24.07.1931
Neðri deild: 11. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (2286)

82. mál, prestakallasjóður

Flm. (Magnús Jónsson):

Ég ætla ekki að svara hv. samþm. mínum. Frv. miðar ekki að því að hafa fleiri presta, en aðeins því, að því fé, sem á að verja til presta, sé varið samkv. tilgangi sínum. Hitt er alkunn., sem hv. þm. virðist ekki vita, að hvenær sem á að leggja niður prestakall eða kirkju, þá hefir orðið úr því óánægja. Í Eyjafirði eru t. d. á einum stað 6–7 kirkjur að mig minnir nálega í einni kássu. Þetta mætti nú kannske virðast óþarflega mikið. En þegar til hefir komið, hefir enginn viljað leggja niður sína kirkju, en bent á kirkju nágrannans. Þetta sem hv. þm. sagði, kemur því þessu frv. ekki við.

En mér þótti vænt um það, sem hv. þm. Dal. sagði. Hann hefir setið í n., sem fjallaði um kirkjumál, og er þessum málum kunnugur. Ég álít sjálfsagt að taka til athugunar, hvort útvarpið geti ekki komið hér til greina. Annars þarf ekki brtt. til þess, því í frv. stendur ekki tæmandi upptalning, heldur „o. s. frv.“. Annars er ráðstöfun fjárins alveg opin og getur því vel átt við útvarpið.

Ég hefi jafnan hlustað á það með stökustu undrun, þegar menn hafa verið að amast við útvarpinu í þágu kirkjunnar. Það er engu líkara en að mörgum finnist svo mikið nýjabragð að þessari stefnum, að þeir eigi erfitt með að skilja, að hana megi nota í uppbyggilegum tilgangi. Það er engu líkara en ef menn á fyrstu dögum prentlistarinnar hefðu fortekið fyrir það, að svo heiðin list mætti verða kristninni að gagni.

Um hitt, hvort útvarpið muni draga úr kirkjusókn, álít ég allt óráðið enn, eins og flest viðvíkjandi þessari starfsemi. Fjöldi presta hefir skýrt frá sinni reynslu, og dómarnir eru mjög sitt á hvað. Og engan nema einn minnist ég að hafa heyrt, sem beinlínis taldi það hafa dregið úr kirkjusókn. Víða hefir það aftur á móti orðið til örvunar og vakningar. Söfnuðirnir hafa fyllzt áhuga fyrir því t. d. að efla söng og gera þessa umgerð guðsþjónustunnar eins fagra og í útvarpinu. Hitt er alveg rétt, að það getur verið ástæða til þess að hafa fé fyrir hendi til þess að fá afburða kennimenn til að prédika í útvarpið. Annars tek ég með þökkum hverjum nytsömum breyt. á frv.