23.07.1931
Neðri deild: 10. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (2220)

69. mál, útvarp

Flm. (Magnús Jónsson):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, var þetta frv. fyrir þinginu í vetur. Auk þessa frv. hafa nú komið fram á þessu þingi tvær þáltill. um einkasölu á útvarpstækjum. Þessar þáltill. bera vott um, að menn eru ekki vel ánægðir með þá einkasölu, sem hefir starfað hingað til. Þykir sérstök nauðsyn á, að verzlunin geti selt tækin með afborgunum, svo að auðvelt sé að eignast þau. Býst ég varla við, að þessu linni fyrr en þetta lagast og menn geta fengið útvarpstæki með afborgunum, svo sem aðra muni, því það er algengt, að menn verða að líða kaupendur nokkuð um endurgjald. Hljóðfæri eru t. d. oft seld með afborgunum svo árum skiptir. En ef farið er inn á þá braut, verður að festa mikið fé í verzluninni, en þá verður, eins og sakir standa nú, betra að gera annað með peninga ríkissjóðs en að festa þá í þessum rekstri.

Það er engin hætta á því, að okur eigi sér stað, þótt ríkisrekstur á sölu útvarpstækja hverfi. Veldur því hin mikla samkeppni á þessu sviði. Þær tekjur, sem útvarpið hefir af þessari sölu, getur það fengið öðruvísi. Útvarpsnotendum myndi þá fjölga, og yrði það útvarpinu til tekna. Ég legg því til, að verzlunin verði gefin frjáls.

Í sambandi við þetta frv. getur naumast orðið ágreiningur um annað en þetta tvennt: eigum við að hafa ríkisverzlun á útvarpstækjum eða á sú verzlun að vera frjáls?

Ég ætla að nefna hér eitt atriði, sem kemur þessu máli við. Þessi tæki eru tiltölulega ný í viðskiptum og getur því verið, að menn skorti dómgreind á, hver tæki séu góð og hver ekki góð. Einkasalan ætti þá að vera vel til þess fallin að hafa vit fyrir mönnum í að velja góð tæki, en ekki vond. Mun einkasalan hafa bundið sig við ákveðin verzlunarhús, er einkasalan áleit, að hefðu fullkomnastar vörur. En nú hefir mér verið sagt, að einkasalan panti fyrir menn þau tæki, sem þeir helzt óska að fá hingað. En ef menn kaupa þannig tæki, sem lítið eru notuð, geta þeir átt það á hættu, að varahlutir til þeirra séu ekki til á staðnum, og kostar þá oft mikla fyrirhöfn og tíma að ná í þá.

Þessar tvær ástæður hefi ég viljað taka til greina í frv., þannig að um leið og einkasalan verði lögð niður megi aðeins selja þan tæki, sem löggilt hafa verið, og þau firmu ein selja þau, er hafa sæmilegar birgðir af varahlutum tiltækar. Það ætti því að vera girt fyrir það, að skaði geti orðið af frjálsri verzlun í þessu efni.

Ég vænti þess, að þetta frv. mæti svipuðum móttökum sem önnur frv., og fari til 2. umr. og nefndar og hún athugi, hvort rétt sé, að ríkissjóður festi peninga í slíkri verzlun sem þessari.