13.08.1931
Neðri deild: 28. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (2247)

70. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Sveinn Ólafsson [óyfirl.]:

Hv. frsm. hefir vel og rösklega svarað aðfinnslum, sem fram hafa komið, svo að ég gæti þess vegna fallið frá orðinu. En hv. 2. þm. Reykv. skemmti fyrir skemmstu, en mér finnst honum oft hafa tekizt betur. Ég held, að hann hafi ekki um leið og hann hóf að skemmta, veitt því nægilega eftirtekt, að hér er um ráðstafanir að ræða, sem gerðar eru í mikilli nauðsyn allra, sem við sjó búa. Þetta eru ráðstafanir, sem ekki þurfa að verða langvarandi, og sem hægt er að falla frá og breyta, ef reynslan sýnir, að við mikinn ágang verður að etja af færeyskum og dönskum keppinautum. Ég vil því vona, að till. hv. 2. þm. Reykv. verði ekki samþ., og ég vona, að menn hafi áræði til þess að gera þessa tilraun til þess að bjarga við ástæðum ýmissa þeirra, er við sjó búa, og að oss tækist á þann hátt að stýra framhjá þeim vandræðum, sem blasa við, ef þær ástæður haldast um afurðasöluna, sem nú hefir verið um hríð.

Hv. sessunautur minn, 2. þm. Reykv., áleit það andkannalegt, ef leyfður væri eða heimilaður í sömu gr. laga réttur til þess að rýmka eða þrengja þessi ákvæði, eins og n. hafði lagt til að gert yrði við 8. gr. laga frá 1928 um dragnótaveiðar. En ég get ekki séð, að hér sé neitt andkannalegt. Hér er aðeins verið að leggja það á vald héraðsstjórna, hvernig þessu skuli haga á hverjum stað. Það getur á einhverjum stað verið þannig háttað, að nauðsyn sé á takmörkunum, t. d. í Þingeyjarsýslum, en á öðrum stöðum, t. d. í Vestmannaeyjum, staðið svo á, að jafnnauðsynlegt sé að fá þessi ákvæði rýmkuð, ef ástæður eru eins og þær eru nú. Ég sé ekkert andkannalegt í því, að þetta sé gert. Hér hafa verið frá fornu fari mjög breytileg ákvæði um fiskveiðiaðferðir. Þetta er hliðstætt þeim eldri ákvæðum.

Ég finn ekki ástæður til að fara út í almennar umr. um þetta mál. Hér er um velferðarmál að ræða, sem skiptir miklu, að réttum tökum sé tekið. Ef þessu yrði frestað til vetrarþingsins, eins og hv. sessunautur minn vill, þá fengi margur, sem við sjó býr, ekki tækifæri til þess að búa sig undir með dragnótaveiðar og yrði of seinn á næstu sumri, þó að rýmkunin fengist. Það er lokaráð að skjóta þessu ákvæði á frest. En sýni það sig að það leiði til skaða af hálfu útlendinga, þá er hægur nær að breyta til. Það er hygginna manna háttur að láta reynsluna kenna sér nokkuð; án hennar getum vér ekki tryggt neitt í þessu efni. En allt mun þetta sjást betur þegar reynsla er fengin um nokkur ár.