24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (2270)

76. mál, jarðræktarlög

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég hafði hugsað mér að hreyfa nokkrum aths. við þetta frv. nú þegar, en hv. þm. Borgf. hefir svo að segja þrætt mína punkta og auðvitað bætt fleiru við, þar sem hann er þessum málum miklu kunnugri en ég. En ég vil láta það uppi þegar við þessa umr., að það er hreinasta fjarstarða að ætla að fara fram á, að Búnaðarfél. sé gert enn þá sjálfstæðara um ráðstöfun á því fé, sem það fær til umráða, en verið hefir.

Það hafa komið fram raddir um, að nauðsynlegt væri að breyta til í þessum efnum, bæði viðvíkjandi Búnaðarfél. og Fiskifél. Menn hafa talið óeðlilegt að fá nokkurskonar einkafél. í hendur það fé, sem Alþ. veitir til framdráttar tveim aðalatvinnuvegum landsmanna. Mönnum hefir virzt eðlilegra, að í stjórnarráðinu væru trúnaðarmenn hvors atvinnuvegar, t. d. búnaðarmálastjóri og fiskiveiðastjóri, sambærilegir við fræðslumálastjóra, biskup, landlækni, vegamálastjóra, landssímastjóra o. s. frv. Það er aðeins hinn sögulegi uppruni, sem gerir það að verkum, að þessu er nú öðruvísi fyrir komið, en það er næstum því óhugsandi annað en að smám saman þokist frekar í þá átt, að ríkisvaldið taki þetta gersamlega í sínar hendur eins og aðra starfsemi.

Hv. þm. Borgf. hefir tekið skýrt fram, hve geysileg fjárráðstöfun og annað vald er fengið Búnaðarfél. í hendur. Það er fjarstæða að ætla sér að benda á aðrar stofnanir, sem komast þar í námunda við. Þó að t. d. Bókmenntafélagið fái nokkur þús. kr. við hliðina á eigin fé, þá er það vitaskuld ekki sambærilegt. En hvenær sem Alþ. leggur fram fé sem nokkru verulegu nemur til einhverrar starfsemi, þá er hún algerlega lögð undir starfsemiríkisvaldsins. Sem hliðstæðar stofnanir mætti frekar tala um t. d. kirkjumálin. Um það hefir verið talað, að halda kirkjuþing með fulltúum presta og safnaða, sem fengi þá alveg ráðstöfunarrétt um kirkjumálin og það fé, sem til þeirra væri lagt. En ekki hefir mér virzt þetta mál hafa byr, enda finnst mér eðlilegra, að þetta sé í höndum Alþ. Heilbrigðismálin mætti fela Læknafélagi Íslands, og Kennarafélaginu ráðstöfun á fé til kennslumála. En þessi straumur liggur burtu frá því, sem eðlilegt er; þetta er dreifingarstefna, og Alþ. ætti ekki að leggja lið sitt til þess að fara inn á þessa braut.

Ég er fyrir mitt leyti þó á því að láta hinn sögulega uppruna valda því, að þetta ástand haldist um Búnaðarfél. Ísl. og Fiskifél. Þetta er af dálítilli íhaldssemi. Og væri Búnaðarfél. Ísl. fengin slík yfirráð sem þetta frv. fer fram á, þá er hætt við, að ekki yrði langt þangað til leiddi til árekstrar milli þess og Alþ. Raddir kæmu fram á Alþ. um, að þessu mikla fé væri ekki ráðstafað á sem heppilegastan hátt. Það er auðvitað Alþ., sem leggur féð fram og hefir valdið til þess að gera það, sem það vill í þessu efni.

Ég hygg því, að með þessu frv. sé stigið spor í öfuga átt, og fyrir þá, sem vilja halda í sama horfinu, sé heppilegt að egna ekki viljandi upp þá mótstöðu, sem er gegn því að fela Búnaðarfél. það vald, sem Alþ. hefir nú, án þess það geti komið fram íhlutun sinni. Því þótt þingið eigi að skipa einn endurskoðanda, er það ekki einhlítt. Því endurskoðandi gerir ekki annað en að fá skýrslur um, hvernig fénu hefir verið varið, og skýra frá því eftir á.