24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (2273)

76. mál, jarðræktarlög

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Mér þykir það dálítið einkennilegt af hv. þm. Mýr., að hann skuli halda því fram, að Alþ. hafi nú enga íhlutun um stjórn Búnaðarfél., þar sem það nú er tryggt, að meiri hl. stj. þess er skipaður eftir till. landbn. Alþ. Mér skilst, að þetta sé sú mesta íhlutun, sem hægt er að hafa á fél. án þess að leggja það undir sig. Hinsvegar játaði hv. þm., að alveldi Búnaðarfél. yrði ekki nema á pappírnum, enda þótt frv. hans næði fram að ganga. En það er það sama sem ég sagði áðan, að valdið yrði áfram hjá Alþ., því að það getur lokað fyrir peningastrauminn hvenær sem það vill. En hvaða gullöld er það þá, sem á að renna upp fyrir Búnaðarfél., ef vald Alþ. verður óskert eftir sem áður?

Hvort fjárhagsáætlun búnaðarþingsins er lögð fyrir Alþ., fer eftir því, á hvaða tíma búnaðarþingið er háð. Í vetur var fjárhagsáætlun fél. samþ. áður en Alþ. kom saman, og var þá fjvn. skýrt frá því, hvernig sú áætlun væri.

Það, sem menn greinir því á um, er það, hvernig Alþ. eigi að ráða, hvort það eigi að ráða því frá byrjun, þ. e. hvort ríkisstj. eigi að skipa meiri hl. stj. Búnaðarfél. eftir till. frá Alþ., eða hvort íhlutunin á ekki að koma fyrr en eftir á. Menn getur ekki greint á um það, að síðari aðferðin er til þess fallin að skapa árekstur, sem myndi verða til þess, að Búnaðarfél. yrði að láta í minni pokann fyrir Alþ. Ég álít því, að með þessu frv. sé verið að stofna til þess, að íhlutunin með Búnaðarfél. líði undir lok. En það er nú einu sinni svo, að það eru mjög sterkir straumar móti því að skapa ríki í ríkinu. og það getur verið heppilegt að gera það ekki.

Hv. þm. sagði í enda ræðu sinnar, að hann áliti málið betur komið í lifandi og starfandi fél., en lokað inni í myglaðri skrifstofu. Ég tel þetta víst, en það gæti verið lifandi fyrir því. Ekkert hefir t. d. borið á því, að vegamálin væru lokuð inni í skrifstofu, þótt þau séu rekin af því opinbera. Ég held öllu frekar, að hv. þm. Mýr. þyki þar kannske of mikið um framkvæmdir.

Það er ekki tilgangur minn með þessum andmælum, að ég vilji neitt hrófla við því fyrirkomulagi, sem nú er, en ég tel heldur ekki rétt að færa það í það horf, að fél. fái algerlega stjórnina í sínar hendur.