15.08.1931
Efri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Jónsson:

Ég á 2 brtt. á þskj. 297, sem ég vil fara um nokkrum orðum. Önnur brtt. er undir lið VI, og flyt ég hana með hv. 2. þm. Eyf. Er hún um það, að inn í 13. gr. komi nýr liður, um fjárframlög til Breiðadalsheiðarvegar.

Þegar litið er á fjárl., kemur það í ljós, að Vestfirðir eru mjög afskiptir, því að þangað er ekki einn eyrir ætlaður til þjóðvega, en í flest önnur héruð er eitthvað lagt, meira eða minna. Það er að vísu lítið á Austfjörðum, en n. hefir tekið þar einn lið í viðbót.

Það má e. t. v. segja, að Vestfirðir hafi dálítið aðra aðstöðu en Austfirðir, þar sem samgöngur og flutningar fara þar meira fram á sjó. En þar er einnig mikil vegaþörf, og má þar einkum til nefna kaflann milli Ísafjarðar og Önundarfjarðar. Ísafjörður hefir lítið uppland, en fyrir botni Önundarfjarðar eru beztu ræktunarskilyrði. Á milli þessara staða er vegarkafli að nokkru bílfær, frá Ísafirði og töluvert upp á Breiðadalsheiði, og líka upp frá Önundarfirði. En þar á milli er kafli 4–5 km. að lengd, sem er alveg ófær vögnum. Nú er áhugi mikill um að fá þennan kafla bílfæran, en hann liggur hátt og er töluvert mikið undir fönn. Þetta vegarstæði hefir oft verið athugað af vegamálastjóra, og hann telur því ekkert til fyrirstöðu að gera þarna vagnfært. Að vísu telur hann, að það verði nokkuð dýrt, 50–60 þús. kr. Það er því ekki ósanngjarnt, að á því sé byrjað að leggja til, að veittar séu 10 þús. kr. Ef þetta tækist, eru tengdir saman fleiri vegir. Frá Ísafirði er kominn vegur til Hnífsdals og frá Önundarfirði til Flateyrar, og síðan bráðum til Dýrafjarðar. Ég vona því, að hv. d. sjái alla sanngirni mæla með þessu og samþ. þessa brtt.

Ég á aðra brtt. undir XXIV. lið. Ég ætla að biðja afsökunar á því, að ég flyt svona till., því að ég er yfirleitt andstæður því að veita fé til einstakra manna. Það er meiri ánægja að flytja brtt., sem snertu verklegar framkvæmdir. En ég tel það rétt, að efnilegir menn séu styrktir, ef þeir hafa hæfileika, þótt við þm. séum e. t. v. ekki hæfir til að dæma um það. Þessi piltur er af fátækum kominn, en hefir brotizt áfram af miklum dugnaði. Hann byrjaði að læra hjá Ásgrími Jónssyni málara og var hjá honum í 3 vetur. Hann sýndi muni eftir sig á sýningu Listvinafél. 1925, sem vöktu mikla eftirtekt. Frá Ásgrími fór hann á listaháskólann í Oslo og hefir verið þar síðan við nám. Nú hefir hann átt mjög erfitt uppdráttar með þetta, og þar að auki er honum þörf, að dómi kennara sinna, að fara til Parísar, því þar er sjálfsagt miðstöð lista í Evrópu. Ég vona þess vegna, að d. sjái sér fært að verða við beiðni þessa unga efnilega manns, en ég skal þó til skýringar leyfa mér að lesa upp nokkur ummæli manna um þennan pilt, því d. getur náttúrlega ekki lagt mikið upp úr því, sem ég segi. Fyrst frá Ásgrími málara. Hann segir svo: „Þorvaldur Skúlason málari sem er á listaháskólanum í Osló að læra að mála, sækir um styrk til að geta haldið áfram námi í vetur. Hann er mjög efnilegur málari og ég tel hann einna efnilegastan af ungum málurum og vænti þess, að hann fái styrk“. Jón Stefánsson segir svo: „Ég hefi fylgzt með vinnu hans og námi í 3 ár; hann er iðinn og reglusamur, sérstaklega mikill hagleiksmaður og efnilegastur ungra málara, sem ég þekki“. Kristín Jónsdóttir segir: „Kornungur og áður en hann naut nokkurrar leiðbeiningar sýndi hann, að hann hafði glöggt auga fyrir aðalatriðum málaralistarinnar“. Prófessor við listaháskólann í Osló segir svo: „Um Þorvald Skúlason, sem hefir verið lærisveinn minn á 2 ár, þori ég að fullyrða, að hann er efnilegastur listmálari af þeim 20 lærisveinum, sem eru í bekknum. Auk þess hefir hann sýnt frábæran áhuga á sínu starfi“.

Ég vona, að þessi ummæli fagmanna á þessu sviði nægi dm. til þess að sannfærast um það, að hér er ekki um óverðugan mann að ræða. Ég vil að lokum geta þess, að hér liggja líka fyrir meðmæli frá menntamálaráðinu um að veita þessum manni styrk. Ég vona þess vegna, að öllu athuguðu, að hv. d. geti séð sér fært að samþ. þessa litlu fjárveitingu, sem verður vitanlega í eitt skipti fyrir öll, til þessa efnilega unga manns.