17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

1. mál, fjárlög 1932

Magnús Guðmundsson:

Þegar ég kom á þenna fund, bjóst ég við að fá að heyra af vörum hæstv. fjmrh. skýrslu um það, hverjar orðið hefðu tekjur ríkisins og útgjöld á þeim sex mánuðum, sem liðnir eru af þessu ári. Ég bjóst líka við því, að hæstv. fjmrh. mundi gefa þinginu upplýsingar um það, hvaða gjöld hefðu komið á ríkissjóðinn síðan fyrrv. fjmrh. gaf yfirlit sitt á síðasta þingi, því að það vita allir, að síðan hafa komið fram mörg gjöld á ríkissjóð viðvíkjandi árinu 1930. Ég fyrir mitt leyti er viss um það, að landsreikningurinn fyrir 1930 muni sýna meiri gjöld en fyrrv. fjmrh. taldi í skýrslu sinni á þinginu í vetur. — Mér skildist svo á hæstv. ráðh. sem hann mundi gefa upplýsingar um þetta síðar, en þar sem hann sleppti nú þessu sjálfsagða tækifæri til að gefa þinginu yfirlit um fjárhagsafkomu landsins, vil ég spyrja hann, hvenær þetta yfirlit komi. Þm. öllum er nauðsynlegt að fá þetta yfirlit, og fjhn. ekki síður en fjvn. Þætti mér þá einnig fróðlegt að fá að heyra um það, hvort ríkissjóður hefir haft nóg til útgjalda það sem af er þessa árs, eða hvort stj. hefir orðið að taka bráðabirgðalán, eins og heyrzt hefir.