var að nota í þessum efnum. Þeir ráku hann úr Læknafélaginu. þeir ofsóttu hann, þeir reyndu að egna fólkið upp á móti honum, svo að hann héldist ekki við í þorpinu, sem hann hafði ekki komið í áður. En þegar Sigvaldi Kaldalóns hafði verið einn vetur í Grindavík, þá lögðu þorpsbúar fram 15 þús. kr. til þess að byggja honum hús; og það má með sanni segja, að hvert mannsbarn elski hann og virði, og þrátt fyrir það koma stéttarbræður hans þannig fram við hann. Hvort var nú meiri sigur, þeirrar stj., sem valdi þennan ágæta mann, sem viðurkenndi, að hann var þjakaður og þjáður í vondu læknishéraði og með öllu ófært að láta hann ferðast brjóstveikan í mótorbátum, eða þeirra manna, sem ætluðu að veita héraðið manni, sem kallaði sjálfan sig pólitískan dverg? Ég á hér við héraðslækninn á Sauðárkróki. Ég er ánægður með mína aðstöðu. Ég ætlaði mér aldrei annað en að vinna fyrir fólkið, og í þessum efnum eins og mörgum öðrum hefir mér tekizt það. Ég veit ekki, hvort þeir 6 læknar, sem ég hefi ráðið að landsspítalanum, eða hinir 7–8, sem ég hefi ráðið út um land, eru læknafélaginu til mikillar ánægju, en fólkið er ánægt með þá, og það er meira heldur en hægt er að segja um suma þá lækna, sem Læknafél. hefir sérstaklega otað fram, og vil ég þó einkum nefna lækninn, sem átti að fá Keflavík. Ef athuguð er aðstaða Jónasar Kristjánssonar í Skagafirði og mannanna, sem fengu Seyðisfjörð. Borgarfjörð, Dali, Snæfellsnes, Eskifjörð og Hornafjörð, þá er hún alveg ólík.

Ég kem þá aftur að meiðyrðamálunum, af því að maður eins og hv. þm. Hafnf., sem er viðvaningur í þessum sökum, hefir gott af að finna, hvar hann stendur, úr því að hann fór að grobba af síðasta „sigri“ sínum í þessu efni. Um eitt skeið unnu tveir af ritfærustu mönnum landsins, þeir Björn Jónsson og Einar Kvaran, við blaðið Ísafold. Á þessum tíma fékk blaðið eitt frægt meiðyrðamál. Einn af helztu lagamönnum landsins höfðaði mál gegn blaðinu, af því að hann hafði í því verið kallaður dánumaður. Ritstj. voru dæmdir í sekt fyrir þessi ummæli sín. Nú var tilfellið, að þessi maður var í raun veru dánumaður, og þetta, sem um hann hafði verið sagt, var sannleikur; og þó voru ritstj. dæmdir fyrir ummælin. En Björn Jónsson og Einar Kvaran skoðuðu þetta alls ekki sem neinn ósigur. Dómurinn var vitleysa, byggður á úreltri löggjöf. Yfirleitt má segja um þá menn, sem nota meiðyrðamálin, eins og Íhaldsflokkurinn hefir gert, að það ber vott um andlega fátækt. og að því meiri, því fleiri meiðyrðamál, sem þeir fara í. Því oftar sem fjólupabbar og moðhöfuð Íhaldsins hafa farið í slík mál við framsóknarmenn, því meiri hafa okkar sigrar orðið, eins og síðustu kosningar bera vott um. Ég býst við, að ég geti fengið tækiæri til þess seinna að lesa yfir hv. þm. Hafnf. einstaka reikning, sem hann hefir sent landinu og sem meiðyrðamál hafa orðið um. Skeð getur, að þm. sjái þá, hve gagnleg eða hitt þó heldur honum og stéttarbræðrum hans hafa orðið meiðyrðamálin.

Ég hefi þá gert skil þeim kaflanum úr heimspeki hv. þm. Hafnf., sem laut að málaferlum. Ég hefi líka bent á það, hver aðalniðurstaðan hefir orðið á læknamálinu, nefnil., að þessi dæmalausa frekja og það offors, sem fél., sem hv. þm. Hafnf. er í, sýndi, þegar því datt í hug að taka veitingarvaldið af ríkisstj., hafði þá einu afleiðingu að sýna læknunum, hve mjög þeir hefðu hlaupið á sig, eins og kom fram á læknaþinginu í vor. Þeir geta skipt um menn í stj. fél., þeir geta skipt um aðferð, en það rennur aldrei upp sá dagur, að þetta fél. hafi ráð á því að veita læknaembættin, því að í þessu landi ríkja lög og réttur, en þeir héldu, að hvorugt væri til. Og nú vil ég segja þessum hv. þm. það, og því meiri ástæða er til þess að fræða hann um pólitíska hluti, sem lítil líkindi eru til þess, að hann verði langær hér í þinginu fremur en sá læknirinn, sem hér var frá Sauðárkróki, — ég ætla að útskýra fyrir hv. þm., hvernig þessi dæmalausa fásinna gat komið yfir jafnvel gáfaða menn í læknastéttinni, að þeir skyldu hugsa sér, að þeir gætu brotið niður lög og rétt í landinu, að þeir skyldu hugsa sér, að þeir gætu óátalið stungið undir stól 10–20 bréfum, sem áttu að fara til ríkisstj., og farið með þau eins og þeim sýndist. Ég var ekki alls fyrir löngu staddur á spítala í Englandi, þar sem voru um 700 sjúklingar. Læknirinn þar er maður, sem er brautryðjandi í brjóstveikislækningum þar landi. Við töluðum eitt kvöld saman um menntun lækna og hinar vaxandi kröfur, sem gerðar væru til sérfræðinnar. Þessi læknir sagði, að þetta væri eitt af því, sem samtíðin heimtaði, en hún hefði þrátt fyrir það afarmikla galla; og það eru gallar, sem við hér, sem þekkjum fulltrúa úr læknastéttinni íslenzku hér í d., þekkjum. Þessir gallar væru þeir, að sérfræðingar hefðu svo afarlítið vit á öllum málum utan síns verkahrings, og því miður stundum í læknisefnum líka. Þetta væri eðlilegt, þegar þess væri gætt, að um leið og þessir menn koma úr skóla um tvítugsaldur, þá færu þeir undir eins að sökkva sér niður í þröngt verkefni, eins og byggingu og líffræði líkamans, og verðu til þess 8–10 árum. Á meðan færi hið raunverulega líf fram hjá þeim, ekki sízt hið félagslega líf. Þess vegna væru þessir læknar oft eins og álfar úr hól, er þeir ættu að taka á verkefnum hins daglega lífs. Þetta er eina vingjarnlega og eina rétta skýringin á frumhlaupi læknastéttarinnar íslenzku. Þó e. t. v. megi margt gott um suma menn Læknafélagsins segja, þá hafa þeir þó ekki komizt fram hjá þessu skeri, sem hefir gert þá að undri og athlægi utan lands og innan. Þeir þekktu ekki mannlífið. Þeir vissu mikið í læknisfræði, sumir þeirra a. m. k., en þeir vissu allt of lítið um það, sem borgararnir þurfa að vita. Þeir menn í læknastétt, sem gerðu einskonar upphlaup út af sparnaði við berklavarnakostnaðinn, og stóðu að útgáfu falskra sögusagna um heilsufar pólitískra andstæðinga til þess að reyna að skaða þá, hafa dregið stétt sína meira niður í áliti almennings heldur en nokkurn af þeim vesalingum, sem þar voru að verki, mun hafa grunað.

Árangurinn af þessum félagsskap, sem hv. þm. Hafnf. mun vera einskonar liðþjálfi í, er sá, að læknarnir hafa tapað berklavarnamálinu, en ríkið sparað 300 þús. kr. á ári, og ennfremur hafa þeir orðið að athlægi fyrir það að reyna að taka veitingarvaldið af stj., og ekki hætti það aðstöðu þeirra, að vel skyldi ganga með ráðstafanir þær, sem heilbrigðisstj. hefir gert um læknaembættaveitingar, eins og t. d. Sigv. Kaldalóns. Ég býst við, að það séu um 20 embætti, sem stj. hefir ráðstafað í trássi við fél. og læknana. Að lokum er svo komið, að læknaklíkan veit, að hún hefir beðið fullkominn ósigur og haft bæði skömm og skaða af frumhlaupinu gegn stjórninni.