30.07.1931
Neðri deild: 16. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (2318)

97. mál, húsnæði í Reykjavík

Héðinn Valdimarsson:

Þeir, sem hafa átt kost á því að hlusta á ræður frambjóðendanna í Árnessýslu við kosningarnar í vor, og heyrðu framsóknarmennina tala um skrílinn í Reykjavík, munu undra sig á því, að Framsóknarflokkurinn lætur nú einmitt annan þessara manna sinna flytja frv. um húsnæði í Reykjavík. É g held, að þessum hv. þm. væri nær að athuga atvinnu síns eigin héraðs, sem hann að vísu virðist ekki bera mikið fyrir brjósti, þar sem hann hikar ekki við að greiða atkv. gegn till. um atvinnubætur í hans eigin héraði, er hér koma fram. En það lítur út fyrir, að þeir telji sig réttkjörna sendiboða drottins til þess að lagfæra neyð Reykjavíkurbúa, fremur en kjósenda sinna.

Mér finnst þetta bera því vott, að þeir meti Reykjavíkurskrílinn meira nú en fyrir kosningarnar í vor: ef til vill eru þeir með víðtækar og stórkostlegar ráðagerðir um að breyta skrílnum í ærlegt fólk, eins og t. d. kjósendur þeirra.

Þetta frv. er mjög svipað gömlu húsaleigulögunum; þær fáu breyt., sem gerðar hafa verið, eru ekki til batnaðar. Það er alls ekki nægilegt að ákveða vissa procenttölu af fasteignaverði húsanna; úr þessu verður ekki hætt, nema hið opinbera leggi fram styrk til bygginga handa þeim, sem bágast eiga. Ennfremur eru það margir, sem hafa neyðzt til þess að taka dýr lán út á hús sín, og verða nú að liggja undir okurvöxtum. Slíkir menn verða líka að fá lausn sinna mála. Það verður að gera þeim mögulegt að halda þessum húsum, sem þeir oft hafa ráðizt í að byggja af litlum efnum, vegna húsnæðisvandræða. Úr þessu verður ekki bætt nema með því móti, að almenningur eigi aðgang að ódýrum lánum.

Stjórn Framsóknarflokksins og ríkisstjórnin hafa hingað til farið sér hægt með það að bæta húsnæðisvandræði í Reykjavík. Hún hefir meir að segja hjálpað til þess að halda við hárri húsaleigu, með því að stöðva veðdeildina og stöðva með því að mestu leyti allar byggingar hér í Reykjavík. Ég og sá flokkur, sem ég tilheyri, álítum; að þetta frv. verði að taka miklum breyt., ef það á að koma að nokkru gagni. Samt ber ekki að taka þessi orð mín svo, að við munum ekki vilja vísa frv. til 2. umr. En við munum bera fram sérstakt frv. um lausn húsnæðismálsins í Rvík og kaupstöðum landsins yfirleitt.

Það er t. d. eitt atriði í þessu frv., sem hljóðar svo: „Það er bannað að leigja utanbæjarmönnum húsnæði í Reykjavík, nema um leigu sé að ræða á einstökum herbergjum til einhleypra námsmanna við opinbera skóla í bænum“. — Ég vildi þó vona, að þm., sem heima eiga úti á landi, fái húsnæði hér án þess að þurfa að leggja fram stórar fjárupphæðir eða standa í miklu málavafstri.

Það hefir oft borið á góma bæði meðal verkamanna og í bæjarstjórn, hvort varna ætti innflutningi utanbæjarmanna með því að banna þeim húsnæði, en þær tillögur hafa ávallt orðið í minni hl., enda er óhætt að fullyrða, að verkamenn muni yfirleitt vera andvígir slíkum ráðstöfunum. Hinsvegar er þessi stefna í samræmi við afturhaldstilhneigingar ýmsra þm. í Framsóknarflokknum, enda er hér hreint og beint um vistarband að ræða, þar sem á að binda menn við þann stað, sem þeir eru á. Ef verkalýðsfélögin vilja bægja mönnum frá atvinnu hér, hafa þau mátt til þess að gera það án stuðnings þingsins. Má vel vera, að til þess úrræðis verði gripið í haust, ef vandræðin haldast, a. m. k. að bægja þeim frá vinnu, sem ekki eru í verkalýðsfélögunum.

Þá talaði hv. flm. um hátt verðlag hér í Rvík. Þetta er rétt, en skraf um kaupfélag kemur ekki þessu máli við, nema Framsóknarflokkurinn vilji styðja það með opinberum fjárframlögum. Innlendar vörur eru ekki síður í háu verði en útlendar, t. d. mjólkin. Ætti hv. flm. að reyna að kippa því verðlagi í lag í sínu kjördæmi.

Ég vil bæta því við, að hér er til félag húseigenda, en enginn félagsskapur er hinsvegar til á meðal leigutaka. Álít ég því, að ef sú nefnd, sem frv. gerir ráð fyrir, yrði sett á laggir, ætti að velja í hana mann úr hópi verkalýðsfélaganna, en ekki úr flokki leigutaka yfirleitt. Annars er framkvæmd þessara mála að mestu komin undir Reykvíkingum sjálfum, enda mun verða farið inn á þá braut í till. okkar jafnaðarmanna.