24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (2267)

76. mál, jarðræktarlög

Pétur Ottesen:

Ég vil út af þeim ummælum hv. þm. Mýr., að með þessu frv. sé verið að koma yfirstj. búnaðarmálanna í hendur bændanna í landinu, benda á það, að eins og þetta er nú, þá er yfirstj. Búnaðarfél. í höndum bændanna, af því að það eru landbn. Alþingis. skipaðar bændum og vitanlega kosnum af bændum landsins, alveg eins og fulltrúar þeir, sem mæta á búnaðarþingum, sem gera till. um það til landsstj., hvaða menn skuli skipaðir í stjórn Búnaðarfél. Ísl., af hálfu Alþ. Að öðru leyti er skipun stj. Búnaðarfél. í höndum búnaðarþings, eins og kunnugt er. Það er því í þessu efni ekki að ræða um neina breyt., því að skipun þessara mála er nú í höndum bændanna.

Til stuðnings því, að rétt og eðlilegt sé, að þessu sé nú þannig skipað, má benda á það, að Búnaðarfél. hefir nál. allt starfsfé sitt frá Alþingi, og auk þess fer nálega allt það fé, sem veitt er úr ríkissjóði til jarðræktar og annara búnaðarframkvæmda í landinu, í gegnum hendur Búnaðarfél., og er að miklu leyti háð vilja þess um úthlutun. Mér virðist þess vegna, að þau ákvæði, sem sett voru 1923 af Alþingi og samþ. þá af búnaðarþinginu með góðum og frjálsum vilja þess, séu eðlileg og heppileg, fyrst og fremst frá hálfu Alþ., og auk þess er í þessu fyrirkomulagi fólgin trygging fyrir Búnaðarfél. Ísl. fyrir góðri samvinnu við Alþ. Ég verð því að segja, að það var algerlega misráðið, þegar búnaðarþingið í fyrra breytti lögum sínum í það form, sem hv. þm. Mýr. vill nú samræma við jarðræktarlögin, að búnaðarþingið taki í sínar hendur þá íhlutun, sem Alþ. hefir um skipun stj. Búnaðarfél. Ég tel, að algerlega hafi verið misráðið og óheppilegt að gera þetta án þess að bera sig saman við landbn. Alþ. eða leita samninga við þær; en það var ekki gert, heldur gengið alveg framhjá þessum aðilja.

Ég vil í þessu sambandi benda á það, að sú fjárupphæð, sem Búnaðarfél. fær til umráða á þessu ári úr ríkissjóði, ýmist sem beinan styrk eða til ráðstöfunar samkv. sérstökum lögum, mun nema um 1 millj. kr. Í öðru lagi má benda á, að á hinum síðari árum hefir Alþ. lagt svo og svo mikið af sínu löggjafarvaldi í hendur Búnaðarfél. Fyrst og fremst er Búnaðarfél. í nálega hverri grein jarðræktarlaganna áskilinn réttur bæði til tillagna og ráða um ýms framkvæmdaratriði þar. Auk þess er því fenginn mikill og ríkur ákvörðunar- og tillöguréttur um, hvernig Búnaðarbanki Íslands hagar lánveitingum sínum. Ég get talið upp hóp af lögum, auk frv., sem eru fyrir þessu þingi og legið hafa fyrir undanförnum þingum, þar sem einmitt er gert ráð fyrir því, að Alþ. feli Búnaðarfél. ýmsar og margvíslegar framkvæmdir, sem annars þyrfti að setja nánari ákvæði um í lögum. Af þessu sýnist það vera augljóst, að þetta núv. fyrirkomulag sé heppilegt, og eðlilegt sé, að Alþ. hafi nokkra íhlutun um, hvernig Búnaðarfél. er stjórnað.

Ég held því, að bæði fyrir Alþ., Búnaðarfél. sjálft og þá menn, sem eiga að njóta góðs af þessu starfi, sé bezt, að það fyrirkomulag, sem nú er og ríkt hefir um nokkurt skeið, haldist áfram. Það gæti vel farið svo, ef slíkar breyt. væru gerðar, að meira eða minna leyti móti vilja Alþ., þótt e. t. v. fengist meiri hl. fyrir því í eitt skipti, þá gæti svo farið, að eigi yrði jafngott samkomulag um fjárveitingar til Búnaðarfél. og verið hefir og nú er og að fram kæmu raddir um að setja þá heldur upp sérstaka deild við stjórnarráðið, sem hefði með höndum búnaðarmálin, eins og komið hafa fram till. um að setja upp sérstaka deild, er færi með fiskveiðamálin, í stað Fiskifél. Ísl., sem nú fer með slík mál. En ég tel óheppilegt, að að því ráði yrði horfið eða nokkuð það gert, sem ýtt gæti undir þetta.

Ég skal ekki fara út í neinar kappræður um þetta mál nú, en vildi benda á þessi atriði og vænta þess, að menn taki þau til athugunar, og þá hefi ég sérstaklega fyrir augum hagsmuni Búnaðarfél. Ísl. og þeirra, sem góðs njóta af starfi þess.

Hv. þm. Mýr. benti á það sem tryggingarráðstöfun fyrir Alþ. um, hvernig farið væri með féð, að það fengi rétt til að hafa annan endurskoðanda Búnaðarfél. Á þennan hátt fengi Alþingi að vita, hvernig fénu hefði verið varið. Auðvitað fær Alþingi að vita það eftir á, en til þess þarf það engan endurskoðanda. Slíkar stofnanir mundu æfinlega leggja fram reikninga sína fyrir Alþingi, eins og þær gera nú. En það sjá allir, hver geysimunur er á þessu tvennu, að fá vitneskju um ráðstöfun fjárins eftir á, eða hafa meiri hl. í stj. fél., sem ræður í hvert skipti, hvernig fénu er varið.

Ég hefi ekkert á móti því, að þetta mál gangi til nefndar. Ég álít sjálfsagt að taka það til athugunar, en vænti þess, einmitt vegna Búnaðarfél., að menn hrapi ekki að slíkum breyt.