31.07.1931
Neðri deild: 17. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (2334)

109. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það er rétt hjá hv. 1. þm. S.-M., að Fiskveiðasjóður ráðstafaði fé sínu mjög á annan veg en ég og aðrir hefðu kosið, þegar hann lánaði stórfé til hafnargerða, t. d. á 2. hundrað þús. kr. til hafnargerðarinnar í Reykjavík. En ég get ekki séð, að það sé nein hætta af þessu frv., þótt heimilað sé að veita smálán aðeins til lendingarbóta og bryggjugerða fyrir smábátaútveg. Nú er það eitt af aðalverksviðum Fiskveiðasjóðs að veita lán til þess að kaupa skip, en eins og menn vita er það gagnslítið að hafa skip, ef ekki er hægt að gera þær lendingarbætur, að skipin geti athafnað sig við land. Það hefir líka nýlega orðið sú breyt. á, að sú eina lánsstofnun, sem bæjar-, sýslu- og sveitarfélög gátu flúið til í þessu efni, viðlagasjóður, er nú lokuð fyrir þeim.

Ég ætlast til þess, að til hvers mannvirkis verði aldrei lánaðar meira en 10 þús. kr., og þótt lánað verði til 20 staða á landinu, verða það þó ekki meira en 200 þús. kr., og álít ég, að því fé væri vel varið. Stærri hafnarbætur eru útilokaðar samkv. frv.