24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (2272)

76. mál, jarðræktarlög

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Þetta, mál er ekki nýr gestur í þessari hv. d. Tvisvar hefir það verið lagt hér fram, og um hríð var það þannig flutt utan Alþingis, að ég áleit að ekki bæri að sinna því eins og það þá var borið fram. Þá var það borið fram á þeim grundvelli, að breyta átti skipulagi fél., hvað sem Alþingi segði, og þannig stofna til ófriðar milli Búnaðarfél. og Alþ.

Nú er þetta mál flutt á öðrum grundvelli. Síðasta búnaðarþing ákvað, að Búnaðarfél. skyldi ekki setja slíkt ákvæði í sín lög og þannig gera það að deilumáli við Alþ., heldur kæmi þetta því aðeins til framkvæmda, að Alþ. féllist á það. Málið er því hér sótt á þeim grundvelli, að fullt samkomulag fáist milli Búnaðarfél. og Alþ. Á þeim grundvelli get ég verið því fylgjandi, en ef svo fer, að á mjög litlu veltur, hvort Alþ. vill samþ. það eða ekki, tel ég vafasamt. hvort það er heppilegt fyrir Búnaðarfél. að fylgja þessu máli fast fram, því að með því væri stofnað til ófriðar milli Búnaðarfél. og þingsins.

Það hefir komið fram hjá hv. þm. Borgf. og hv. 4. þm. Reykv., að Búnaðarfél. hafi allt aðra aðstöðu en nokkurt annað félag í landinu, þar sem það fær allra félaga mest fé frá Alþ. í hendur sínar. Það er því rétt hjá hv. þm., að Alþ. verði að hafa ríkt eftirlit með því, að þeim peningum sé vel varið.

Ég verð að segja það, að ég er hv. þm. Borgf. sammála um það, að það er engin trygging í því, þótt atvmrn. tilnefni annan endurskoðanda fél. En ég vil undirstrika það, að Alþ. hefir gert allþýðingarmiklar ráðstafanir á Búnaðarfél., sem eru mikil trygging fyrir því, að það fari vel með það fé, sem því er trúað fyrir. Alþ. hefir gert þá ráðstöfun, og búnaðarþingið líka, að Búnaðarfél. er öðruvísi skipað en nokkurt annað fél. á landinu.

Það er skilyrði fyrir því að fá styrk skv. jarðræktarl., að sá sé í einhverju búnaðarfél., sem styrkinn fær. Fulltrúar búnaðarfélaganna sækja síðan aðalfundi búnaðarsambandanna, og þeir fulltrúar einir kjósa fulltrúa á búnaðarþing, sem hefir hið æðsta vald í málum Búnaðarfélagsins. Svo vel er búið um þá hnúta.

Í sambandi við þetta vil ég segja það, að þó að Búnaðarfél. sé á pappírnum sjálfstætt fél., þá er það vafalaust, að allt, sem Búnaðarfél. á, er jafnmikið ríkiseign sem þau gögn, sem eru hjá Hagstofu Íslands, vegamálastjóra eða vitamálastjóra.

Í sambandi við þetta vil ég ennfremur minnast á eitt atriði. Ég álít, að þetta frv. sé einn þáttur í miklu stærra máli, sem Alþ. þarf að leysa nú á næstunni. Ég álít, að það þurfi að efna til endurskoðunar á löggjöf um æðstu stjórn búnaðarmála. Með þeim breyt., sem orðið hafa á undanförnum áratugum á málum landbúnaðarins, á Búnaðarfél. og hversu verkefni þess hafa vaxið, er sá gamli rammi, sem hefir verið um stjórn búnaðarmála, orðinn of þröngur. Það er full þörf á nýrri löggjöf, sem er í samræmi við nútímann.

Eftir ósk minni var á síðasta búnaðarþingi kosinn maður af Búnaðarfél. hálfu til slíkrar endurskoðunar. Ég álít, að slík endarskoðun eigi að fara fram að afloknu þessu þingi. Mun ég tala um þetta við landbn. þingsins, að þær taki þetta mál til athugunar. Ég álít nauðsynlegt, að við fáum stofnun, sem er hliðstæð stofnunum annara landa, landbúnaðarráð, sem skipað sé fulltrúum búnaðarfélaga og samvinnufélaga.

Vona ég svo, að mál þetta fari til n. og fái þar góða afgreiðslu.