24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í C-deild Alþingistíðinda. (2271)

76. mál, jarðræktarlög

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það væri engin íhlutun, sem þingið hefði á fjármálastj. Búnaðarfél., þótt það skipaði annan endurskoðanda fél. Ég vil benda hv. þm. á, að það er sama íhlutunin og það hefir nú. Hv. þm. sagði, að þingið gæti ekkert fengið að vita fyrr en eftir á. Það er sama og nú, Alþingi hefir ekkert vald til þess að ákveða í einstökum atriðum, hvernig því fé, sem fer til Búnaðarfél., er varið. Atvmrh. getur aftur á móti fylgzt með því, hvernig fénu er varið, ef endurskoðandinn gerir skyldu sína.

Það hefir verið og er venja, að Búnaðarfél. leggi fjárhagsáætlun sína fyrir fjvn. Alþ. Alþ. getur því vitað, hvernig á að verja fénu í stórum dráttum og leggur því fyrirfram samþykki sitt á það með samþykkt fjárl. Þetta er nú alveldi Búnaðarfél., og það er ekki eins ægilegt eins og af er látið.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að Búnaðarfél. hefði tekið mestum þroska á undanförnum árum. Þetta er rétt, en það er misskilningur hjá hv. þm., ef hann heldur að það stafi af því óeðlilega fyrirkomulagi, sem varð á fél. við samþ. jarðræktarlaganna. Það er þrátt fyrir, en ekki vegna þessa óeðlis á félagsskapnum, því hann á að ráða yfir því fé, sem hann hefir með höndum, en ræður ekkert yfir þeirri stj., sem hefir framkvæmdirnar í hendi sér. Og ef stj. neitar að verða við vilja búnaðarþingsins, er það máttlaust. Þess vegna er ekki nema um tvennt að ræða: annaðhvort að Búnaðarfél. ráði meðferð mála sinna íhlutunarlaust af Alþ., eða að ráðin séu tekin af því og lögð undir atvinnumálaráðuneytið. En þá tel ég málinu betur borgið í höndum lifandi, starfandi stofnunar heldur en í myglaðri skrifstofu í stjórnarráðinu.