31.07.1931
Neðri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (2323)

97. mál, húsnæði í Reykjavík

Magnús Jónsson:

Ég verð að játa það, að ég er ekki alveg viss um, hvar ég eigi að vaða út í þennan elg, sem hv. þm. kom með hér. Ég er líkt staddur og maður, sem kemur að á, sem ekkert vað er á, og veit ekkert, hvar hann á helzt að leggja út í. (JörB: Þessu trúi ég vel). Ég verð þá víst að leggja út í ána þar, sem ég kem að henni. Ég lít á blaðið hjá mér og sé, að hv. þm. hefir verið að tala um, að ræða mín hafi verið með því sérstaka sniði, að hann þyrfti ekki að koma neitt að henni. Hann efndi þetta loforð sitt svo vel, að hann kom tvisvar að mér, en ekki nema einu sinni að hinum ræðumönnunum, og varði 2/3 hlutum af ræðutíma sínum til að svara mér. Ég get vel unað við þetta, ég býst við, að þetta komi af því, að hv. þm. hafi fundið einna sárast til þess, sem ég sagði, og þess vegna helzt reynt að andmæla því eitthvað.

Það má segja, að þessi hv. þm. þreytist ekki gott að gera, þar sem hann vill reka þetta mál áfram þrátt fyrir það, að allir þeir þm. Reykjavíkur, sem hér eiga sæti, viti svo illa um þarfir síns kjördæmis, að þeir standi upp hver af öðrum og láti það í ljós, að á þessu bjargráði hafi þeir enga trú, og ég efast ekki um, að eins sé með þann þm. Reykv., sem sæti á í Ed. Það getur verið, að ég hafi orðið einna skarpastur í að ámæla frv., en það má segja, að litlu verður Vöggur feginn, ef hv. þm. hefir fundið nokkur meðmæli með frv. í ummælum hinna hv. þm. Reykv. Það er þetta, sem ég á við, þegar ég er að frábiðja mér, að hann og hans flokksmenn aðstoði okkur hér. Hann reyndi að snúa út úr því þannig, að ég vildi helzt, að framsóknarmenn tækju engan átt í neinu máli, sem Reykjavík snerti, en ég held næstum, að menn geti frábeðið sér svona greiða, sem allir þm. þessa kjördæmis eru á móti. Annars býst ég við, að Reykvíkingar mundu ekki harma það mikið, þó að engin löggjöf væri sett fyrir Reykjavík af þessum, þingfulltrúum. Mér virðist, að afskipti löggjafarinnar af Reykjavík hafi mest gengið út á það hingað til að hafa peninga út úr Reykvíkingum. Ég hugsa að Reykjavík hefði eins gott af því í tímanlegum efnum, ef hún fengi að sitja að sínu og nota sjálf þær tekjur, sem þeir afla, sem hér búa. Þá yrðu engin vandræði með húsnæðismálið, ef hún væri laus við alla löggjöf utan af landsbyggðinni. Hvernig stendur eiginlega á því, að Reykjavík skuli ekki segja skilið við landið? Það yrði ekki svo illt fyrir Reykjavík að hafa aðskilinn fjárhag frá öðrum landshlutum. Nei, velvildin til Reykjavíkur hefir komið fram í því, að standa á móti því, að Reykvíkingar fengju sinn kosningarrétt til að kjósa sína fulltrúa til að ráðstafa fénu, sem þeir hafa fengið að greiða í ríkissjóð.

Hv. þm. skoraði á mig að sanna upp á sig ill ummæli í garð Reykvíkinga nú við síðustu kosningar. Ég hlustaði ekki á hv. þm., en ef hann kannast við blað, sem heitir „Tíminn“, þá er hægt að finna þar slík ummæli, og hv. þm. veit, að þm. verða að bera ábyrgð á hlaði sins flokks. (BSt: Verður þá hv. 4. þm. Reykv. ekki að bera ábyrgð á því, sem stendur í „Morgunblaðinu“?). Hér situr hv. þm. Seyðf. Hann hefir sagt mér, að hann hafi hlustað á það á fundi á Egilsstöðum, að framsóknarframbjóðendur lýstu Reykvíkingum sem ógurlegum ófreskjum. Og þótt hv. flm. þykist ekki hafa látið sér slíkt um munn fara, þá verður hann að gæta þess, að það fylgir því töluverð ábyrgð að vera í stjórnmálaflokki, og með því að vera í þessum flokki hefir hann tekið á sig að nokkru ábyrgð þessara og þvílíkra ummæla, og gerir það áfram meðan hann unir því að vera í þeim flokki, sem lætur sér sæma svona málaflutning. Ég skal ekki neita því, að þessir hv. þm. tala nógu blíðlega þegar þeir eru komnir til Reykjavíkur. Það er líka miklu þægilegra að tala ljót orð og svívirðingar um Reykvíkinga upp um byggðir og afdali en að endurtaka það hér.

Hv. þm. sagði um ræðu mína, að hún hefði ekki verið neitt um málið. Ég veit þá ekki, um hvað málið er, ef meginhluti hennar snerist ekki um það. Ég kann að hafa sagt eitthvað fleira, af því mér rann í skap að heyra hv. þm. vera að bera hér fram margendurteknar vitleysur.

Ég hefi skilið frv. svo, að með því ætti að lækka húsaleiguna í Reykjavík. Ég benti á það, að það hlyti að fæla menn frá því að byggja. Og ef það fælir menn frá að byggja, þá verður meiri húsnæðisskortur. Þá hlýtur eftirspurnin að vaxa og menn taka að bjóða meira í íbúðirnar. Og þegar neyðin herðir að, þá duga ekki nein pappírsgögn, og leigan hækkar óhjákvæmilega, á ófrjálsan hátt, ef ekki er hægt á frjálsan. Þannig leiddi ég rök að því, að þetta frv., sem á að verða til þess að lækka húsaleiguna, hlýtur að verða til þess að hækka hana. Ef þetta kemur ekki málinu við, þá er frv. tóm vitleysa. Hér er verið að leggja til að taka upp að nýju fyrirkomulag, sem búið er að reyna í mörg ár og allir voru fyrir löngu orðnir þreyttir á. Þegar gömlu húsaleigulögin voru numin úr gildi, þá var aftur farið að byggja, þótt aðstreymi í bæinn yxi svo, að enn sé hörgull á húsnæði. Það er auðvitað ekkert hægt að fullyrða um það, hvernig ástandið væri hér í bænum, ef þessi lög hefðu gilt til þessa tíma, en það er víst, að leigan væri þá miklu hærri.

Hv. þm. benti á, að þess væru dæmi, að húsverð hefði verið tekið með eins árs leigu og einnig að á 5 árum hefði verið tekið í leigu eftir hús þrefalt húsverðið. Ég veit ekki, hvað hæft er í þessu, en sé, þetta satt, þá sýnir það ekki annað en það, hve mikill skortur er á húsnæði, hve mikið vantar á, að fullnægt sé eftirspurn. Ég veit ekki, hverskonar fífl þm. heldur íbúa Reykjavíkur, ef hann heldur, að þeir gangi frá tómum íbúðum, en leigja fyrir þetta verð. Svona okur getur ekki átt sér stað, nema skortur sé mikill og eftirspurn. Eitt sinn voru seld hér í bæ ein spil fyrir 20 krónur. Það kom til af því, að það var aðeins ein verzlun í bænum, sem hafði spil, og þau fá. Ég ætla ekki að fara að smjaðra fyrir Reykvíkingum, en þeir eru menn eins og menn gerast, og þeir vilja eins og aðrir ota sínum tota. Hvernig stendur á því, að menn gefa jafnvel mörg þús. krónur fyrir fágætar bækur? Það er af því, að margir vilja eignast þær, en framboðið er lítið. Verðlag fer alltaf eftir framboði og eftirspurn. Þetta er lögmál, sem alls ekki verður numið úr gildi með pappírsgögnum. En ef hægt er að taka húsverð í leigu á einu ári og 3 húsverð á 5 árum, þá kemur það til af því, að það ástand er ríkjandi, sem þetta frv., ef að lögum verður, mun hjálpa til að skapa.

Hv. þm. talaði um ósamræmi í því, að einn hv. þm. hélt því fram, að afleiðingar þessa frv. myndu verða bæði það, að margir færu á höfuðið og einnig að húsaleigan hækki. En þetta getur vel samrýmzt. Við verðum að gæta að því, að hér er ekki um að ræða dauða hluti, heldur lifandi menn. Og mennirnir eru misjafnir. Heill hópur manna er þannig gerður, að hann myndi ekki fara framhjá ákvæðum laganna. Þeir myndu ekki leigja dýrara en lögin ákveða, en afleiðingin yrði sú, að þeir færu á höfuðið. Og hverjir eignast þá húsin? Lánsstofnanir fá þau og selja þeim, sem hirða um það eitt að græða á húsunum, og víla það ekki fyrir sér að ganga á snið við lögin. Þetta er mórall í lagi, sem lögin á þennan hátt myndu skapa. Heiðarlegu mennirnir fara á höfuðið, hinir kaupa, sem ekkert hirða um að halda lögin. Lögin myndu þannig verða alveg dæmalaus skóli til að kenna mönnum að brjóta lög, hreinasta snara til að veiða menn í, til að gera menn að lögbrjótum. Þau biðja, laða, leiða menn til að fremja lögbrot. Þar sem ekki þarf annað en að tveir menn komi sér saman, þar sem gjaldþrot ýtir á frá annari hliðinni og húsnæðisvandræði frá hinni, þá er ekki takandi hart á því, þótt menn freistist til að fara í kringum lögin. En það er ekki rétt að leiða menn þannig í freistni. Ef það sannast við glæpi, að um sérstaka freistingu hefir verið að ræða, þá er það látið milda dóminn. — Svo þegar braskararnir eru búnir að sölsa undir sig húsin, þá situr hin forgylta nefnd og skrifar í protokolla og tilkynnir húsaleigu, sem enginn tekur mark á.

Svona löguðu tek ég ekki með þakklæti. Og ég er á móti þessum lögum, vegna þess að ég veit, að með þeim verður húsaleigan hærri. Ég er ekki á móti þeim vegna húseigendanna. Þvert á móti. Ég mótmæli þeim fyrir hönd þeirra, sem þurfa að leigja. Því að hömlurnar myndu gera hvorttveggja, að draga úr því að byggt yrði og gera húsaleiguna hærri. Mér þykir húsaleigan há. Ég vil, að húsaleigan sé lág, alveg eins og ég vil fá fisk og mjólk fyrir lágt verð.

Þá fór hv. þm. út í mjólkurverðið hér í bænum. Ég er ekki fyrirsvarsmaður Mjólkurfélagsins. En þegar talað er um, að félagið okri á mjólkinni og það eigi að selja hana í bænum með framleiðsluverði, þá kemur þar oft fram mjög algengur misskilningur. Menn segja, að þeir vilji fá hlutinn með framleiðsluverði. En framleiðslukostnaður er allt það, sem til vörunnar þarf að kosta, unz hún er komin til neytendanna. Það er mikill kostnaður við mjólkina frá því að hún kemur úr kýrspenunum og þar til hún er komin að húsdýrum kaupanda. Sama er að segja um fiskinn. Það er langt á milli þess, að búið er að draga hann upp í bát úti á Faxaflóa og þar til hann er kominn til neytanda hér í Reykjavík. Við verðum að gæta að því, að tilfærsla vörunnar er oft stærsti liðurinn í framleiðslukostnaðinum. Ég skal ekki um það deila, hvort mjólkin hér í bænum er seld of hátt. En sé svo, þá kemur það til af því einu, að samkeppnina vantar. Á framleiðslusviði mjólkur hefir nú komið stór keppinautur. Það hlyti að hafa þau áhrif, að verðið færðist niður, ef það væri óeðlilega hátt. Okkur hefir oft ofboðið fiskverðið, og ýmsar tilraunir hafa fyrr og síðar verið gerðar til að fá það niður, en þær hafa allar mistekizt.

Sama máli gegnir um kostnaðarverð húsanna. Ég hefi ekki gengið í gegnum skýrslur og veit því ekki, hvort húsaleiga er hér óeðlilega há eða ekki. En hitt er vitanlegt, að húsin eru ákaflega dýr. Reynsla allra þeirra, sem byggt hafa til þess að komast hjá húsaleiguokrinu, er sú, að þeir verða að reikna sér dýrari húsaleigu en áður. Húsaleigan verður ekki fengin niður með öðru en því, að hægt sé að byggja hús með minni kostnaði.

Það eina, sem hægt er að gera til að gera auðveldara að byggja, er að útvega hagstæðari lán. Það hefir ekkert verið gert að því að lækka dýrtíðina á þann hátt. Og það er sök stjórnarinnar og þess flokks, sem hana styður. — Nú loks er komið frv., sem ætlað er að veita hjálp í þessum efnum, en hamingjan má vita, hvort nokkuð verður gert til þess að koma því fram.

Ýmsum gamanyrðum hv. þm. ætla ég ekki að eltast við að svara. Hann talaði um, að ég hefði ekki tekið málið alvarlega. Hafi ég verið með gamanyrði í sambandi við þetta mál, þá hefir það komið til af því, að ég hefi átt erfitt með að taka hv. þm. alvarlega. Ég veit, að hann er mjög reikningsglöggur maður og því mjög erfitt að átta sig á því, að hann geti komið þessa vitleysu fram í alvöru, heldur sé hann bara að gera þetta í gamni. En verði þetta samþ., þá fer málið að verða alvarlegra.