08.08.1931
Neðri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2234)

70. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það umr send áskorun snemma á þessu þingi frá mínu kjördæmi, þar sem fiskimenn skora á Alþingi að veita tilslökun á lögunum frá 1928 um bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi.

Það er vitanlegt, að skiptar skoðanir voru um það, þegar þessi lög voru sett, hvort rétt væri að banna veiðarnar eins og gert var. Þeir innlendu vísindamenn, sem við höfum á að skipa, hallast að því, að bannið sé ekki eins nauðsynlegt og margir ætla. En hvort sem mikill eða lítill fótur er fyrir því, að dragnótin, eins og sumir halda fram, eyðileggi fiskveiðarnar, þá er svo sérstaklega ástatt nú fyrir fiskimönnum víða um land, að það virðist sjálfsagt að gera þeim mögulegri lífsframdráttinn með því að slaka eitthvað á þessum ákvæðum.

Útflutningur á nýjum fiski er að hefjast og er þegar byrjaður að nokkru. En til þess að varan geti orðið útgengileg á hinum útlenda markaði, er nauðsynlegt, að fiskurinn sé ekki mjög einhæfur. Með þeim ráðstöfunum, sem þingið er í þann veginn að gera með frv. um stuðning við útflutning á nýjum fiski, er að því stefnt að styrkja bátaútvegsmenn til þess að koma veiði sinni á markað. Og í sjálfu sér eru í samræmi við þessa starfsemi þau tvö frv., sem á þessu þingi hafa komið fram um rýmkun á heimildinni til dragnótaveiða. Annað er á þskj. 52, frá hv. þm. Seyðf. og Ísaf. Því fylgdi ýtarlegt álit Árna Friðrikssonar, sem er nýtur vísindamaður á þessu sviði. Hitt frv. er á þskj. 70, og flutti ég það.

Álit og till. sjútvn. snerta bæði þessi frv. N. hefir ekki fallizt á að slaka svo til á lögunum sem farið er fram á, en telur hinsvegar, að rétt sé að láta hvert byggðarlag hafa nokkurskonar sjálfsákvörðunarrétt í samráði við ríkisstj. um, hvenær veiði skuli leyfð á þeim tíma, sem hún annars er bönnuð. Þetta er í samræmi við 8. gr. laganna um að halda algerðu banni, þar sem þess er óskað. Slík ákvæði mundu geta gert ríkisstj. mögulegt að aðstoða útveginn með dálítið rýmkuðu leyfi. Það hefir verið gert mikið úr útlendri hættu í þessu sambandi, en þar sem aðeins er gert ráð fyrir, að leyfa megi veiðina allt að tveim mánuðum og leyfið gildir aðeins fyrir eitt ár í senn, þá held ég, að ekki sé svo mjög hættulegt, að útlendingar geti notfæri sér þetta.

En það, sem að mestu ræður um afstöðu okkar nm., er það — og hygg ég, að mér sé óhætt að staðhæfa það fyrir n. hönd —, að þrátt fyrir bannið er kolinn veiddur árið um kring, mestmegnis af útlendingum. N. vildi með þessu móti gera nokkra bráðabirgðaráðstöfun til þess að létta undir með afkomu fiskimanna, sem er mjög erfið nú, þar sem fiskverðið er óvenjulágt. Það ber því að líta á till. sem ráðstafanir vegna neyðarástands fiskveiðanna og yfirvofandi enn meira neyðarástands hjá sjómönnum.

Ég skal, til þess að stofna ekki til langra umr., ekki fjölyrða meira um málið. Ég vona, að hv. d. samþ. till. n., sem fara aðeins fram á að heimila stj. að leyfa þessar veiðar, alveg eins og henni er heimilt að gera frekari takmarkanir með núgildandi lögum. Með þessu gæti hún, án þess að mikið bæri á út á við, gert fiskimönnum víðsvegar um land, þar sem þess er óskað, mögulegt að afla sér nokkurra tekna af þessum arðsömu veiðum. En þau héruð, sem ekki vilja rýmkun, geta verið alveg laus við hana, þótt þessi breyt. sé gerð á lögunum.