11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

1. mál, fjárlög 1932

Jakob Möller:

Ég þarf ekki að víkja nema stuttri aths. til hv. 2. þm. Eyf., því hv. þm. Snæf. er búinn að svara honum.

Hv. þm. ræddi hér um skýrslur stj., hvort þær væru hlutlaus frásögn um störf stj., eins og þær eiga að vera og þurfa að vera til þess að heimilt sé að gefa þær út á ríkiskostnað. Hv. þm. ræddi um þetta á við og dreif, en mér fannst honum ekki vera vel ljóst, hvað hann var að fara.

Hv. þm. sagði, að þegar borið væri saman, hvað unnið hefði verið að vegagerð síðustu árin og áætlun hv. 1. landsk. 1926, gætu allir séð, hve áætlun hans hefði verið vitlaus. En hvort sem áætlun hv. 1. landsk. reyndist röng eða rétt, er það hlutdrægni, þegar sagt er í skýrslu hæstv. ríkisstj., að nú þegar sé búið að gera meiri vegi en hv. 1. landsk. áætlaði, að búið yrði að gera árið 1940. Hér er bæði hlutdræg skýring á skýrslu hv. 1. landsk. og fals, þegar skýrt er frá framkvæmdum núv. hæstv. stj. Því hvað er það annað en fals og ósannindi, þegar það stendur í skýrslu hæstv. stj., að nú sé kominn akfær vegur norður til Húsavíkur'? (EÁrna: Það stendur ekki í skýrslunni). Jú. (EÁrna: Nei).

Þá sagði hv. þm., að það væri ekki rétt hjá hv. 1. landsk., að Framsóknarflokkurinn gæti nú ekki myndað aðra stj. en bráðabirgðastj. Hv. þm. sagði, að stj. væri fyllilega lögleg, eftir því sem þingflokkarnir hefðu orðið til. En hv. 5. landsk. undirstrikaði skilning okkar hv. l. landsk., er hann sagði, að hv. 1. landsk. væri ekki þm. þjóðarinnar, vegna þess að hann hefði ekki meiri hl. kjósenda í landinu að baki sér. Og stj., sem Framsóknarfl. myndar, verður aldrei stj. þjóðarinnar, því hún er ekki kosin af fulltrúum meiri hl. hennar.

Hv. 2. þm. Eyf. ruglaði því saman, að stj. gæti verið lögleg, þótt hún sé ekki kosin af meiri hl. þjóðarinnar. En það er vegna úreltrar og ranglátrar löggjafar, að slík stj. er lögleg. Því er hér nú borin fram till. um það, að þessari löggjöf verði breytt í samræmi við þá grundvallarhugsun, sem stjórnarskráin byggist á, að minni hl. stj. fari aldrei með völdin í landinu. Andi stjskr. er lýðræði, en bókstafur hennar heimilar það stjórnarfyrirkomulag, sem nú er. En þetta verður að lagfæra. Enginn flokkur má vera bær til þess að mynda stj., nema hann sé fulltrúi meiri hl. þjóðarinnar.

Það var eiginlega hv. 5. landsk., sem olli því, að ég stóð hér upp. Hv. þm. fór hér víða um, og ætla ég mér ekki að elta hann út í alla króka og kima.

Ég skal ekki gera það að deilumáli við hv. þm., hvort það sé beizkur sannleikur um mann, að hann sé dánumaður. Ég verð að trúa þessu, fyrst hv. þm. segir það. (JónasJ: Dómstólunum fannst það). En þótt margt megi segja og hafi verið sagt um hv. 5. landsk., þá rekur mig ekki minni til þess, að hann hafi nokkru sinni verið kallaður dánumaður.

Ég skal heldur ekki rökræða við hv. 5. landsk. um brjóstveiki í mótorbátum. Sá sjúkdómur er mér alveg ókunnur.

Þá vék hv. þm. nokkrum orðum að því, sem ég sagði við fyrri hl. þessarar umr. um niðurjöfnunarnefndina hér í Rvík. Ég hefi síðan aflað mér upplýsinga um þetta mál og veit nú, að það er rangt, sem hv. þm. sagði. Sérstaklega voru þær aðfinnslur rangar, sem hann beindi til fyrrv. skattstjóra, núv. hv. 2. þm. Reykv., Einars Arnórssonar. Ég sagði, að það væri skjalfest, að Helgi Briem hefði farið þeim orðum um Einar Arnórsson, að starfsemi hans hefði verið prýðilega af hendi leyst. Þetta er rétt. Helgi Briem hefir gefið skriflega yfirlýsingu um þetta. (JónasJ: Það er bezt að lesa hana upp). Ég hefi hana ekki við hendina, en þessi yfirlýsing birtist í Vísi í deilum milli Helga Briems og hv. 3. þm. Reykv., Héðins Valdimarssonar. Helgi Briem tekur þar svari Einars Arnórssonar og segir, að hann hafi leyst starf sitt vel af hendi, og þó að skammt hafi verið komið í því að framkvæma skattalögin, þá hafi það verið á góðum vegi og samvizkusamlega að því unnið.

Hv. þm. fann mikið að því, að fyrrv. skattstjóri, Einar Arnórsson, hefði ekki sundurgreint tekju- og eignarskatt í skattskýrslunum. Einar Arnórsson áleit, að þessa skatta mætti ekki sundurgreina og studdist þar við úrskurð eins framsóknarráðherra.

Hv. þm. sagði, að við „system“skipti þau, sem orðið hefðu, hefði orðið sú breyt., að ríkissj. fengi nú meiri tekjur en áður. Það er ómögulegt um það að segja, hvort þetta er rétt ályktun hjá hv. þm., því jafnhliða þessum „system“skiptum varð breyt. á tekjuöflun skattborgaranna, því eins og menn vita, hafa þau ár, sem framsóknarstj. hefir farið með völdin, verið hin mestu uppgripaár, og þá hafa tekjurnar orðið meiri en áður.

Þá sagði hv. þm., að það hefðu komið fram eignir, sem ekki hefðu fundizt áður, en lét þess ógetið, að það var að mestu leyti vegna breyttrar löggjafar. Áður var ekki hægt að fá upplýsingar frá bönkum um inneignir manna, en svo var sett reglugerð, sem skyldaði þá til þess að gefa það upp. Það var því eðlilegt, að meiri eignir kæmu þá fram en áður. En hv. þm. sleppti því að geta þess, að kostnaðurinn við skattheimtuna hefir aukizt að mun. Held ég, að hann hafi þrefaldazt frá því í tíð fyrrv. skattstjóra.

Það er kunnugt, að starf skattstofunnar byrjaði í tíð Einars Arnórssonar að beinast í þá átt að gera meiri gangskör að því að hafa eftirlit með því, að framtöl manna væru rétt. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að framsóknarstj. lét þá niður falla kæru frá skattanefndinni út af röngu framtali Hv. 5. landsk. sagði, þegar ég hélt fyrri ræðu mína, að þetta væri ósatt, en nú held ég, að hann verði að viðurkenna það, að hún hafi komið fram. (JónasJ: Ekki við mig). Jú, og hv. 5. landsk., þáv. hæstv. dómsmrh., rak manninn út, þegar hann kom með kæruna. (JónasJ: Hver var það?). Maðurinn var Magnús V. Jóhannesson. (JónasJ: Þetta er ósatt). Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að bera á móti þessu. Hann rak manninn út og lét kæruna niður falla. Og þótt aldrei hefði verið talað við hv. landsk., þáv. hæstv. dómsmrh., hefði honum verið skylt að láta sig skipta þetta mál. Þess eru líka dæmi, að hv. 5. landsk. hefir tekið upp mál, sem annar ráðh. hefir látið niður falla. Má þar nefna það, þá er hæstv. forsrh. var búinn að semja um bætur vegna sjóðþurrðarinnar í Brunabótafélagi Íslands og þar með láta málið niður falla, en þáv. hæstv. dómsmrh., núv. hv. 5. landsk., tók málið upp aftur. En þetta er ekki eina skiptið, sem hv. þm. hefir hylmað yfir afbrot. Þegar hv. þm., þáv. hæstv. dómsmrh., var að rekast í siðferðismáli hér í bænum í fyrra, lét hann svæfa miklu verra mál, sem lögreglustj. vildi taka upp, en fékk það ekki fyrir hæstv. dómsmrh. (JónasJ: Hvaða mál var það?). Ég vil ekki upplýsa það hér, en hv. þm. veit, að ég fer með satt mál. (JónasJ: Ég skal sanna það síðar, að þetta er ósatt hjá hv. þm.). Það er nú einu sinni svo um þennan hv. þm., að þótt hann þykist vera öllum mönnum vandlætingasamari, gengur það fyrst og fremst út yfir andstæðinga hans, er þegar vildarmenn hans eiga í hlut, blasir önnur hlið við á honum.

Þá talaði hv. þm. um þann mikla sigur, sem Framsóknarflokkurinn hefði unnið, ekki með meiðyrðamáli, heldur með dómi þjóðarinnar. Það er því rétt að skýra frá því, hvernig Framsóknarflokkurinn vinnur sína sigra. Framsóknarflokkurinn vinnur sína sigra með verzlunarkúgun. Hann hefir tekið upp sið gömlu selstöðukaupmannanna og kúgar menn með verzlunaránauð. Þetta er rétt, hvort sem hv. þm. kannast við það eða ekki.