11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Torfason:

Við framsóknarmenn heyrum það oft, að við höfum ekki rétt til að mynda stjórn, sízt þingræðisstjórn. Það hefir alltaf verið á þessu klifað, síðan þing var sett og allt til þessa dags. Þess vegna er rétt að athuga þetta svolítið. Þótt maður vilji leiða þetta hjá sér, þá er svo leiðinlegt að heyra alltaf þetta sama nudd.

Framsóknarflokkurinn hefir rétt til að fara með stjórn samkv. þingkosningunum og samkv. stjskr. Meðan stjskr. er í lögum, er ekki rétt eftir öðru að fara. (JBald: En ekki eftir óskráðum lögum). Nú skulum við athuga hin óskráðu lög. Þeir flokkar, sem hafa meiri hl. kjósenda, ættu að ráða. Við skulum setja svo, að Sjálfstæðisflokknum og Alþýðuflokknum yrði lofað að mynda stj., en þeir gætu engu ráðið. Þeim yrði undir eins velt, svo að ef eftir þessu yrði farið, þá er það ekki árennilegt, og þegar athugaður er samvinnuhugurinn milli þessara flokka, er það sannarlega ekki heldur árennilegt. En setjum nú svo, að þessu slepptu, að stj. hefði verið neitað um verðtollinn og hún ekki getað fengið þá peninga, sem nauðsynlegir eru til að stjórna landinu. Afleiðingin hefði orðið sú, að gengið hefði verið til nýrra kosninga í haust. En ég er sannfærður um, að hvorki sjálfstæðis- né jafnaðarmenn mundu græða á þeim kosningum. Það hafa þeir sjálfir séð, og þess vegna var verðtollurinn samþ. Sama er að segja um það fleipur, sem komið hefir fram í þessum umr. í þessari hv. d., um að fella fjárlögin fyrir hæstv. stj.; þá yrði auðvitað áfrýjað til kjósenda, nýjar kosningar látnar fara fram, en hvorugur andstöðuflokka stj. mundi sjá sér hagnað í því. Bak við stjórnina er reitt sverð kosninganna, og því er hún sterk.

Þá hefir þessari stj. verið líkt við afturhaldsstj. Estrups í Danmörku og keisarastjórnir Þýzkalands. Þetta er ekki rétt. Það má einmitt með fullum rétti líkja framsóknarstj., sem nú situr að völdum, við ensku stj. og aðrar frjálslyndustu stj. álfunnar. Síðan flokkarnir urðu þrír í Englandi, hefir það oft komið fyrir, að flokkur hafi farið með stj. án þess að hafa meiri hl. kjósenda að baki sé Allir vita, að frjálslyndi flokkurinn í Englandi hefir barizt fyrir breytingum á kjördæmaskipuninni, síðan flokkarnir urðu þrír, því að kjósendatala hans nýtur sín illa undir því kosningafyrirkomulagi, sem nú er. Það er því bersýnilegt, að meiri hl. þings þarf ekki að hafa meiri hl. kjósenda að baki sér til þess að geta myndað þingræðisstjórn.

Íslenzk blöð flytja oftlega fregnir frá aukakosningum í Englandi, og eru þar þm. oft kosnir með svo tæpum minni hl., að stundum stappar nærri, að andstöðuflokkarnir hafi til samans helmingi fleiri atkv. en sá flokkur, sem þm. tilheyrir. (JakM: Hvenær hefir það komið fyrir?). Það kemur fyrir dags daglega. Það sjá allir, sem lesa blöð, og vona ég, að við hv. 1. þm. Reykv. fáum tækifæri til að athuga það saman síðar. (JakM: Og hv. þm. getur ekki nefnt neitt dæmi). Hv. þm. hefir nóg tækifæri til þess að reka þetta ofan í mig, ef hann getur, og hann hefir líka blað til að básúna það út, svo að hann ætti ekki að þurfa að taka oftar fram í fyrir mér. — Það þýðir yfirleitt ekki neitt að vera að japla á því lengur, að núv. stj sé ekki þingræðisstj. Það er stjórnarfarsleg nauðsyn, byggð á stjórnarskránni, að Framsóknarflokkurinn hafi stj. með höndum, eins og nú er ástatt. Og eigi að breyta stjórnarskránni nú, verður það ekki gert, nema með samkomulagi við Framsóknarflokkinn, og því er það eðlilegt, að stór andstöðuflokkur, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, semji við hann um þetta mál eitt, og þarf ekkert launmakk að liggja þar á bak við. Ég segi fyrir mig, að ég veit ekki til þess, að þessir flokkar hafa bundizt samningum um nokkur önnur mál en skipun nefndarinnar í kjördæmaskipunarmálinu og verðtollinn.