18.08.1931
Neðri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (2254)

70. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Pétur Ottesen:

Ég á eina brtt. við þetta frv. eins og það var samþ. við 2. umr. hér í hv. d. Atkvgr. sú, er þá fór fram um málið, benti til þess, að það myndi vera ætlun deildarinnar að afgr. málið til Ed. Það kom fram við afgreiðslu málsins við 2. umr., að allmikil stefnubreyting hefir átt sér stað á máli þessu hér í deildinni frá því, sem var á síðasta þingi. Þrátt fyrir það, þó nokkur breyt. hafi orðið á skipun hv. d. vegna kosninganna, þá leyndi það sér ekki, að líka hefir orðið breyt. á afstöðu ýmsra þeirra hv. þm. til málsins, sem hér hafa átt sæti áður.

Áður en ég tala um frv. almennt, vil ég minnast á brtt. mínar með nokkrum orðum.

Þessar brtt. við frvgr. eru í tveimur stafl. Fyrri liðurinn fer fram á það, að skotið sé inn í frvgr. því ákvæði, að ekki sé heimilt að stunda dragnótaveiðar á stærri bátum en 35 smálesta. Ástæðan fyrir því, að ég ber þessa brtt. fram, í fyrsta lagi sú, að allmiklar líkur eru til þess, að útgerðarmenn noti yfirleitt stærri skip til fiskiveiða inni á fjörðum og víkum upp við landsteina, og í öðru lagi vakir það fyrir mér, að með því að leyft ekki stærri fiskiskipum að stunda þessar veiðar, þá myndi nokkuð dregið úr þeirri aukningu á notkun dragnótanna, sem frv. gerir ráð fyrir, en ég tel mjög hættulega fyrir fiskiveiðar landsmanna.

Síðari liður brtt. fjallar um það, að í stað þess, að í frv. er gert ráð fyrir, að að því leyti sem vikið sé frá höfuðákvæðum núgildandi laga um dragnótaveiðar, hvort sem það er heldur til að þrengja eða rýmka, þá skuli það í öllum tilfellum gilda fyrir eitt lögsagnarumdæmi í senn. Mér virðist, að ef ákvæði þessa frv. kæmu til framkvæmda, þá væri miklu heppilegra að rígbinda ekki veiðileyfin við lögsagnarumdæmi, heldur að slíkar samþykktir geti tekið til minna svæðis. Ég vil í því sambandi benda á Gullbringusýslu sem dæmi. Ef þeir, sem búa á Garðskaga sunnanverðum, vildu banna dragnótaveiðar hjá sér, eins og þeir hafa gert, en hinir, sem búa á innanverðum skaganum, vildu aftur á móti opna allt upp á gátt, og það yrðu þeir, sem fengju ósk sinni framgengt, þá finnst mér það afarósanngjarnt gagnvart hinum, sem voru á þveröfugu máli og vildu enga rýmkun. Mér virðist því fara bezt á því, að þeir, sem hlut eiga að máli, geti fengið sínum vilja framgengt hver á sínu svæði. Ég vil einnig benda á Suður-Múlasýslu í þessu sambandi. Mér finnst það afaróeðlilegt, að ef óskir koma um rýmkun frá íbúum við einhvern af hinum mörgu fjörðum sýslunnar, þá skuli veiðileyfið gilda fyrir alla firði sýslunnar. Það gæti verið mjög ranglátt, en svo myndi það verðu samkv. ákvæðum frv. eins og þau eru nú. Auk þess vil ég í þriðja lagi benda á, að innan eins lögsagnarumdæmis eru oft tvö sýslufélög. Mér finnst það ekki réttlátt, að ef óskir um rýmkun í þessum efnum koma fram frá öðru sýslufélaginu, en hitt óskar ekki rýmkunar eða er henni mótfallið, þá skuli landhelgin einnig vera opnuð hjá því, þótt íbúar þess séu á móti slíkri breytingu. Mér finnst, að úr því að farið er inn á þá braut að breyta ákvæðum gildandi laga um bann gegn dragnótaveiðum, þá sé ekki heppilegt að miða það við lögsagnarumdæmin eingöngu, heldur megi gera slíkar breyt., þó um minna svæði sé að ræða. Með breyt. þessari er komið í veg fyrir það, að það sé verið að þenja rýmkunina út framar því, sem óskir standa til, og gæti það því máske dregið nokkuð úr þeirri skaðsemi, sem af þessari tilslökun hlýzt, og girða jafnframt fyrir það, að svo miklir árekstrar hljótist af þessu milli manna eins og verða myndi samkv. ákvæðum frv. eins og þau eru nú. Þó er auðvitað ómögulegt að koma í veg fyrir, að einhverjir árekstrar verði, þar sem skoðanir manna eru skiptar á þessum málum, en að því mun ég koma nánar síðar.

Við 2. umr. þessa máls gerði ég töluverða tilraun til þess að benda á þá hættu, sem ég álít, að geti stafað af því, ef lögunum um bann gegn dragnótaveiðum verður breytt frá því, sem þau eru nú, á þann veg, að dregið sé úr þeirri vernd, sem þau veita. Rýmkun á lögum þessum myndi leiða af sér mikla aukningu dragnótaveiða hér við land, ekki eingöngu af hálfu þeirra manna, er þetta land byggja, heldur líka af hálfu þeirrar þjóðar, sem hefir hér jafnrétti til atvinnureksrar á við okkur, nefnil. Dana, og þeirra manna, er hingað sigla í skjóli þeirra réttinda. Færeyinga. Ég benti á, að þessi örtröð á miðum Íslands myndi leiða til þess, að sá fiskistofn, sem mest verður fyrir barðinu á dragnótinni, myndi bráðlega ganga svo mikið til þurrðar, að við yrðum áður en langt um liði að koma á nýjum friðunarlögum og þyrftum jafnvel að ganga enn lengra gera ráðstafanir til þess að koma hér á fót klaki.

Tilgangur sá, sem liggur að baki þessu frv., og þær ástæður, sem færðar eru fram í til. þeim og áskorunum, sem legið hafa fyrr og síðar fyrir þinginu, eru einkum þær að með þessum breyt. yrði útgerðarmönnum landsins opnuð leið til frekari fisköflunar en þeir eiga kost á nú. Ég benti á, að það væri alveg óvíst, hvort þessum tilgangi yrði náð með frv., því að Danir myndu nota þá aðstöðu, sem þeir hafa hér til fiskveiða í landhelgi, svo freklega, að þó veiðitíminn fyrir Íslendinga yrði lengdur nokkuð, þá myndi örtröð Dana í landhelgismiðum gera miklu meira en vega upp á móti því, sem Íslendingar öfluðu meira fyrir lengdan veiðitíma. Held ég því, að það sé á fullum rökum byggt hjá mér, að ákvæði þessa frv. myndu ekki verða til mikils ávinnings fyrir okkur, ef þau yrðu að lögum, en gætu á hinn bóginn orðið og mundu verða okkur til hins mesta tjóns og óhagræðis. [Fundarhlé.]

Ég lauk máli mínu áðan, þegar fundi var frestað, þar sem ég var að minnast á það, sem ég hefi áður sagt um hættuna af því, að tilslökun yrði frá því, sem nú er um varnir gegn of mikilli dragnótaveiði í landhelgi, og var kominn þar að, að benda á, að af aukningu dragnótaveiðanna frá því, sem nú er, mundi leiða, og fiskstofninn gengi fljótlega úr sér og mundi því brátt verða að gera sérstakar ráðstafanir því viðvíkjandi. Önnur aðalafleiðingin af þessu, sem ég benti á, að mundi koma í ljós, var sú, að með þessu yrði okkur Íslendingum stórum erfiðara að fá viðurkenningu þeirrar þjóðar sem við þurfum að fá viðurkenning hjá um nauðsynina fyrir rýmkun landhelginnar. nefnilega Englendinga. Það er ekki minnstu vafamál, að ef við færum að sýna það í verkinu, að hér fylgdi ekki hugur máli í þeirri ósk að fá landhelgina friðaða, til þess að vernda á þann hátt fiskistofninn til tryggingar og öryggis fiskiveiðunum í framtíðinni, þá mundi bæði það og hvert annað spor, sem við stigjum í þá átt, verða til að gera okkur stórum torveldara að fá þessu áhugamáli okkar framgengt.

Því til sönnunar, að aukning dragnótaveiðanna mundi leiða til upprætingar á þeim fisktegundum, sem aðallega yrðu veiddar á þennan hátt, vil ég benda á það, sem gerzt hefir í þessu efni hjá þeirri þjóð, sem lengst hefir stundað dragnótaveiði hjá sér, nefnilega Dönum. Nú er svo komið hjá þeim, að það er ekki aðeins, eins og ég benti á við 2. umr., að hjá þeim séu uppi háværar raddir um það að koma á auknum friði gegn dragnótaveiðinni, heldur er nú þegar búið að taka í lög ákvæði, sem ganga mjög í sömu átt og þau ákvæði, sem nú gilda hér í þessu efni.

Þetta sýnir það, að nú er það runnið upp fyrir Dönum, að nauðsyn er á slíkum ráðstöfunum til verndunar fiskistofninum, því að þessi nýja löggjöf þeirra um þessi efni hefir öðlazt gildi snemma á þessu ári, nefnil. á árinu 1931. Þannig er það, að eftir heimild, sem ég hefi hér fyrir framan mig, sem er dönsk löggjöf um þetta, þá eru t. d. að taka sérstök ákvæði um fiskiveiðar í Limafirði, og þar er það svo, að eingöngu er heimilt samkvæmt þessum lögum, sem staðfest eru á yfirstandi ári, að nota dragnót þarna í Limafirði á tímabilinu frá 15. sept. til 14. apríl; á öðrum tíma er það algerlega bannað, þ. e. a. s. að því leyti sem snertir ýsu og flatfisk. En það kemur ennfremur fram, að á þessum sömu miðum er dragnótaveiði einnig bönnuð til þorskveiða. Því hefir verið haldið hér fram, að það kæmi ekki til mála, að þorski eða uppfæðingu þorsks gæti stafað nokkur hætta af notkun dragnóta. En það kemur nú berlega í ljós af þessari löggjöf, að í Danmörku er dragnót einnig notuð til þorskveiða, en slíkar veiðar eru algerlega bannaðar í Limafirði fra 1. nóv. til 28. febr.

Það er þá þannig þarna, að sá tími, sem nota má dragnót til þorskveiða, er ennþá styttri en sá tími, sem nota má dragnót til lúðu- og kolaveiða á þessum sömu miðum. Og þá kemur nú fram ný hlið á þessu máli. Því hefir nefnilega alltaf verið haldið fram hér að það kæmi ekki til mála, að þorski eða uppfæðingu þorsks stafaði nokkur minnsta hætta af dragnótaveiðum. En þessi danska löggjöf, sem byggist á margra áratuga reynslu, sýnir einmitt það, að dragnótaveiðin er álitin einmitt hættulegri fyrir þorskinn heldur en nokkurntíma fyrir lúðu og kola. Það sést berlega á því, að notkun dragnóta er takmörkuð meira til þorskveiða heldur en til lúðu- og kolaveiða. Sú reynsla, sem þessi löggjöf er byggð á, er sannarlega þess verð, að tekin sé til athugunar í sambandi við afgreiðslu þessa máls.

Þetta eru þá þau ákvæði, sem gilda sérstaklega fyrir Limafjörð. En svo er þar að auki öllum héraðsstjórnum í Danmörku gefin heimild til að koma á samþykktum hjá sér til að takmarka í sínu umdæmi notkun veiðafæra við fiskiveiðar, og er þar á meðal vitanlega átt við dragnót, og að ég ætla einmitt með sérstöku tilliti til dragnótar. Og ég sé í dönsku blaði, sem ég hefi hér fyrir framan mig, „Berlingatíðindum“, að ekki hefir verið látið sitja við lögin tóm, heldur hafa ýmsar héraðsstjórnir undir eins notað tækifærið og komið á þessum takmörkunum hjá sér í skjóli þessum nýju laga. Það er þess vegna allt, sem bendir til þess, að sú skaðlega og mikla notkun þessara veiðarfæra er nú komin þarna í ljós, og það greinilega. Og svo framarlega sem við viljum notfæra okkur reynslu annara þjóða í þessu efni, þá ætti hún fullkomlega að vara okkur við því að fara að slaka til frá þeirri forsjálni og fyrirhyggju, sem komið hefir fram í þeirri löggjöf, sem hér gildir yfirleitt um verndun landhelginnar. Það sýnir, að fyrir löggjafanum hér á landi hefir það staðið ljóst og íslenzkri alþjóð ennþá ljósara, hve mikil nauðsyn er á þessari friðun, þar sem við Íslendingar höfum orðið til þess að byrgja brunninn, áður en barnið er dottið í hann. En aðrar þjóðir, eins og Danir, hafa hinsvegar látið skeika að sköpuðu, þar til allt var komið í óefni.

Þetta ætti að vera greinileg bending til okkar, hvernig fara mundi, ef við nú opnuðum allt upp á gátt, bæði fyrir okkur og svo fyrir Dönum og Færeyingum. — Ásókn Dana í það að komast inn í landhelgina hér hjá okkur er vitanlega þeim mun meiri, þar sem svona er komið hjá þeim heima fyrir. Því reynslan í þessu efni er alstaðar sú sama. Svona er þetta í Noregi. Ég hefi áður gert grein fyrir því hér í deildinni, hvernig fiskimenn við Noregsstrendur líta á þetta mál. Þeir hafa sent stjórnarvöldunum þar í landi harðar áskoranir, þar sem þeir bera fram till. sínar um, að gerðar séu ráðstafanir til þess, að sett verði í lög heimild til að takmarka og banna dragótaveiðar við strendur Noregs.

Alveg er sama máli að gegna í þessu efni hjá Svíum. Þar eru þessar sömu afleiðingar af dragnótaveiðum að koma greinilega í ljós, og ég veit ekki annað en að þar séu nú einnig komin ákvæði um bann gegn slíkum veiðum. Það er því alveg sama, hvert við leitum. Reynslan sýnir alstaðar það sama, að miklar dragnótaveiðar í landhelgi á fjörðum og flóum hafa leitt til stórkostlegrar fækkunar á þeim fiskitegundum, sem er annars hægt að veiða í dragnót, og eftir því sem fram kemur og ráða má af hinni dönsku löggjöf um þetta efni, er það meginhluti nytjafiska vorra. Og því hættulegri er þessi veiði. eins og aðrar botnvörpuveiðar, að þær taka jöfnum höndum uppfæðinginn og viðkomuna. Hér er því um að ræða þá ógurlegustu rányrkju, sem ekkert fær staðizt, nema henni sé haldið innan mjög þröngra takmarka.

En þó að Danir, Norðmenn og Svíar hafi gengið að dragnótaveiðunum með lítilli hlífð innan sinnar landhelgi, þá er þó sá munurinn hjá þeim og okkur, að þessar þjóðir sitja þó einar að hagnaðinum af þessu, á meðan verið er að uppræta fiskinn, en því er ekki að heilsa hér hjá okkur, því eins og oft hefir verið bent á, bíða Danir með óþreyju eftir því að geta siglt með Færeyinga í eftirdragi inn í landhelgina til dragnótaveiða þar, og er ekki að efa, að þeir mundu taka bróðurpartinn af þeim hagnaði, sem af þessum veiðum væri hægt að fá, á meðan verið væri að uppræta þessar fisktegundir, en við mundum sitja eftir með alla skömmina og allt það tjón, sem óhjákvæmilega mundi leiða af slíkri rányrkju og algerðri upprætingu á þessum dýrmæta fiski. Það mundi alveg vafalaust bitna allt á okkur. Því það yrði auðvitað hlutverk þessarar þjóðar að inna af hendi allt það starf, sem óumflýjanlega yrði að vinna, fyrst og fremst með nýjum friðunarlögum, og þar að auki yrðum við að inna af hendi þær ráðstafanir, sem áreiðanlega yrði að grípa til til þess að koma þessu máli í það horf, að vænta mætti í framtíðinni einhvers gagns eða árangurs af þessum fiskveiðum.

Þá vildi ég í sambandi við þetta mál minnast á sögulegan atburð um náskylt efni nú frá árinu sem leið, og þætti mér gott, að einhver úr bráðabirgðalandsstj. væri viðstaddur og heyrði á mál mitt. Mér sýnist hylla undir hæstv. forsrh. þar úti á svölunum. Vildi ég því mælast til þess, að hæstv. forseti gerði honum aðvart um, að til hans væri talað, því ég vildi spyrjast fyrir um ofboð lítinn sögulegan atburð viðvíkjandi dragnótaveiði Færeyinga. Þessi atburður gerðist nú fyrir skömmu fyrir Austur- eða Norðurlandi, að ég held.

Eins og kunnugt er, hafa Færeyingar stundað hér við land nokkra dragnótaveiði, og Danir sömuleiðis, sem hefir þó ekki verið að mun vegna núgildandi lagaákvæða og því ekki stafað af því veruleg hætta. Svo skeði það, að ég ætla síðasta sumar, að tekin voru tvö dragnótafiskiskip fyrir ólöglegar veiðar í landhelgi, ólöglegar að því leyti, að þeir voru þar með þá dragnót, sem kölluð er skovlvaad, en er kölluð lúrunót á íslenzku. Þessi dragnót er að því leyti frábrugðin venjulegri dragnót, að í sambandi við hana eru hlerar eins og á algengri botnvörpu. Þess vegna voru þessi skip tekin og dæmd. Annað af lögregludómaranum í Seyðisfjarðarkaupstað í 12500 kr. sekt, en hitt af dómaranum í Þingeyjarsýslu í jafnháa sekt. Dómurinn um þessi skip og þessar veiðar þeirra var byggður á þeirri löggjöf, sem nú gildir hér um botnvörpuveiðar í landhelgi, og auk fjársektarinnar var afli upptækur. Á síðasta þingi var svo flutt að tilhlutun stj. frv., þar sem farið var fram á: í fyrsta lagi, að þessar lúrunótaveiðar væru algerlega bannaðar í landhelgi, en það var nú algerður óþarfi að taka það fram, því dómarar, sem dæmt höfðu í þessum tveimur málum, sem ég hefi áður minnzt á, höfðu lítið svo á, að það væri algerlega óheimilt að nota slíka botnvörpu, eins og það líka er. Á því byggðist dómurinn og sú sekt, sem þessi skip fengu. En það var nú fleira í þessu frv. stjórnarinnar, nefnilega það, að það ætti að lækka sektir fyrir brot gegn slíkum veiðum. Og auk þess var svo einkennilega ákveðið í þessu frv., að þessi ákvæði áttu að verka aftur fyrir sig, svo að þótt þau yrðu ekki lögfest fyrr en 1931, þá áttu ákvæði frv. að gilda fyrir þann verknað, sem framinn væri á árinu 1930. Þannig áttu þá áðurnefndir menn, sem þarna voru fundnir sekir og dæmdir, að koma undir þessi miklu linari refsiákvæði. Nú vildi ég grennslast eftir því hjá hæstv. stj., hvernig þessi mál mundu standa, hvort dómnum hafi verið fullnægt eða hvort þessir menn hafa áfrýjað, og þá hvort hæstiréttur hefir fellt úrskurð og hver hann hefir þá verið, — yfirleitt hvernig þessu máli er komið nú.

Ég verð að segja það, að mér finnst koma fram í þessu fullmikil hugulsemi gagnvart þeim útlendingum, sem nú hafa leyfi til að stunda hér dragnótaveiði, nefnilega Dönum og Færeyingum í skjóli þeirra, þegar gripið er einmitt þetta tækifæri, þegar þeir verða brotlegir fyrir þessar veiðar, og lækkuð stórlega sektarákvæði núgildandi laga, en hinsvegar hefir ekki þótt ástæða að gera slíkar ráðstafanir gagnvart þeim innlendu mönnum, þó þeir hefðu fallið í freistni í þessu efni. Og mér virðist, að það komi fram, að jafnframt því, sem nú á að opna allt upp á gátt fyrir Dönum, þá sé þetta viðbót við þá hagnaðarvon, sem þeir hljóta að sjá sér í því að komast inn í landhelgina hér. Þetta er viðbót til að freista þeirra ennþá meira, og stj. hefir gefið þeim mjög undir fótinn með því að gefa þeim svona ótvírætt í skyn, að það mundi e. t. v. verða slakað til við þá um sektir og annað þessháttar, ef einhver þeirra skyldi nú verða fullnærgöngull við landsins lög, og að í því efni yrði e. t. v. gengið svo langt, að sú nýja löggjöf, sem sett yrði í þessu skyni, yrði látin verka þannig aftur fyrir sig, að þau eldri brot, sem þeir hefðu framið, yrðu fyrirgefin og þar slakað til á sektarákvæðunum og þannig tekið vægt á öllu og mildilega.

Í sambandi við það, sem ég talaði áðan fyrir brtt. mínum, kom ég dálítið inn á það, hvernig þessi lög myndu verða í framkvæmd. Var töluvert rækilega bent á það af hv. 2. þm. Reykv., að þessi lög yrðu ekki svo auðveld í framkvæmd, þegar til ætti að taka, og er ég honum mjög samdóma um það. Það er enginn efi á því, að innan lögsagnarumdæmanna verða skiptar skoðanir í þessu efni. Það eru engin ákvæði um það í frv., hve mikinn meiri hluta þurfi í héruðunum til þess, að stjórnin taki slíkar óskir til greina. Í frv. eru engin önnur ákvæði en stj. eigi að leita álits viðkomandi hreppsn. og Fiskifélags Íslands. Það er enginn vafi á því, að þetta ákvæði í frv. mun valda harðvítugri skiptingu um það, hvort eigi að rýmka til frá því, sem nú er, eða opna landhelgina um 2 mán., eða hvort eigi að loka fyrir veiðar á þeim tíma, sem þær nú eru leyfðar. Það er enginn vafi á því, að hreppapólitíkin mun koma fram í algleymingi, þegar taka á ákvörðun um það, hvort þetta spor skuli stigið. Sumir munu heimta það, en aðrir snúast í gegn. Stjórnin er hér milli tveggja elda, og það er heldur enginn vafi á því, að þessir eldar munu brenna glatt og loga þeirra bera við himin. Hér er því verið að setja stj. í gapastokk, og það rækilega í gapastokkinn. Ég hefi nú fyrir mitt leyti ekkert á móti því, að þessi stj. sé sett í gapastokk, því hún hefir fullkomlega til þess unnið á ýmsan hátt. En ég sný máli mínu til stuðningsmanna stj., sem líta öðruvísi á það en ég, á hvern hátt eigi að refsa stj., og bendi þeim aðeins á þetta. Þetta sýnir, að þegar athuguð er framkvæmdahliðin á því, þá kemur í ljós, að frv. er ekkert annað en þverbrestir frá upphafi til enda. Hér er verið að stefna út á braut, sem er hættuleg fyrir fiskveiðarnar, hættuleg fyrir kröfur okkar um rýmkun landhelginnar, og hrein og bein ófæra, þegar til framkvæmdanna kemur.

Þó að ég hafi talað töluvert um rýmkun landhelginnar í sambandi við þetta mál, þá hafði ég fullkomna ástæðu til þess, þar sem við 2. umr. komu fram raddir, sem létu í ljós efa og örvæntingu um það, að þar væri til mikils að vinna fyrir okkur, á þann hátt að það myndi lítinn árangur bera. Ég ætla samt ekki að minnast á það í þessari ræðu, en það getur vel verið, að ég tali um það í næstu ræðu, og taki um leið þá skýrslu, sem fyrir liggur frá Sveini Björnssyni sendiherra og er frá fundi þeim, sem hann mætti á í Haag 1930. Það er ýmislegt í þessari skýrslu, sem er þess vert, að það sé tekið til athugunar og haft til hliðsjónar við framhald umr. um þetta mál. Auk þess kemur það fram í þessari skýrslu, að það var enganveginn svo í garðinn búið með þessa sendiför og vera hefði átt, en hún sýnir, að málið er komið á dagskrá og engin hætta á, að ekki verði haldið áfram að ræða um það og smátt og smátt muni leggjast upp í höndurnar á okkur ýms gögn, og að við munum smátt og smátt þokast að því marki, sem við keppum að, að fá landhelgina rýmkaða út frá því, sem nú er, ef við ekki sjálfir spillum fyrir okkur með ógætilegum aðförum og fyrirhyggjuleysi. Í sambandi við þetta má benda á, hversu mikilsvert atriði það væri fyrir okkur að fá landhelgina færða út, að firðir og flóar myndu þá verða friðaðir. Það má t. d. benda á eitt lítið dæmi, eins og það, hve mikla þýðingu það myndi hafa fyrir okkur að fá Faxaflóa alfriðaðan fyrir botnvörpuveiðum. Það er viðurkennt, að Sviðið hér í innanverðum flóanum og Garðsjórinn eru einhver fiskiauðugustu og aflasælustu fiskimið, sem til eru á flóum og fjörðum, sannkölluð gullnáma. Það er vitanlegt, að þrátt fyrir mikinn afla á botnvörpu- og línuveiðaskip og stóra vélbáta, þá er sú útgerðin svo dýr, að það gengur illa að láta hana bera sig með því verðlagi, sem hægt er að fá fyrir aflann. Hinsvegar er það kunnugt, að á bátamiðin í Faxaflóa er hægt að sækja á opnum bátum, sem geta hagnýtt ódýr veiðarfæri, svo að sú útgerð er ákaflega ódýr. Þetta sýnir sig á þann hátt, að með því að fá firðina friðaða er hægt að afla fiskjar á ódýrari hátt, svo að nokkur ávinningur væri að þrátt fyrir lágt verðlag. En þessu er ekki til að dreifa með landhelgina. Hún fæst ekki rýmkuð, því þessi mið liggja utan línunnar og eru uppurin af botvörpuveiðum. Sama er að segja um önnur bátamið á flóum og fjörðum við strendur landsins. Þetta nægir sem sýnishorn til þess að sýna, hversu mikla þýðingu það getur haft, ef landhelgin yrði rýmkuð. Þó að við fengjum hana ekki rýmkaða nema úr 3 sjóm. upp í 4 sjóm. — og er það hin minnsta krafa, sem við getum komið með —, þá myndi það þó vinnast, að aðalbátamiðin yrðu innan landhelginnar. Þetta er þá líka fullkomin aðvörun og bending til okkar um það að gera engar þær breyt. á landhelgislöggjöfinni, sem verði til þess að vernda ránsveiðar innan landhelginnar, og gera ekkert í því efni, sem sýni, að það fylgi ekki hugur máli hjá Íslendingum í kröfum þeirra um stækkun á landhelgissvæðinu og nauðsynina fyrir því. En ef nú væri farið að opna landhelgina fyrir dragnótaveiðum, ekki eingöngu Íslendinga, heldur og Dana og Færeyinga, sem myndu sigla í halarófu inn á miðin, þá hefði það þau áhrif, að leiðin til þess að fá landhelgina rýmkaða yrði torveldari en ella. Ég get því ekki nógsamlega bent á þá hættu, sem af því gæti stafað fyrir þetta mikla áhugamál Íslendinga, að fá landhelgina rýmkaða, að við nú förum að hopa frá þeirri löggjöf, sem sett hefir verið til verndar landhelginni.