11.08.1931
Efri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

1. mál, fjárlög 1932

Jakob Möller:

Hv. 2. þm. Eyf. bar mér það á brýn áðan, að ég hefði vitnað skakkt í þessar „Skýrslur um framkvæmdir“, sem liggja hér fyrir framan okkur. Og hann fylltist heilagri vandlætingu yfir því, hve óvandaður ég mundi vera í þeim málum, sem illt væri að koma sönnunum að, fyrst ég vogaði mér að vitna skakkt í bók, sem við báðir hefðum opna fyrir framan okkur. Það vill nú svo vel til, að þetta, sem ég vitnaði í, er hér á fremstu síðu, og ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það upp: „Á landsmálafundi, sem haldinn var á Sveinsstöðum í Húnaþingi í júnímánuði 1926, gerði Jón Þorláksson, þáv. fjármálaráðherra, grein fyrir áætlun flokks síns í vegamálunum, og þar gerði hann ráð fyrir því, að árið 1940 yrði kominn bílfær vegur frá Borgarnesi norður um land til Húsavíkur. Síðan hefir vegakerfi landsins aukizt með meiri hraða en áður hefir þekkzt hér, og langt fram úr þeim áætlunum, sem áður voru gerðar um það“. Og þetta segir hv. 2. þm. Eyf., að ég fari rangt með. Ég vil leyfa mér að vísa því heim til föðurhúsanna.

Annað atriði í ræðu hans var það, að báðir bankarnir hefðu beðizt undan afskiptum mínum. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. viti þetta sem fyrrv. fjmrh., en mér þykir þá skorta á ábyrgðartilfinningu hans, að hann skyldi ekki hafa svo mikið við að láta mig vita um þetta. Ég held því, að hann geti ekki heldur hvað þetta atriði snertir ásakað aðra en sjálfan sig.